Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3147

Haldinn Í gegnum fjarfundabúnað,
17.02.2021 og hófst hann kl. 16:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna S. Guðmundsdóttir varaformaður,
Helga Kristín Kolbeins aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Bæjarstjóri fór yfir beiðni Air Iceland Connect um aðkomu Vestmannaeyjabæjar að áætlunarflugi félagsins sem hefst í apríl á þessu ári.

Óskað var eftir samstarfi við Vestmannaeyjabæ um samnýtingu starfsmanna um aðstoð við móttöku véla þrjá virka morgna í viku, tvær klukkustundir í senn.

Um yrði að ræða tímabundið verkefni Vestmannaeyjabæjar meðan verið er að byggja upp grunn að flugsamgöngum á markaðslegum forsendum, eftir nokkurra mánaða hlé á flugsamgöngum.
Air Iceland Connect myndi tryggja starfsmönnum tilskilda þjálfun, réttindi og tryggingar og um væri að ræða hlutastarf eða tímavinnu.

Framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs kannaði lögmæti slíks framlags og með vísan til 3. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, er sveitarfélögum heimilt að taka að sér hvert það verkefni sem varðar íbúa þeirra, enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum. Öðrum fyrirtækjum sem hyggjast hefja áætlunarflug til Vestmannaeyja verður boðin sama þjónusta á tímabilinu óski þau eftir því.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir að verða við erindinu. Um er að ræða tímabundið tilraunaverkefni af hálfu Vestmannaeyjabæjar.

Öðrum fyrirtækjum sem hyggjast hefja áætlunarflug til Vestmannaeyja verður boðin sama þjónusta á tímabilinu óski þau eftir því.
2. 201810114 - Umræða um heilbrigðismál
Bæjarráð fundaði með Díönu Óskarsdóttur, forstjóra og tveimur öðrum fulltrúum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) þriðjudaginn 16. febrúar sl. Á fundinum fór forstjóri HSU yfir helstu nýjungar í starfsemi stofnunarinnar, svo sem nýtt skipulag sem tók gildi 1. febrúar 2021, þar sem verið er að skýra betur ábyrgðarsvið stofnunarinnar. Jafnframt fór forstjóri HSU yfir drög að framtíðarsýn starfsemi stofnunarinnar, þar sem lagðar verða sérstakar áherslur á heilbrigðisþjónustu, vinnuaðstæður, ábyrg fjármál og gæða- og öryggismenningu. Þá fór forstjórinn yfir þróun fjarlækninga, augnlæknaþjónustu og stöðu viðræðna við Sjónlag og Sjúkratrygginga Íslands um augnlæknaþjónustu í Vestmannaeyjum, forvarnarstarf og geðheilbrigðismál.

Bæjarráð og fulltrúar HSU ákváðu að funda um starfsemi stofnunarinnar með reglulegum hætti.
3. 202005069 - Menntarannsókn
Bæjarstjóri fór yfir nýundirritaða viljayfirlýsingu um samstarfsverkefni menntamálaráðherra, Vestmannaeyjabæjar, fulltrúa atvinnulífsins og Háskóla Íslands um þróunar- og rannsóknarverkefni í Grunnskóla Vestmannaeyja, undir heitinu Árangur og áhugahvöt - kveikjum neistann. Markmið verkefnisins er að efla læsi og bæta líðan nemenda. Um er að ræða breyttar áherslur í framkvæmd og skipulagi skólastarfs með hagsmuni nemenda að leiðarljósi, þ.m.t. ólíkar þarfir kynjanna. Sérstök áhersla verður á stöðu drengja. Áherslurnar snúa að læsi, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og hugarfari nemenda. Jafnframt verður áhersla á þróun á kennsluháttum, kennsluefni, starfsþróun og ráðgjöf kennara og skólastjórnenda.

Árangur og afurðir verkefnisins verða nýttar í þágu allra grunnskólanema á Íslandi. Til stendur að setja á laggirnar menntarannsóknarsetur sem mun annast undirbúning og framkvæmd verkefnisins.

