Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3153

Haldinn í fundarsal Ráðhúss,
28.04.2021 og hófst hann kl. 16:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna S. Guðmundsdóttir varaformaður,
Helga Kristín Kolbeins aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201904050 - Bæjarlistamaður Vestmannaeyja
Vestmannaeyjabær auglýsti á dögunum eftir umsóknum og tillögum um bæjarlistamann fyrir árið 2021. Alls bárust 6 umsóknir og tillögur.

Niðurstaða
Bæjarráð lýsir ánægju með þær umsóknir og tilnefningar sem bárust á þessu ári. Heilmikil gróska er í menningu og listum í Vestmannaeyjum. Bæjarráð tók ákvörðun um bæjarlistamann úr þessum hópi frábærra listamanna, en tilkynnt verður um valið þann 1. maí nk. Verður athöfninni streymt af vef Vestmannaeyjabæjar.
2. 202002051 - Málefni Hraunbúða
Bæjarstjóri fór yfir stöðu yfirfærslu Hraunbúða til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, sem tekur gildi 1. maí nk. Eins og fram hefur komið náðist samkomulag við heilbrigðisráðuneytið um að öllu starfsfólki verði boðin störf á sömu kjörum við yfirfærsluna og hefur allt starfsfólk ákveðið að þiggja störf hjá nýjum rekstraraðila.

Jafnframt fór bæjarstjóri yfir stöðu viðræðna við heilbrigðisráðuneytið um húsnæði Hraunbúða, sem er að fullu í eigu Vestmannaeyjabæjar. Vestmannaeyjabær fer fram á að ríkið greiði eðlilegt endurgjald fyrir afnot af húsnæðinu. Áætlaður fundur með heilbrigðisráðuneytinu er áætlaður í næstu viku.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar. Jafnframt þakkar bæjarráð starfsfólki Hraunbúða fyrir frábært og óeigingjarnt starf með heimilisfólkinu í gegnum árin. Það er gott til þess að vita að Vestmannaeyingar eigi svo gott og hjartahlýtt starfsfólk á Hraunbúðum.
3. 201801078 - Jafnlaunavottun
Vestmannaeyjabær hefur síðan árið 2019 verið að þróa og innleiða jafnlaunakerfi í rekstri bæjarins. Um er að ræða umfangsmikið verkefni sem hefur tekið tíma að móta og innleiða.

Meginmarkmið jafnlaunakerfis er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunakerfi er ætlað að tryggja að við ákvörðun launa séu málefnaleg sjónarmið höfð að leiðarljósi.

Faggiltur vottunaraðili metur hvort öll skilyrði staðalsins séu uppfyllt og veitir viðkomandi fyrirtæki eða stofnun, á grundvelli þeirra skilyrða, jafnlaunavottun.

Þau gleðilegu tíðindi bárust fyrr í vikunni að Vestmannaeyjabær hefði hlotið vottun fyrir jafnlaunakerfi bæjarins.

Niðurstaða
Bæjarráð lýsir ánægju með að Vestmannaeyjabær hafi hlotið jafnlaunavottun og þakkar því starfsfólki sem komið hefur að undirbúningi og innleiðingu kerfisins fyrir góða vinnu. Mikilvægt er að vinna áfram eftir þeim verkferlum og reglum sem gerðar hafa verið í kerfinu til þess að tryggja að óútskýrður kynbundinn launamunur verði ekki til staðar í framtíðinni.
Jafnlaunavottun - Vottunarskírteini VB.pdf
4. 202104117 - Skipulag Safnahússins og stofnana í húsinu
Lagt var fram minnisblað framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og forstöðumanns Safnahússins um skipulag Safnahússins í Vestmannaeyjum.

Safnahúsið samanstendur af átta söfnum eða safndeildum í eigu og umsjón Vestmannaeyjabæjar, þ.e. bókasafni, héraðsskjalasafni, Landlyst/Skanssvæði, listasafni, ljósmynda- og kvikmyndasafni, Sagnheimum, byggðasafni og náttúrugripasafni og Sigmundssafni. Þá heyrir fjölmenning undir Safnahúsið.

