Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3141

Haldinn Í gegnum fjarfundabúnað,
17.11.2020 og hófst hann kl. 16:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður,
Helga Kristín Kolbeins aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 202006242 - Fjárhagsáætlun 2021
Bæjarstjóri gerði grein fyrir fundum og vinnu sem átt hefur sér stað frá framlagningu fjárhagsáætlunar á síðasta bæjarstjórnarfundi þann 5. nóvember sl. Við framlagningu fjárhagsáætlunarinnar kom fram í framsögu bæjarstjóra að ákveðið hefði verið að bíða með afstöðu til nokkurra verkefna milli umræðna, þar sem óljóst var hverjar raunútsvarstekjum þessa árs yrðu til að áætla tekjur næsta árs. Ennþá er beðið eftir endanlegum áætlunum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Ákveðið var að bíða með nokkrar eignfærslur, eins og í tengslum við uppbyggingu nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs á 3. hæðinni í Fiskiðjuhúsinu, en jafnframt nokkur gjaldfærsluverkefni.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar
2. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Að frumkvæði bæjarráðs funduðu bæjarfulltrúar með samninganefnd Herjólfs föstudaginn 6. nóvember sl., þar sem farið var yfir stöðu samningaviðræðnanna og helstu atriði sem liggja til grundvallar í nýjum samningi milli Vegagerðarinnar og Vestmannaeyjabæjar um áframhaldandi rekstur Herjólfs. Enn liggur ekki fyrir fullbúinn samningur, en samkomulag hefur náðst um helstu atriði samnings sem gildir til þriggja ára.

Niðurstaða
Bæjarráð felur samninganefndinni að ljúka samningsgerðinni við Vegagerðina á þeim nótum sem kynnt var bæjarfulltrúum. Endanlegur samningur verður síðan lagður fyrir bæjarstjórn.


3. 202002051 - Málefni Hraunbúða
Bæjarstjóri greindi frá fundum með Maríu Heimisdóttur, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands um framhald reksturs Hraunbúða. Lagt er til við bæjarstjórn að Vestmannaeyjabær reki Hraunbúðir áfram til a.m.k. 1. apríl á næsta ári. Með því er verið að freista þess að starfshópur heilbrigðisráðherra um fjármál dvalar- og hjúkrunarheimila hafi lokið greiningu á heimilunum og fyrir liggi niðurstöður um hvort ríkinu beri að greiða umtalsvert hærri upphæð með rekstri þeirra en gert hefur verið undanfarin ár. Liggi ekki fyrir niðurstaða í mars á næsta ári, er ljóst að reksturinn færist til ríkisins.

Fyrir liggja drög að þriggja mánaða samningi milli Sjúkratrygginga Íslands og Vestmannaeyjabæjar um rekstur Hraunbúða.

Niðurstaða
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá samningi um rekstur Hraunbúða á þeim nótum sem bæjarráð ræddi um, með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar og að teknu tilliti til dagdvalarþjónustu við eldri borgara sem rædd var á fundinum.
4. 202003036 - Viðbrögð vegna veiruógnunar
Bæjarstjóri fór yfir stöðuna á stofnunum bæjarins. Vel hefur tekist að fylgja eftir hertum fjölda- og samkomutakmörkunum. Langt er síðan smit kom upp í Vestmannaeyjum. Bæjarbúar hafa sýnt þessu ástandi skilning og æðruleysi. Ákveðið var að setja upp jólaljósaskreytingar í bænum fyrr en ella, til þess að létta fólki lundina og lýsa upp skammdegið í þessu ástandi.

Bæjarstjóri greindi frá því að hætt hefði verið við að halda árshátíð starfsfólks Vestmannaeyjabæjar á þessu ári. Þess í stað hefur forstöðumönnum stofnana bæjarins verið veitt heimild til að veita starfsmönnum eins konar árshátíðarglaðning að fjárhæð 4.500 kr. fyrir hvern starfsmann, eins og bæjarráð hefur verið upplýst um.