Menntamálaráðuneytið mun leggja verkefninu til 10 m.kr. á árinu 2021, Vestmannaeyjabær aðrar 10 m.kr., Háskóli Íslands mun leggja til hálfa prófessorstöðu og Samtök atvinnulífsins skuldbinda sig til að leggja til fjárhæð sem er ígildi tveggja 20% staða gestaprófessora við rannsóknarsetrið. Til stendur að gera formlegan samning um verkefnið til þriggja ára.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar bæjarstjóra upplýsingarnar og lýsir mikilli ánægju með þróunar- og rannsóknarverkefnið og þátttöku Vestmannaeyjabæjar í því. Aðilar viljayfirlýsingarinnar sýna mikinn metnað með að ráðast í svo viðamikið og mikilvægt verkefni. Verið er að stíga ný skref í uppbyggingu skóladagsins og nýja nálgun í skólastarfi til þess að takast á við þær áskoranir sem eru í kerfinu í dag. Í forgrunni verður læsi og líðan nemenda.
Undirrituð viljayfirlýsing - Árangur og áhugahvöt - kveikjum neistann.pdf
4. 201801019 - Þjónustukönnun Gallup
Þann 9. febrúar sl. var haldinn íbúafundur um niðurstöður þjónustukönnunar Gallup um viðhorf íbúa til ýmissa þátta í rekstri Vestmannaeyjabæjar.

Eru niðurstöður könnunarinnar mjög jákvæðar varðandi þjónustu Vestmannaeyjabæjar. Vestmannaeyjabær er efst þeirra 20 stærstu sveitarfélaga landsins þegar spurt er um þjónustu við barnafjölskyldur og fatlaða. Sveitarfélagið er í öðru sæti þegar kemur að þjónustu við eldri borgara, þjónustu leikskóla, aðstöðu til íþróttaiðkunnar og þjónustu starfsfólks bæjarskrifstofanna. Óhætt er að segja að þegar á heildina er litið eru margar jákvæðar niðurstöður í könnuninni.

Vestmannaeyingar eru líka ánægðastir allra með viðbrögð síns sveitarfélags þegar kemur að aðgerðum vegna COVID-19.

Á íbúafundinum gafst þátttakendum færi á að ræða niðurstöður könnunarinnar í fimm vinnuhópum, sem skiptust eftir málaflokkum eins og þeir heyra undir bæjarráð og fagráð Vestmannaeyjabæjar. Umræðurnar voru upplýsandi og góðar. Teknar voru fyrir ábendingar og athugasemdir sem fram komu um hvern málaflokk.

Niðurstaða
Bæjarráð lýsir mikilli ánægju með að niðurstöður könnunarinnar sýni almenna ánægju bæjarbúa með aðgerðir Vestmannaeyjabæjar við Covid-19. Íbúar í Vestmannaeyjum eru þeir ánægðustu á landinu með umræddar aðgerðir Vestmannaeyjabæjar, þrátt fyrir að ástandið hafi verið erfitt í fyrravor og nauðsynlegt hafi verið að grípa til hertra takmarkana á þjónustu bæjarins. Jafnframt lýsir bæjarráð ánægju með hversu jákvætt viðhorf bæjarbúa er gagnvart öllum helstu þjónustuþáttum á vegum bæjarins.

Bæjarráð fagnar jafnframt jákvæðum niðurstöðum annarrar könnunar á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga, þar sem spurt var m.a. um búsetuskilyrði og hamingju Eyjamanna.
5. 202012042 - Stafræn smiðja (fablab) í Vestmannaeyjum
Bæjarráð fjallaði um drög að samningi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Vestmannaeyjabæjar og Þekkingarseturs Vestmannaeyja um rekstur stafrænnar smiðju í Vestmannaeyjum. Starfsemi stafrænnar smiðju var rekin af Nýsköpunarmiðstöð Íslands í aðstöðu Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum þar til um síðustu áramót. Frumvarp liggur fyrir á Alþingi um að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð.

Starfsemi stafrænnar smiðju er ætlað að efla nýsköpun- og frumkvöðlastarfsemi á þeim svæðum sem þau eru starfrækt. Sérstök áhersla verður á að hvetja ungt fólk til nýsköpunar, en jafnframt aðra áhugasama einstaklinga.

Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið munu leggja verkefninu til fjármagn til rekstursins og Vestmannaeyjabær mun leggja til húsnæði og fjármagn til reksturs þess. Starfsemi stafrænnar smiðju verður hluti af Þekkingarsetri Vestmannaeyja.