Í minnisblaðinu er tillaga um að fella öll umrædd söfn í Safnahúsi undir ábyrgð eins forstöðumanns og að ráðinn verði verkefnastjóri sem annast faglega umsjón með starfsemi Sagnheima, Byggðasafns, sem jafnframt verður staðgengill forstöðumanns. Með þessu er stjórnskipulag safnanna einfaldað og rekstur þess gerður hagkvæmari.

Þá er er lagt til að myndaðar verði fimm einingar/deildir undir Safnahúsi: a) Bókasafn; b) fjölmenning; c) ljósmynda- og listasafn; d) Héraðsskjalasafn og; e) Sagnheimar, sem inniheldur m.a. Byggðasafnið, Náttúrugripasafnið og Landlyst (Skansvæðið).

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir tillögu framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og forstöðumanns Safnahússins um skipulag starfseminnar og skipurit í Safnahúsinu og að ráðinn verði verkefnastjóri í stað forstöðumanns Sagnheima, Byggðasafns. Ekki er um að ræða nýjar fjárheimildir í fjárhagsáætlun 2021.

Skipurit Safnahúss 2021.pdf
Minnisblað um breytt skipulag Safnahúss Vestmannaeyja - lokaeintak.pdf
5. 201909118 - Húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar
Bæjarstjórn ákvað á fundi sínum þann 3. desember sl., að skipa starfshóp framkvæmdastjóra sviðanna til að meta húsnæðisþörf fyrir starfsemi bæjarins og móta tillögur í þeim efnum. Hlutverk starfshópsins er m.a. að meta húsnæðisþörf þeirra stofnana Vestmannaeyjabæjar sem fyrirhugað er að flytji starfsemi sína annað á næstu árum. Starfshópnum var ætlað að leggja fram tillögu um hvernig skuli ráðstafa því húsnæði sem verður til vegna þessa, þ.e. bjóða það til sölu, leigu, annarrar notkunar eða niðurrifs.

Starfshópurinn lagði fram drög að minnisblaði sem inniheldur tillögur um ráðstöfun húsnæðis stofnana Vestmannaeyjabæjar sem fyrirhugað er að flytji starfsemi sína á næstu árum.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar fyrir drögin og mun afgreiða málið þegar endanlegt minnisblað liggur fyrir.
6. 201904142 - Umsagnir frá Alþingi - bæjarráð
Þann 21. apríl sl., sendi nefndasvið Alþingis Vestmannaeyjabær beiðni um umsögn um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006 (gagnsæi, skráning og vinnsla persónuupplýsinga), 668. mál. Umsagnarfrestur er 12. maí nk.

Jafnframt sendi nefndasvið Alþingis þann 15. apríl sl. Vestmannaeyjabæ, beiðni um umsögn um tillögu til þingsályktunar um endurskoðaða landsskipulagsstefnu 2015-2026, 705. mál. Umsagnarfrestir er 29. apríl nk.
Osk um umsogn um breytinga á lögum stjórnmálasamtök.pdf
Ósk um umsögn um þingsályktunartillögu um endurskoðun landsskipulagsáætlunar.pdf
7. 202103139 - Vestmannaeyjar - Vettvangur sjávarlíftækni á Íslandi
Verkefnið sem hér um ræðir er liður í stærra verkefni sem Vestmannaeyjabær og Þekkingasetur Vestmannaeyja hafa staðið fyrir sem hefur það að markmiði að auka verðmætasköpun byggða á nýsköpun og efla atvinnulífið í Vestmannaeyjum.