Bæjarráð langar að færa þeim aðilum sem stóðu að sýningu ljósmynda í verslunargluggum bæjarins þakkir fyrir frábært frumkvæði og framkvæmdina sjálfa.
5. 202011037 - Starfshættir kjörinna fulltrúa
Bæjarráð ræddi umræður og bókanir sem lagðar voru fram á bæjarstjórnarfundi þann 5. nóvember sl.

Ákvæði 3. mgr. 18. gr. bæjarmálasamþykktar um aðgang bæjarfulltrúa að gögnum er algjörlega skýrt, en þar segir að bæjarfulltrúi skuli beina beiðni um aðgang að gögnum til bæjarstjóra sem veitir honum afrit af gögnum, upplýsingum eða öðru aðgengi. Þetta ákvæði hefur verið í bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyja til margra ára og a.m.k. síðan 2004. Bæjarfulltrúar hafa hvorki boðvald né stjórnendaumboð til þess að fela starfsmönnum bæjarins verkefni. Réttbær yfirmaður starfsliðs Vestmannaeyjabæjar er bæjarstjóri. Auk þess er eðlilegt þegar einn bæjarfulltrúi óskar eftir upplýsingum, að aðrir bæjarfulltrúar fái sömu upplýsingar, til þess að geta kynnt sér efni sem um ræðir. Þessi leið er því fyrst og fremst hugsuð til að efla fagmennsku við meðferð fyrirspurna og upplýsingagjöf til kjörinna fulltrúa. Þá er jafnframt eðlilegt að bæjarstjóri deili út þeim verkefnum sem bæjarskrifstofum eru falin af utanaðkomandi aðilum og að hann geti kynnt sér þau mál sem verið er að óska eftir, sem æðsti stjórnandi þeirrar stofnunar sem verið er að óska upplýsinga frá.

Bæjarfulltrúar eiga að vera meðvitaðir um umrætt ákvæði. Bæjarfulltrúar eru hvattir til að virða þær reglur sem settar hafa verið um stjórn og starfshætti bæjarfélagsins og leggja ekki fram bókanir um að þeir brjóti þær reglur vísvitandi.

Niðurstaða
Bókun frá fulltrúa E lista:
Á Akureyri ákvað bæjarstjórn að leggja ágreining til hliðar á þessum erfiðu tímum og sameinast um að vinna að hagsmunum sveitarfélagsins og íbúum þess. Því miður er staðan í Vestmannaeyjum ekki þannig. Betur færi á því að bæjarfulltrúar leggðu pólitíska leiki til hliðar og sameinuðust í vinnu sinni fyrir samfélagið, jafnvel þó flóknum spurningum sé ekki svarað tveimur dögum eftir að þær eru lagðar fram.
Njáll Ragnarsson (sign)

Bæjarráð hefur samþykkt ósk Helgu Kristínar Kolbeins, bæjarfulltrúa, um að hún móti drög að verklagsreglum um aðgang bæjarfulltrúa að gögnum, sem byggðar eru á bæjarmálasamþykkt, sveitarstjórnarlögum, stjórnsýslulögum og upplýsingalögum og siðareglum kjörinna fulltrúa.
Tölvupóstur Hildar Sólveigar Sigurðardóttur - ýmsar fyrirspurnir.pdf
6. 202009118 - Viltu hafa áhrif 2021
Fyrr á þessu ári auglýsti Vestmannaeyjabær eftir ábendingum, tillögum og styrkumsóknum undir heitinu Viltu hafa áhrif 2021? Markmiðið með þessu er að stuðla að auknu íbúalýðræði í Vestmannaeyjum með því að gefa fólki, fyrirtækjum og félagasamtökum tækifæri á að hafa áhrif á bæinn sinn í gegnum fjárhagsáætlun næsta árs. Fjölmargar góðar ábendingar hafa borist í gegnum tíðina. Má þar m.a. nefna styrki til fjölda sýninga, menningartengdrar bókaútgáfu, leiktækja á opnum svæðum og göngustíga.

