Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn Vestmannaeyja - 1561

Haldinn í Einarsstofu safnahúsi,
11.06.2020 og hófst hann kl. 18:00
Fundinn sátu: Elís Jónsson forseti,
Njáll Ragnarsson aðalmaður,
Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður,
Trausti Hjaltason aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir aðalmaður,
Jóna S. Guðmundsdóttir aðalmaður,
Eyþór Harðarson 1. varamaður,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201906119 - Kjör forseta og varaforseta skv. 7.gr.samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar

Niðurstaða
Samkvæmt 7. gr. samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar kýs bæjarstjórn ár hvert forseta og varaforseta bæjarstjórnar.

Elís Jónsson var kosinn forseti bæjarstjórnar með sjö samhljóða atkvæðum.

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir var kosin varaforseti bæjarstjórnar með sjö samhljóða atkvæðum.

Samkvæmt 44. gr. samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar kýs bæjarstjórn ár hvert nefndarmenn í bæjarráð, þrjá aðalfulltrúa og þrjá til vara.

Aðalmenn í bæjarráði:
Njáll Ragnarsson
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir
Helga Kristín Kolbeins

Varamenn í bæjarráði:
Elís Jónsson
Íris Róbertsdóttir
Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Samkvæmt 1. tl. B-liðar 44. gr. samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar kýs bæjarstjórn fimm aðalmenn og fimm varamenn í fjölskyldu- og tómstundaráð. Í stað Páls Marvins Jónssonar aðalmanns, kemur Esther Bergsdóttir sem aðalmaður og í stað Guðjóns Rögnvaldssonar sem varamaður kemur Sigurjón Viðarsson sem varamaður.

Samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Samkvæmt 2. tl. B-liðar 44. gr. samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar kýs bæjarstjórn fimm aðalmenn og fimm varamenn í fræðsluráð. Í stað Njáls Ragnarssonar varamanns, kemur Unnur Baldursdóttir sem varamaður.

Samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Samkvæmt 3. tl. B-liðar 44. gr. samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar kýs bæjarstjórn fimm aðalmenn og fimm varamenn í umhverfis- og skipulagsráð. Í stað Estherar Bergsdóttur sem varamanns, kemur Leifur Jóhannesson sem varamaður.

Samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.
2. 202003120 - Ljósleiðaramál í Vestmannaeyjum
Á síðasta bæjarstjórnarfundi, sem haldinn var 28. maí sl., lagði bæjarstjóri fram minnisblað um möguleika á því að leggja ljósleiðara að öllum heimilum og fyrirtækjum í Vestmannaeyjum. Í minnisblaðinu eru raktir kostir ljósleiðaravæðingar, tæknileg útfærsla, kostnaður, fjármögnun, opinber aðstoð, þ.e. ríkisaðstoð, framkvæmd, rekstur og tímalína.
Á fundinum var samþykkt að fresta umræðu og afgreiðslu um ljósleiðaravæðingu í Vestmannaeyjum til næsta bæjarstjórnarfundar, þann 11. júní nk., til þess að gefa bæjarfulltrúum kost á að kynna sér betur efni minnisblaðsins áður en ákvarðanir yrðu teknar um framhaldið. Málið er því tekið fyrir að nýju nú í bæjarstjórn.

Bæjarstjóri upplýsti um að Vestmannaeyjabær hefur nú í fyrsta sinn sótt um úthlutun úr átaksverkefni stjórnvalda undir heitinu Ísland ljóstengt. Í umsókninni er gert ráð fyrir að hefja vinnu við lagningu ljósleiðara í þau hús sem liggja utan þéttbýlis bæjarfélagsins. Um er að ræða tengistaði sem falla undir ákvæði fjarskiptasjóðs um styrkhæfi. Áætlaður kostnaður við lagningu ljósleiðara í dreifbýli er um 35 m.kr. utan vsk.

Í gær bárust þær jákvæðu fregnir úr samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, sem fer með ábyrgð verkefnisins, að Vestmannaeyjabær fái úthlutað rúmum 18 m.kr. á grundvelli umsóknarinnar og skrifað verði undir samning þess efnis við samgöngu- og sveitarstjóraráðherra á morgun, föstudaginn 12. júní.

