Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3126

Haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,
14.05.2020 og hófst hann kl. 11:45
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna S. Guðmundsdóttir varaformaður,
Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Angantýr Einarsson embættismaður.
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201810114 - Umræða um heilbrigðismál
Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, að undanskildum forstjóra, mætti á fund bæjarráðs til þess að gera grein fyrir málefnum stofnunarinnar og sér í lagi áhrifum af ákvörðun yfirstjórnarinnar um aðkeypta ræstingu á stofnuninni.

Niðurstaða
Það er nöturlegt til þess að hugsa að á sama tíma og atvinnuleysi eykst á Íslandi í kjölfar heimsfaraldurs Covid, skulu forsvarsmenn HSU áforma að segja upp starfsfólki í ræstingu við stofnunina í Vestmannaeyjum, sem unnið hefur undir miklu álagi á undanförnum mánuðum. Það eru kaldar kveðjur í ástandinu sem ríkir í samfélaginu á sama tíma og sveitarfélagið hefur markvisst unnið að því að tryggja störf og koma til móts við bæjarbúa, t.a.m. með frestun gjaldheimtu. Þar að auki hafa aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar miðað að því að verja störf, einkum og sér í lagi kvennastörf.

Bæjarráð Vestmannaeyja skorar eindregið á yfirstjórn HSU að draga umrædd áform til baka tafarlaust.
2. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. komu á fund bæjarráðs til þess að fjalla um stöðu félagsins og viðræður við Vegagerðina um áframhaldandi þjónustustig félagsins vegna siglinga milli lands og Eyja.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og fagnar því skrefi að nú sigli skipið 6 ferðir alla daga til og frá Vestmannaeyjum. Mikilvægt er að halda uppi því þjónustustigi sem nauðsynlegt er til þess að fólk og fyrirtæki geti nýtt sér í leik og starfi þær góðu samgöngur sem Landeyjahöfn býður uppá.
3. 202003036 - Viðbrögð vegna veiruógnunar
Bæjarstjóri gerði grein fyrir stöðu og viðbrögðum yfirvalda vegna útbreiðslu COVID-19 í Vestmannaeyjum. Staðan í Vestmannaeyjum er sú að 105 smit hafa verið greind. Af þeim sem greinst hafa jákvæðir hafa allir náð bata. Ekkert nýtt smit hefur greinst síðan 20. apríl sl., sem eru góðar fréttir fyrir Vestmannaeyinga og sýna að aðgerðir eru að skila tilætluðum árangri. Mikilvægt er að hafa í huga að enn þá þarf að gæta að sér og fylgja öllum reglum.
Vestmannaeyjabær hefur að undanförnu unnið að undirbúningi sumarstarfa fyrir 17 ára og eldri fyrir árið 2020. Alls sóttu 94 um sumarstarf hjá Vestmannaeyjabæ fyrir þetta ár, en árið 2019 voru umsóknirnar 95. Þá voru umsóknir í Vinnuskólann, þ.e. fyrir 8. -10. bekk grunnskóla, 88 talsins, en í fyrra voru umsóknirnar 71.
Nýlega kynntu menntarmálaráðherra og félegsmálaráðherra úrræði fyrir námsfólk á háskólastigi með fjölgun sumarstarfa í samstarfi við sveitarfélög og stofnanir ríkisins. Ríkissjóður greiðir meirihluta launa vegna umræddra starfa og sótti Vestmannaeyjabær um úthlutun fyrir sjö störfum, en fékk úthlutað fjórum. Til viðmiðunar við úthlutun starfa hafði Vinnusmálastofnun annars vegar óskir sveitarfélaganna og hins vegar stöðu á vinnumarkaði í einstaka sveitarfélögum. Alls sóttu 67 af 72 sveitarfélögum um úthlutun starfa.
Ekki liggja fyrir nýjar tölur um atvinnuleysi eða hlutabótaleið stjórnvalda frá Vinnumálastofnun fyrir Vestmannaeyjar, en gera má ráð fyrir að fækkun hafi orðið á hlutabóatleiðinni vegna áhrifa af afléttingu samkomubanns.
Bæjarstjóri gerir ráð fyrir að öllum þeim sem sóttu um sumarstarf verði boðið starf á vegum bæjarins.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir að bjóða öllum þeim sem sótt hafa um sumarstarf og hafa lögheimili í Vestmannaeyjum starf. Bæjarráð fagnar því að hafa fengið úthlutað fjórum störfum fyrir námsmenn á háskólastigi. Bæjarráð þakkar bæjarstjóra upplýsingarnar.
4. 202005033 - Innkaupareglur Vestmannaeyjabæjar
Bæjarráð tók fyrir drög að nýjum innkaupareglum Vestmannaeyjabæjar. Gerðar voru breytingar á lögum um opinber innkaup 2016, sem tóku að fullu gildi vorið 2019 og kölluðu á uppfærðar innkaupareglur sveitarfélaga, m.a. um innlendar viðmiðunarfjárhæðir og innkaupaaðferðir. Að auki var unnin sérstök innkaupastefna sem birtist nú sem hluti innkaupareglnanna.