Bæjarráð hittist á vinnufundi 16. nóvember sl. og tók ákvörðun um hverjir hljóta styrki í ár. Í fjárhagsáætlun ársins 2021 er gert ráð fyrir 11 m.kr. í Viltu hafa áhrif?. Alls bárust í ár 26 styrkumsóknir sem og fjöldi ábendinga um hvað betur má fara í Vestmannaeyjum.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar bæjarbúum fyrir fjölbreyttar umsóknir og ábendingar. Það er ljóst að bæjarbúar eru hugmyndaríkir um hvernig gera megi góðan bæ enn betri. Upplýst verður um hvaða aðilar hlutu styrk við síðari umræðu um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn 3. desember nk. Styrkirnir verða svo formlega afhentir þriðjudaginn 8. desember nk.7. 202001121 - Boðun XXXV. landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga
Bæjarstjóri upplýsti um fyrirhugað landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldið verður föstudaginn 18. desember nk. XXXV. landsþing Sambandsins verður haldið með rafrænum hætti og ættu allir landsþingsfulltrúar að hafa fengið fundarboð. Aðalfulltrúar sveitarfélagsins eru Íris Róbertsdóttir, Njáll Ragnarsson og Hildur Sólveig Sigurðardóttir.
Landsþing Sambandsins 2020.pdf
8. 202010050 - Endurskoðun og uppgjör fyrir Vestmannaeyjabæ fyrir árin 2020 til og með 2022
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir vék af fundi undir þessum lið.

Bæjarráði barst bréf þann 4. nóvember sl., frá PWC, vegna niðurstöðu verðfyrirspurnar í endurskoðun og uppgjör Vestmannaeyjabæjar fyrir árin 2020-2022. Í bréfinu er óskað eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun bæjarráðs að ganga að tilboði KPMG í umrædda vinnu. Jafnframt er farið fram á að bæjarráð taki erindið fyrir efnislega á bæjarráðsfundi og svari þremur spurningum PWC.

Niðurstaða
Bæjarráð fjallaði um efni erindisins og þær spurningar sem settar eru fram af hálfu PWC. Bæjarráð ræddi aftur hvaða þætti eðlilegt væri að taka tillit til við mat á verðtilboðunum og telur eðlilegt að meta alla þá þætti sem framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og fjármálastjóri tóku tillit til við mat þeirra á verðtilboðunum. Bæjarráð fól framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að útbúa og senda svarbréf f.h. bæjarráðs sem byggir á niðurstöðum þessa fundar.
Bréf PWC til bæjarráðs Vmbæjar vegna niðurstöðu vals á tilboðum um endurskoðun 2020.pdf
Svarbréf Vestmannaeyjabæjar vegna erindis PWC um niðurstöðu verðtilboðs vegna endurskoðunar 2020-2022.pdf
9. 201911075 - Framtíðarskipan 3. hæðar í Fiskiðjuhúsinu
Bæjarstjóri og framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs fóru yfir stöðuna á undirbúningi nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi í Fiskiðjunni. Haldnir hafa verið fundir með atvinnu- og nýsköpunarráðherra um vinnu og hugmyndir sveitarfélagsins. Jafnframt hafa verið haldnir fundir með vinnuhópi menntamálaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um útfærslu starfrænna smiðja. Mikilvægt er að halda þessari vinnu áfram og leggja áherslu á að finna fjármagn til þess að hanna og ljúka við starfsaðstöðu nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi sem allra fyrst.

Mikilvægt er að nýta þann áhuga sem ríkir í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og það forskot sem Vestmannaeyjabær hefur með þeirri stefnumótunarvinnu og aðgerðaáætlun sem unnin hefur verið á undanförnum mánuðum. Hér er um að ræða óþrjótandi tækifæri sem spennandi er að þróa áfram. Er Vestmannaeyjabær í kjörstöðu til að greiða götu slíkra verkefna í húsnæði sem hefur nálægð og góða tengingu .