Jafnframt var á síðasta bæjarstjórnarfundi tekið vel í svokallaða 5G væðingu í Vestmannaeyjum og bæjarstjóra falið að fylgja eftir viðræðum við NOVA um fyrirkomulag og möguleika á slíku umbótaverkefni sem flýtt getur bættum nettengingum í bænum.

Bæjarstjóri greindi frá fundi hans, framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs, framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs og deildarstjóra tölvudeildar með fulltrúa NOVA og lýstu áhuga á samstarfi við fyrirtækið um 5G væðingu. Greindi fulltrúi NOVA m.a. frá því að hægt væri að ljúka við fyrsta áfanga 5G væðingar í Vestmannaeyjum í sumar.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir og Trausti Hjaltason.

Bæjarstjórn fagnar því að Vestmannaeyjabær hafi hlotið fjárstyrk úr sjóðnum Ísland ljóstengt hjá Fjarskiptasjóði til að hefja ljósleiðaravæðingu í dreifbýli og samþykkir að hefja undirbúning og framkvæmd fyrsta áfanga ljósleiðaravæðingar í Vestmannaeyjum.
Verkefnið er hugsað sem fyrsti hluti í að ljósleiðaravæða Vestmannaeyjar. Jafnframt er ljóst að engin samstarfsaðili er tilbúinn til að ljósleiðaravæða bæinn að fullu á markaðsforsendum. Þrír aðilar hafa lýst yfir áhuga á að taka að sér að byggja upp ljósleiðarakerfi með stuðningi opinbers aðila. Jafnframt er til staðar áhugi að leggja til fyrirliggjandi fjarskiptainnviði við uppbyggingu gegn endurgjaldi á jafnræðisgrundvelli. Bæjarstjórn er einhuga um að lengur verður ekki beðið með að ljósleiðaravæða bæinn, enda hluti af þeim innviðum sem gott er að séu til staðar til að gera atvinnulífið fjölbreyttara með aukinni nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að ræða við þingmenn Suðurkjördæmis um frekari aðkomu fjarskiptasjóðs að uppbyggingu og jafnframt að undirbúa frekari framkvæmdir á næstu 4 árum þannig að hægt verði að gera ráð fyrir fjármagni við fjárhagsáætlunargerð í haust.

Bæjarstjóra er falið að leggja viðauka við fjárhagsáætlun fyrir bæjarráð til þess að mæta þeim útgjöldum sem tilheyra bæjarsjóði við fyrsta áfanga verksins.

Forseti bæjarstjórnar mun undirrita samning f.h. Vestmannaeyjabæ við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um fjárstyrk úr fjarskiptasjóði til verkefnisins, við hátíðlega athöfn, föstudaginn 12. júní nk.

Tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.
Minnisblað til bæjarstjóra vegna ljósleiðaravæðingar.pdf
3. 201909118 - Húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar
Haldinn var bæjarstjórnarfundur þann 31. október sl. og þar var ákveðið að færa hluta af starfsemi bæjarskrifstofanna í gamla Ráðhúsið, þ.e. stjórnsýslu- og fjármálasvið bæjarins sem telur 13 starfsmenn. Þar verði líka bæjarstjórnarsalur sem jafnframt verður nýttur sem viðhafnarsalur og undir hluta safnmuna bæjarins. Jafnframt ákvað bæjarstjórn að vinna að því að flytja starfsemi annarra sviða í grennd við gamla Ráðhúsið þar sem horft verði til húsnæðis í nágrenni þess. Síðan þá hafa verið kannaðir kostir þess að koma umhverfis- og framkvæmdasviði, sem telur 6 starfsmenn, fyrir í gamla Ráðhúsinu, ásamt stjórnsýslu- og fjármálasviði og nú er ljóst að það er mögulegt.