Vestmannaeyjabær ákvað að leita til Hólmfríðar Sveinsdóttur, ráðgjafa, til þess að aðstoða við að efla nýsköpun í Vestmannaeyjum og móta tillögur um hvernig hægt er að hefja slíka vinnu af krafti. Hólmfríður hefur átt í viðræðum við ýmsa hagsmunaaðila í Vestmannaeyjum. Það varð að samkomulagi að unnin yrði styrkumsókn í Lóuna - sem er nýr sjóður á vegum atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, til að leggja grunn að uppbyggingu á öflugum og breiðum vettvangi í sjávarlíftækni í Vestmannaeyjum með sterkri aðkomu þekkingarsamfélagsins, atvinnugreinarinnar og Vestmanneyjabæjar.

Verkefnið er brotið upp í fjóra verkþætti: a)auka vitund á sjávarlíftækni, b) auka þekkingu og samstarf í sjávarlíftækni, c) skapa fjölbreyttari störf og verðmætasköpun með sjávarlíftækni og d) verkefnisstjórnun.

Vestmannaeyjar hafa löngum verið talin Verstöð Íslands vegna þess öfluga sjávarútvegs sem þar er og hefur það mikið vægi fyrir árangur verkefnisins að það sé samofið sterkum atvinnuvegi og þekkingarsamfélagi á sviði sjávarútvegs.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og lýsir ánægju með metnaðarfulla sýn á að Vestmannaeyjar gætu orðið miðstöð sjávarlíftækni.
8. 202010042 - Gatnalýsing uppsögn á þjónustu
Lögð voru fram drög að minnisblaði um uppsögn á þjónustusamningi vegna gatnalýsingar í Vestmannaeyjum.

Þegar Hitaveita Suðurnesja og Bæjarveitur Vestmannaeyja sameinuðust árið 2002 var undirritað samkomulag þess efnis að gatnalýsing í Vestmannaeyjum yrði áfram í eigu sveitarfélagsins, en þjónusta á hendi Hitaveitu Suðurnesja (HS veitur).

HS veitur annast almennt viðhald, utanumhald og móttöku tilkynninga, en viðbætur og endurnýjun er á hendi eiganda.

Fara þarf yfir hvaða kostir eru hagstæðastir í stöðunni. Önnur sveitarfélög og Vegagerðin hafa farið í útboð á vinnu við viðhald og lagerhald, en umsýsla færst til sveitarfélaganna.

Í minnisblaðinu er tillaga um að óskað verði eftir því við HS veitur, að yfirfærslan muni ekki eiga sér stað fyrr en um næstu áramót. Jafnframt er tillaga um að í fjárhagsáætlun ársins 2022 verði gert ráð fyrir fjármagni til að hefja vinnu við að færa stýringar í stjórnkassa.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og tekur undir tillöguna í minnisblaðinu um að fresta yfirfærslunni til áramóta. Bæjarráð felur framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs áframhaldandi vinnu málsins. Að öðru leyti vísar bæjarráð málinu til framkvæmda- og hafnarráðs.
9. 202009013 - Lögreglusamþykkt Vestmannaeyja
Bæjarráð tók fyrir umsögn lögreglustjórans í Vestmannaeyjum um lögreglusamþykkt fyrir Vestmannaeyjar sem send var dómsmálaráðuneytinu til staðfestingar í september 2020, en dómsmálaráðuneytið óskaði eftir umsögn lögreglustjóra.

Þann 21. apríl sl., óskaði dómsmálaráðuneytið eftir afstöðu bæjarráðs Vestmannaeyja til umsagnar lögreglustjórans.

Niðurstaða
Bæjarráð felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að taka tillit til athugasemda lögreglustjóra og senda dómsmálaráðuneytinu lögreglusamþykktina uppfærða til staðfestingar og birtingar í Stjórnartíðindum.
10. 202104056 - Skilagrein starfshóps um varðveislu sjávartengdra muna í vörslu safna Vestmannaeyjabæjar
Lögð var fram skilagrein starfshóps um varðveilsu sjávartengdra muna í vörslu safna Vestmannaeyjabæjar. Starfshópinn skipa þau Helga Hallbergsdóttir, fyrrv. safnstjóri Sagnheima, Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahúss og Ólafur Snorrason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs.