Niðurstaða
Bæjarráð leggur áherslu á að til komi fjármagn í fjárhagsáætlun 2021 til þess að hefja vinnu við aðstöðu fyrir nýsköpunar- og frumkvöðlastarf í samstarfi við ÞSV. Komi til fjármagn úr markáætlun Rannís er mikilvægt að hægt sé að bjóða upp á aðstöðu. Framkvæmdunum verði þannig skipt upp í verkþætti eftir þörf hverju sinni. Mikilvægt er að hefja undirbúning vinnunnar svo við missum ekki niður það frumkvæði sem er til staðar.


10. 202009010 - Stytting vinnuvikunnar í kjaramálum
Síðastliðnar vikur og mánuði hefur undirbúningur staðið yfir á vinnustöðum Vestmannaeyjabæjar um styttingu vinnuvikunnar fyrir dagvinnufólk. Lagt var upp með eftirfarandi þrjú markmið í þessari vinnu: 1) að skapa ávinning fyrir starfsfólk; b) skerða ekki þjónustu sveitarfélagsins og; c) niðurstaðan leiði ekki til kostnaðarauka.

Verkefnið hefur gengið mjög vel og hefur starfsfólk á vinnustöðum tekið virkan þátt, staðið fyrir fræðslu og fundum á vinnustöðunum og á mikið hrós skilið fyrir að vinna þetta vel í þeim aðstæðum sem nú eru.

Starfsfólk hefur lagt fram tillögur fyrir sína vinnustaði og er síðasti skiladagur tillagnanna 18. nóvember nk. Í framhaldinu fara fram kosningar á hverjum vinnustað um hvaða tillaga verður fyrir valinu. Þá verður unnið samkomulag úr niðurstöðum sem sendar verða bæjarstjórn til samþykktar. Óhætt er að segja að starfsfólk hefur lagt sig fram um að skoða vinnuumhverfi sitt, rýna í skipulag vinnunnar og ræða vinnustaðamenninguna.

Hér er um að ræða stórt samstarfsverkefni starfsmanna, stjórnenda stofnana, stéttarfélaga og bæjarfélagsins, sem nær til allra vinnustaða Vestmannaeyjabæjar. Gagnlegt hefur verið fyrir alla þessa aðila að koma að verkefninu og er samstarfið nauðsynlegt fyrir árangur og framgang verkefnisins.
11. 201904142 - Umsagnir frá Alþingi - bæjarráð
Þann 11. nóvember sl. sendi nefndarsvið Alþingis til umsagnar tillögu til þingsályktunar um aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, 43. mál.

Þess er óskað að umsögn berist ekki síðar en 25. nóvember nk.

Jafnframt sendi nefndarsvið Alþingis þann 5. nóvember sl., til umsagnar tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar, 39. mál.

Óskað er eftir því umsögn berist eigi síðar en 19. nóvember nk.

Niðurstaða
Bæjarráð felur bæjarstjóra að senda umsögn Vestmannaeyjabæjar um framtíð Reykjavíkurflugvallar.
Alþingi - til umsagnar - þingsályktunartillaga um kosningu um framtíð Reykjavíkurflugvallar.pdf
Alþingi - til umsagnar - þingsályktunartillaga um aðgerðir fyrir sveitarfélög vegna heimsfaraldurs.pdf
12. 202011025 - Ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélaga
Með ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, dags. 19. mars 2020, var sveitarstjórnum veitt heimild til að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga til að tryggja starfshæfi sitt og auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélags, á grundvelli VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga.
Með auglýsingu, dags. 11. ágúst 2020, var heimildin framlengd þrjá mánuði eða til 10. nóvember nk. Í ljósi hertra samkomutakmarkana og að viðhöfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ráðherra framlengt ofangreinda heimild í fjóra mánuði til viðbótar eða til 10. mars 2021. Meginefni umræddrar heimildar lýtur að notkun fjarfundabúnaðar við fundi bæjarstjórnar, bæjarráðs og annarra fagráða sveitarfélaga.
Bréf sveitarstjórnarráðuneytisins um auglýsingu til að tryggja starfhæfi sveitarfélaga.pdf
Auglýsing sveigtarstjórnarráðuneytisins um að tryggja starfhæfi sveitarfélaga 1076_2020.pdf
13. 202011050 - Erindi frá Björgunarfélagi Vestmannaeyja
Bæjarráð tók fyrir erindi Björgunarfélags Vestmannaeyja frá 15. nóvember sl.