Niðurstaða
Bæjarráð ræddi drög að samningi um rekstur stafrænnar smiðju. Bæjarráð felur bæjarstjóra að fylgja málinu eftir með þeim athugasemdum sem fram komu á fundinum og í framhaldinu að undirrita samninginn fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar, með fyrirvara um staðfestingu bæjarstjórnar.
6. 202002051 - Málefni Hraunbúða
Bæjarstjóri upplýsti um fund sem hún og bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar áttu með þingmönnum í Suðurkjördæmi mánudaginn 15. febrúar sl. Á fundinum var farið yfir stöðu yfirfærslu dvalar- og hjúkrunarheimila sveitarfélaganna tveggja til ríkisins og skort á upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu og Sjúkratryggingum Íslands. Jafnframt óskaðu bæjarstjórarnir eftir því við þingmennina að velferðarnefnd Alþingis tæki málið upp. Í dag barst bæjarstjórum Vestmannaeyja, Hornafjarðar og Akureyrar fundarboð frá velferðarnefnd Alþingis um fund með nefndinni þann 23. febrúar nk.

Jafnframt gerði bæjarstjóri grein fyrir því að enginn aðili sýndi því áhuga að reka Hraunbúðir skv. auglýsingu sem Sjúkratryggingar Íslands birtu fyrir um tveimur vikum síðan, þar sem óskað var eftir áhugasömum aðilum. Enn hafa SÍ ekki upplýst Vestmannaeyjabæ um framhaldið um það hvaða rekstraraðili muni taka yfir starfsemina þann 1. apríl nk. Enn þá er eftir viðbrögðum heilbrigðisráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands um framhaldið. Þessi margra mánaða bið er orðin óboðleg öllum sem málið varðar.

Bæjarstjóri sendi Sjúkratryggingum Íslands þann 15. janúar sl. bréf varðandi yfirfærsluna. Hefur því erindi aðeins verið svarað að hluta sbr. bréf Sjúkratrygginga Íslands sem barst bæjarstjóra í gær, rúmum mánuði eftir beiðni Vestmannaeyjabæjar. Þá mun bæjarstjóri ítreka ósk um svör frá forstjóra Sjúkratrygginga Íslands um hver taki við rekstri Hraunbúða.

Frá árinu 2012 hefur Vestmannaeyjabær greitt tæpar 500 m.kr. með rekstri Hraunbúð, sem ríkið á að bera ábyrgð á og fjármagna.

Vestmannaeyjabær er og mun áfram verða í samfloti með öðrum sveitarfélögum sem sagt hafa upp samningi við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila.

Niðurstaða
Bæjarráð lýsir yfir miklum vonbrigðum með seinagang Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) vegna yfirfærslu á rekstri Hraunbúða. Bæjaryfirvöld ákváðu í lok maí á síðasta ári að endurnýja ekki samning við SÍ um rekstur Hraunbúða sem rann út 31. desember sl. (uppsögn var svo frestað til 31. mars 2021) og var stofnuninni og heilbrigðisráðherra tilkynnt um ákvörðun bæjarins 26. júní 2020 þannig að SÍ gæfist nægur tími til þess að undirbúa yfirfærsluna.

Bæjarráð tekur undir með bæjarstjórn Akureyrar að algjört ráðaleysi virðist ríkja innan SÍ um hvað gera skuli við hjúkrunarheimili í þeim sveitarfélögum sem hafa ákveðið að endurnýja ekki samninga um rekstur. SÍ auglýsti eftir nýjum rekstraraðila tæpum sjö mánuðum eftir að samningnum var sagt upp og er því enn óvissa ríkjandi um hver kemur til með að reka heimilin frá og með 1. apríl nk.

Bæjarráð ítrekar kröfu um að þessari óvissu verði eytt án tafar vegna allra þeirra sem hlut eiga að máli þ.e. íbúa, aðstandenda og ekki síst starfsfólks sem á rétt á að njóta öryggis og fyrirsjáanleika í starfsumhverfi sínu.

Í ljósi stöðunnar í viðræðum við Sjúkratrygginga Íslands, hefur Vestmannaeyjabær ákveðið að leita sér sérhæfðrar lögfræðiaðstoðar um yfirfærsluna.
7. 202008147 - Stöðuskýrslur uppbyggingarteymis félags- og atvinnumála
Lögð var fram 10. stöðuskýrsla teymis um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar Covid-19. Stöðuskýrslan er dagsett þann 28. janúar 2021.
Stöðuskýrsla uppbyggingarteymis 28.1.2021 - 10 fundur.pdf
8. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Lögð var fram fundargerð 567. stjórnarfundar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem haldinn var þann 5. febrúar sl.
567.-fundur-stj.-SASS.pdf
9. 200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð
Trúnaðarmál eru færð í sérstaka fundargerð trúnaðarmála.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:31 

Til baka Prenta