Innpaupareglurnar eru unnar að fyrirmynd Sambands íslenskra sveitarfélaga og staðfærðar með þarfir og vinnulag Vestmannaeyjabæjar að leiðarljósi.

Niðurstaða
Fulltrúar bæjarráðs munu fara yfir reglurnar á milli funda og taka þær fyrir til samþykktar á næsta fundi bæjarráðs.
5. 202004099 - Endurskoðaðar samþykktir Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf.
Lögð voru fyrir bæjarráð drög að endurskoðuðum samþykktum Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. sem unnin voru að frumkvæði bæjarstjóra. Meginbreytingin sem lögð er til snýst um aukna og formfastari aðkomu bæjarstjórnar að skipun stjórnar. Aðrar breytingar taka mið af því að samþykktirnar endurspegli ákvæði núgildandi laga auk annarra minniháttar orðalagsbreytinga sem ekki fela í sér efnislegar breytingar, en gera efni samþykktanna skýrara. Þá er lagt til að ákvæði sem ekki er sérstök þörf á verði felld út.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar greinargóðar upplýsingar og lýsir ánægju með uppfærðar samþykktir Herjólfs ohf. Mikilvægt er að samþykktir félagsins tryggi lýðræðislega skipun stjórnar með aðkomu bæjarstjórnar, en ekki einungis bæjarstjóra, líkt og gert var ráð fyrir við stofnun félagsins.

Bókun frá fulltrúa D-lista
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fagnar því að skilningur allra bæjarfulltrúa á eðlilegri lýðræðislegri skipan stjórnar Herjólfs ohf. með umboði bæjarstjórnar verður nú loks sameiginlegur. Í tvígang hefur meirihluti H- og E- lista gengið fram með ólýðræðislegum hætti við stjórnarkjör Herjólfs ohf., einu stærsta B-hluta félagi sveitarfélagsins án aðkomu bæjarstjórnar.
(Sign. Hildur Sólveig Sigurðardótir)

Bókun frá fulltrúum H- og E-lista
Tvisvar á kjörtímabilinu hefur verið skipað í stjórn Herjólfs ohf. á grundvelli þágildandi samþykkta og var í bæði skiptin skipað eftir tilnefningum allra framboða í bæjarstjórn, þar á meðal sjálfstæðisflokksins. Verklagið var á sínum tíma staðfest rétt í lögfræðiáliti lögmanns bæjarins.
Meirihluti E- og H- lista hefur markvisst unnið að því að gera stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar lýðræðislegri og mun halda því áfram. Óskandi væri að sjálfstæðismenn kæmu af
heilindum með í þá vegferð.
(Sign. Njáll Ragnarsson og Jóna Sigríður Guðmundsóttir)

Bókun frá fulltrúa D-lista
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa alla tíð talið eðlilegt að lýðræðisleg skipan stjórnar Herjólfs ohf. eigi að fara fram á fundi bæjarstjórnar rétt eins og gert var við stofnun félagsins. Þrátt fyrir lögfræðiálit í vörnum meirihlutans finnur hann sig þó knúinn til að breyta samþykktunum í takt við túlkun og óskir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Það er ánægjulegt.
(Sign. Hildur Sólveig Sigurðardótir)
6. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Til upplýsinga voru lagðar fyrir bæjarráð tvær fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, þ.e. nr. 882 vegna fundar þann 29. apríl sl. og nr. 883 vegna fundar þann 8. maí sl. Jafnframt var lögð fram 557. fundargerð stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga vegna fundar sem haldinn var 22. apríl sl.
Fundargerð 882. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.pdf
Fundargerð 883. fundar stjórnar Sambands íslenskrar sveitarfélaga.pdf
Fundargerð 557. fundar stjórnar SASS.pdf
7. 200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð
Afgreiðsla trúnaðarmála er færð í sérstaka fundargerð.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:00 

Til baka Prenta