Á síðasta bæjarstjórnarfundi, sem haldinn var 28. maí sl., lagði bæjarstjóri fram minnisblað um nokkra valkosti við húsnæðismál bæjarskrifstofa Vestmannaeyja, þ.e. stjórnsýslu- og fjármálasvið, umhverfis- og framkvæmdasvið og fjölskyldu- og fræðslusvið. Var niðurstaða málsins sú að að fresta umræðu og afgreiðslu húsnæðismála Vestmannaeyjabæjar til næsta bæjarstjórnarfundar, þann 11. júní nk., til þess að gefa bæjarfulltrúum kost á að kynna sér vel efni minnisblaðsins sem lagt var fram og funda óformlega um þá valkosti sem þar eru kynntir, en einnig að kynna kostina starfsmönnum áður en endanleg ákvörðun er tekin.
Bæjarstjórn hefur hist á óformlegum fundi til þess að ræða frekar húsnæðismálin og haldinn hefur verið fundur með starfsfólki bæjarskrifstofanna til þess að kynna þeim umrædda valkosti.

Á bæjarráðsfundi sem haldinn var þann 25. maí sl., kynnti bæjarstjóri drög að samkomulagi milli Vestmannaeyjabæjar og Íslandsbanka um kaup á húsnæði bankans við Kirkjuveg, sem hugsuð yrðu sem starfsaðstaða fyrir fjölskyldu- og fræðslusvið. Um er að ræða allan eignarhluta Íslandsbanka í húsinu fyrir 100 m.kr., en Vestmannaeyjabær mun framselja félag í eigu Lögmannsstofu Vestmannaeyja stóran hluta af 2. hæð hússins fyrir 15 m.kr. Samkomulagið var gert með fyrirvara um samþykki bæjaryfirvalda. Það liggur nú fyrir til ákvörðunar.

Þar sem umræðu um húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar var frestað á síðasta fundi er það nú tekið fyrir aftur.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Eyþór Harðarson, Trausti Hjaltason, Njáll Ragnarsson og Hildur Sólveig Sigurðardóttir.

Tillaga frá bæjarfulltrúum D-lista
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að ákvörðun um kaup á eignarhlut Kirkjuvegs 23 verði frestað þar sem ekki hafa verið fullkannaðir möguleikar á að hafa alla stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar undir einu þaki sem myndi leiða af sér mestu rekstrarhagræðinguna og stytta boðleiðir milli starfsmanna. Enn er ekkert fast í hendi varðandi fjármögnun eða áætlanir á 3. hæð Fiskiðjunnar og hafa engar áætlanir verið settar fram hvað varðar framtíðarnýtingu á húsnæði sem nú þegar er í eigu sveitarfélagsins og hýsir starfsemi sem mun flytjast annað á næstu árum.
Eyþór Harðarson (sign)
Trausti Hjaltason (sign)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)

Tillögunni var hafnað með fjórum atkvæðum E- og H- lista gegn þremur atkvæðum D-lista.

Tillaga bæjarfulltrúa E- og H-lista
Meirihluti E- og H-lista leggur til að starfsemi umhverfis- og framkvæmdasviðs verði komið fyrir í gamla Ráðhúsinu ásamt stjórnsýslu- og fjármálasviði bæjarskrifstofanna, sem þegar liggur fyrir ákvörðun um. Jafnframt leggur meirihlutinn til að gengið verði að lokatilboði Íslandsbanka um kaup á húsnæði bankans við Kirkjuveg og hluti þess seldur til félags í eigu Lögmannsstofu Vestmannaeyjabæjar skv. samkomulagi þar um. Starfsemi fjölskyldu- og fræðslusviðs verði komið fyrir á jarðhæð hússins. Við mat á kostnaði við einstaka valmöguleika, þ.e. kaup á húsnæði, endurbætur, breytingar og aðlögun að starfsemi fjölskyldu- og fræðslusviði, er ljóst að kaup á húsnæði Íslandsbanka er besti kosturinn. Aðgengi að húsinu er gott og fjöldi bílastæða við það. Nægt pláss er á jarðhæðinni og tiltölulega auðvelt að aðlaga húsnæðið að starfsemi fjölskyldu- og fræðslusviðs. Kjallarann er hægt að nýta undir munageymslu fyrir söfn bæjarfélgagsins. Hægt er að koma starfsemi fjölskyldu- og fræðslusviðs fyrir í húsnæðinu á skömmum tíma þar sem ekki þarf að ráðast í miklar breytingar. Með þessari ráðstöfun sparast um 200 miljónir samkvæmt minnisblaði framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdarsviðs bæjarins.