Niðurstaða
Bæjarráð vísar málinu til umhverfis- og skipulagsráðs.
14. 202011051 - Erindi vegna Sólhlíðar 17
Bæjarráð tók fyrir erindi lóðarhafa við Sólhlíð 17 frá 30. október sl.

Niðurstaða
Bæjarráð vísar málinu til umhverfis- og skipulagsráðs.
15. 202002066 - Þjónustusamningur Markaðsstofu Suðurlands og Vestmannaeyjabæjar
Bæjarráð tók fyrir erindi frá framkvæmdastjóra Markaðsstofu Suðurlands þar sem óskað er eftir endurnýjun samstarfssamnings við markaðsstofuna. Jafnframt er í erindinu kynnt hugmynd um breytingu á markaðsstofunni í svokallaða áfangastaðastofu. Óskar framkvæmdastjórinn eftir því við Vestmannaeyjabæ að fá að kynna breytingarnar í sérstakri kynningu.

Niðurstaða
Þar sem hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum sjá ekki hag sinn í áframhaldandi samstarfi við Markaðsstofu Suðurlands og hafa óskað eftir að fjárveitingar Vestmannaeyjabæjar til á grundvelli samstarfssamnings, renni frekar til verkefna á vegum Ferðamálasamtaka Vestmannaeyjabæjar, hefur bæjarráð ákveðið að endurnýja ekki samning við markaðsstofuna um áframhaldandi samstarf.

Bæjarráð felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að svara erindi framkvæmdastjóra Markaðsstofu Suðurlands. Jafnframt felur bæjarstjóra að óska eftir kynningu á hlutverki áfangastaðastofu og meta hvort það þjóni hagsmunum Vestmannaeyjabæjar að taka þátt í slíku samstarfi.
Ósk um endurnyjun samnings_ 2020_Vestmannaeyjabær.pdf
Ársreikningur Markaðsstofu Suðurlands 2019.pdf
Áfangastaðastofa Suðurlands_minnisblað til ANR 2020.pdf
16. 202002052 - Störf undanþegin verkfallsheimild
Lögð voru fyrir bæjarráð drög að uppfærðri auglýsingu um störf sem undanþegin eru verkfallsheimild. Samkvæmt lögum skal eiga sér samráð við stéttarfélög um umrædda auglýsingu áður en hún er send ráðuneytinu til staðfestingar og Stjórnartíðindum til birtingar. Búið er að leita álits allra umræddra stéttarfélaga.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir, fyrir sitt leyti, lista um störf sem eru undanþegin verkfallsheimild og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að fylgja listanum eftir við hlutaðeigandi aðila.
17. 202008147 - Stöðuskýrslur uppbyggingarteymis félags- og atvinnumála
Lögð var fram til upplýsinga stöðuskýrsla uppbyggingarteymis félags- og atvinnumála frá 6. nóvember sl.
Stöðuskýrsla uppbyggingarteymis félags- og atvinnumála.pdf
18. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Lagðar voru fram til upplýsinga fundargerðir 563. fundar stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem haldinn var 28. október sl. og 890. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var þann 30. október sl.
stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga - 890.pdf
563.-fundur-stj.-SASS.pdf
19. 200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð
Afgreiðsla trúnaðarmála er færð í sérstaka fundargerð
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:30 

Til baka Prenta