Skilagreinin felur m.a. í sér áfangaskiptri tillögu til þess að tryggja að söguleg verðmæti liggi ekki undir skemmdum og útbúa rými þar sem hægt verður að geyma og sýna bæjarbúum og öðrum gestum söguleg verðmæti. Jafnframt er hvatt til að framtíðaruppbyggingu safns fyrir sjávartengda muni.

Starfshópurinn leggur til að tillagan nái yfir fimm ár til að auðvelda bæjaryfirvöldum að fjármagna verkefnið. Jafnframt bendir starfshópurinn á að hægt sé að sækja um styrki til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, Safnaráðs og Uppbyggingarsjóðs Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar starfshópnum fyrir gott starf og góða skilagrein sem hægt er að leggja til grundvallar áframhaldandi vinnu. Verður málið því tekið upp að nýju við undirbúning fjárhagsáætlunar næsta árs.
Skilagrein starfshóps um varðveislu sjávartengdra muna í vörslu safna Vm.pdf
11. 201901042 - Rekstur kvikmyndahúss (Eyjabíó) í Kviku
Framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs var falið af bæjarráði að ræða við aðila með starfsemi í Kviku um áhuga á að reka kvikmyndahúsið tímabundið til ársloka 2021, meðan verið er að meta framtíðarfyrirkomulag reksturs kvikmyndahússins.

Framkvæmdastjóri kannaði áhuga Leikfélags Vestmannaeyja og Félags eldri borgara á að starfrækja kvikmyndahúsið. Leikfélagið hefur áhuga á að reka kvikmyndahúsið tímabundið. Félag eldri borgara hefur ekki áhuga á rekstri kvikmyndahússins.

Niðurstaða
Bæjarráð fagnar áhuga leikfélagsins á rekstri kvikmyndahússins og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að útbúa samning um tímabundinn rekstur þess.
12. 202104113 - Sumarstörf - atvinnuumsókn
Bæjarstjóri upplýsti um stöðu sumarráðninga hjá Vestmannaeyjabæ. Stjórnvöld hafa gripið til átaks um að fjölga sumarstörfum fyrir námsmenn undir heitinu: Sókn fyrir námsmenn! Markmiðið er að skapa 2.500 sumarstörf fyrir námsmenn 18 ára og eldri með samskonar sniði og gert var árið 2020. Fyrir hvern námsmann greiði Vinnumálastofnun allt að 472.000 kr. auk 11,5% lífeyrissjóðsframlag í upp undir tvo og hálfan mánuð.

Vestmannaeyjabær hefur útbúið lista af 14 störfum sem hægt væri að fela námsmönnum undir þessu átaki. Vinnumálastofnun hefur sent Vestmannaeyjabæ leiðbeiningar um forsendur fyrir framlagi vegna sumarstarfa fyrir námsmenn og fjölda starfa. Alls hefur Vestmannaeyjabæ verið úthlutað 12 störfum sumarið 2021.

Auk þessa mun Vestmannaeyjabær bjóða ungu fólki sumarstörf á vegum bæjarins með sama hætti og undanfarin ár.



Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og fagnar þessu stóraukna framtaki stjórnvalda um að fjölga sumarstörfum fyrir námsfólk.
13. 201904018 - Fundargerðir Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga
Lögð var fram fundargerð 62. fundar stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, sem haldinn var þann 22. febrúar sl.
stjórn-Samtaka-sjávarútvegssveitarfélaga-62.pdf
14. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Lögð var fram fundargerð 568. fundar stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem haldinn var þann 24 mars sl.

Jafnframt var lögð fram fundargerð 896. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var þann 26. mars sl.
Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga nr 896.pdf
568.-fundur-stj.-SASS.pdf
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:45 

Til baka Prenta