Ekkert húsnæði í eigu bæjarins stendur tómt í dag, utan húsnæði 3. hæðar Fiskiðjunnar, sem er aðeins fokhelt. Fyrir er starfsemi eða önnur nýting á öllu húsnæði bæjarins. Mikilvægt er að það húsnæði sem er í eigu bæjarfélagsins verði komið í sölu eða aðra ráðstöfun um leið og losnar um hlutaðeigandi starfsemi bæjarfélagsins.

Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að ganga frá kaupsamningi um húsnæði Íslandsbanka við Kirkjuveg byggt á samkomulagi aðila.

Bókun frá bæjarfulltrúum D-lista
Ákvörðun sem þessi er ótímabær, í minnisblaði til bæjarfulltrúa varðandi kostnað eru útreikningar og valmöguleikar ófullnægjandi, auk þess er ekki búið að bera saman framtíðarrekstrarkostnað mismunandi valmöguleika sem gerir skuldbindandi ákvarðanatöku vegna framtíðarhúsnæðis bæjarskrifstofa afar óskynsamlega.
Eyþór Harðarson (sign)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Trausti Hjaltason (sign)

Bókun frá bæjarfulltrúum E- og H-lista
Meirihuti E-og H-lista telur að húsnæðismál sveitarfélagsins þurfi að skoða heildstætt enda afar mikil uppbygging í gangi. Það er hvorki vilji né stefna meirihluta bæjarstjórnar að safna húsum. Það húsnæði sem losnar vegna þeirra breytinga sem verða í húsnæðismálum hjá sveitarfélaginu, ekki bara vegna nýrra bæjarskrifstofa heldur líka vegna byggingu slökkvistöðvar og flutnings tónlistaskóla í nýjan Hamarsskóla, verður að sjálfsögðu selt eða komið í notkun með örðum hætti. Hvað varðar rekstrarkostnað þá lágu engin gögn fyrir um það hver rekstrarkostnaðurinn nýrra bæjarskrifstofa í Fiskiðunni yrði þegar ákvörðun var tekin um að fara með bæjarskrifstofur þangað af meirihluta sjálfstæðismanna á síðasta kjörtímabili. Því er sérstak að mikið sé talað um rekstralegt hagræði þess flutnings.
Íris Róbertsdóttir (sign)
Elís Jónsson (sign)
Njáll Ragnarsson (sign)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)

Tillaga E- og H-lista að afgreiðslu málsins var samþykkt með fjórum atkvæðum E- og H-lista gegn þremur atkvæðum D-lista.

Bókun frá bæjarfulltrúum D-lista
Það er miður að núverandi meirihluti hafi nú ákveðið að fara gegn sinni eigin hátíðarsamþykkt sem núverandi bæjarstjórn samþykkti einróma nýverið. Þar kom fram að Ráðhúsið yrði gert að safni með hátíðarsal. Þessi ótímabæra, stefnumótandi ákvörðun meirihlutans er rekstraríþyngjandi og lýsa bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sig alfarið á móti þessum fasteignakaupum við þær aðstæður sem eru í samfélaginu í dag.
Eyþór Harðarson (sign)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Trausti Hjaltason (sign)

200525 Minnisblað til bæjarstjóra um hísnæðismál.pdf
4. 201906047 - Breytingar á bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar
Á bæjarráðsfundi þann 3. desember sl., var ákveðið að skipa þau Njál Ragnarsson, Jónu Sigríði Guðmundsdsóttur og Helgu Kristínu Kolbeins í starfshóp til endurskoðunar bæjarmálasamþykktar Vestmannaeyjabæjar. Upphaflega stóð til að takmarka endurskoðunina við nokkur ákvæði að tilmælum Sesselju Árnadóttur, stjórnsýsluendurskoðanda Vestmannaeyjabæjar, en síðar ákvað bæjarráð að ráðast í heildarendurskoðun bæjarmálasamþykktarinnar og skipa til þess þriggja manna starfshóp kjörinna fulltrúa til þess að fara yfir einstök ákvæði og leggja fram drög að breytingum til bæjarstjórnar. Með starfshópnum starfaði framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs.
Starfshópurinn hittist á nokkrum vinnufundum og leggur nú fram drögin fyrir bæjarstjórn til fyrri umræðu, en skv. 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, ber sveitarstjórnum að hafa tvær umræður, með a.m.k. einnar viku millibili, um samþykktir og aðrar reglur sem skv. lögum eiga að hljóta staðfestingu ráðherra.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Njáll Ragnarsson, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Eyþór Harðarson, Trausti Hjaltason, Elís Jónsson, Íris Róbertsdóttir og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir.

Bæjarfulltrúar munu yfirfara drög að endurskoðaðri bæjarmálasamþykkt milli funda.

Samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum að vísa bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar til síðari umræðu í bæjarstjórn þann 9. júlí nk.

Viðaukatillaga frá bæjarfulltrúa E lista
Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir, til viðbótar við þau drög sem liggja fyrir fundinum, breytingu á 1. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Vestmannaeyjabæjar, þannig að kjörnum fulltrúum í bæjarstjórn Vestmannaeyja fjölgi úr 7 í 9.

Bókun frá bæjarfulltrúum D-lista
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjast alfarið gegn þeirri hugmynd að fjölga bæjarfulltrúum úr 7 í 9. Slíkt er kostnaðarsamt og eykur þenslu í stjórnsýslunni. Í Vestmannaeyjum eru starfandi pólitískar fagnefndir auk bæjarráðs og bæjarstjórnar. Stefna Sjálfstæðisflokksins hefur alltaf verið að nýta fjármunina sem best með hag bæjarbúa að leiðarljósi, það verður ekki gert með því að fjölga pólitískum fulltrúum á launum hjá sveitarfélaginu.
Eyþór Harðarson (sign)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Trausti Hjaltason (sign)

Bókun frá bæjarfulltrúum E- og H-lista
Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur verið skipuð 7 fulltrúum allt frá kosningum 1994 þegar bæjarfulltrúum var fækkað úr 9 í 7 en fyrir þann tíma höfðu bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Vestmannaeyja verið 9. Sveitarfélögum er í sjálfsvald sett hversu margir fulltrúar sitja í sveitarstjórn en það skal þó það vera innan ákveðinna marka. Séu íbúar í sveitarfélagi á bilinu 2.000 til 9.999 skulu vera 7 til 11 aðalmenn í sveitarstjórn. Íbúafjöldi í Vestmannaeyjum í lok fyrsta ársfjórðungs 2020 var 4.370 og fjölgar ár frá ári sem er mikið gleðiefni.
Í Vestmannaeyjum eru í dag 622 íbúar pr. bæjarfulltrúa en að meðaltali eru í ofangreindum sveitarfélögum 466 íbúar á hvern fulltrúa. Skipuðu 9 fulltrúar bæjarstjórn Vestmannaeyja væru 483 íbúar á hvern bæjarfulltrúa sem er eftir sem áður fyrir ofan meðaltal þessara sveitarfélaga.
Fjölgun bæjarfulltrúa hefur það einnig í för með sér að réttari mynd er gefin af vilja kjósenda sem styrkir betra og sterkara lýðræði. Tillagan er í samræmi við þá lýðræðislegu hugsun sem býr að baki sveitarstjórnarstiginu og þeim reglum um kosningar til sveitarstjórna að sveitarstjórnarfulltrúar séu fulltrúar samfélagsins og geti þar með á virkan hátt endurspeglað vilja íbúanna.
Breytingin mun ekki taka gildi fyrr en eftir næstu bæjarstjórnarkosningar.
Ekki er hægt að setja verðmiða á lýðræðið.
Njáll Ragnarsson (sign)
Íris Róbertsdóttir (sign)
Elís Jónsson (sign)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)

Atkvæðagreiðsla um viðaukatillögu bæjarfulltrúa E lista hófst, en lauk ekki.

Bókun frá bæjarfulltrúa E-lista
Ég dreg frestunartillögu til baka í ljósi þess að minnihlutinn vill ekki fresta málinu fram á næsta fund svo hægt sé að ræða málið milli umræðna.
Njáll Ragnarsson (sign)

Bókun frá bæjarfulltrúum D-lista
Atkvæðagreiðsla fór fram við frestunartillögu bæjarfulltrúa Njáls Ragnarssonar, meirihluti samþykkti með uppréttri hendi að fresta tillögunni
bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá í málinu en voru ekki andvígir frestun. Við það tilefni ákveður bæjarfulltrúi Njáll Ragnarsson að draga frestunartillögu sína til baka þar sem niðurstaða kosningarinnar hugnast honum ekki.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Trausti Hjaltason (sign)
Eyþór Harðarson (sign)

Viðaukatillaga samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa E- og H-lista gegn þremur atkvæðum D-lista.

Bókun frá bæjarfulltrúum D-lista
Það hefur aldrei áður komið til tals hin síðari ár að fjölga launuðum fulltrúum, hins vegar hefur verið stefna Sjálfstæðisflokksins að hagræða í stjórnsýslunni, með því að fækka fagnefndum og millistjórnendum. Þannig hefur skilvirkni aukist og skapast svigrúm til þjónustuaukningar sem er hagur íbúanna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tryggt valddreifingu og aukið lýðræði innan sinna raða með því að bæjarfulltrúar taka ekki sæti í ráðum og nefndum og tryggja þannig að fleiri íbúar komi að ákvörðunartöku um málefni sveitarfélagsins án þess að auka kostnað þess.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Trausti Hjaltason (sign)
Eyþór Harðarson (sign)
5. 201212068 - Umræða um samgöngumál

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Hildur Sólveig Sigurðardóttir og Íris Róbertsdóttir.

Áskorun
Bæjarstjórn Vestmannaeyja skorar á Reykjavíkurborg að láta af sífelldri aðför sinni að Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri og skorar á samgönguráðuneytið að ganga úr skugga um að Reykjavíkurborg vegi ekki frekar að öryggi innanlandsflugs með frekari skerðingu á starfsemi flugvallarins í Vatnsmýri en í samgönguáætlun kemur fram að: Miðað verði við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt á meðan annar jafn góður eða betri kostur er ekki fyrir hendi. Í lok ársins 2018 var tekin skóflustunga að nýju þjóðarsjúkrahúsi Landspítala við Hringbraut. Miðstöð innanlands- og þar með sjúkraflugs þarf að vera eins nálægt sérhæfðri bráðaþjónustu og kostur er. Ákvörðun um staðsetningu nýs hátækni- og brjáðasjúkrahúss við Hringbraut er því grunnforsenda þess og staðfestir nauðsyn þess að innanlandsflugvöllur verði áfram staðsettur í Vatnsmýrinni. Að öðrum kosti væri verið að ógna heilsu og öryggi íbúa og ferðafólks á landsbyggðinni.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Trausti Hjaltason (sign)
Eyþór Harðarson (sign)
Íris Róbertsdóttir (sign)
Elís Jónsson (sign)
Njáll Ragnarsson (sign)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)

Fundargerðir til staðfestingar
6. 202005012F - Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 326
Liðir 1-6 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liðir 1-6 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
7. 202006001F - Fræðsluráð - 331
Liðir 1-3 liggja fyrir til staðfestingar

Niðurstaða
Liðir 1-3 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
8. 202005007F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3127
Liður 3, Húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar, liggur fyrir til umræðu og staðfestingar. Afgreiðslu þessa máls var frestað á síðasta fundi bæjarstjórnar og er því tekin fyrir að nýju.

Niðurstaða
Liður 3 var samþykktur með fjórum atkvæðum E- og H-lista gegn þremur atkvæðum D-lista.
9. 202006005F - Fjölskyldu- og tómstundaráð - 246
Liður 1 og 2 til staðfestingar

Niðurstaða
Liðir 1 og 2 samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 22:36 

Til baka Prenta