Fundargerðir

Til baka Prenta
Fjölskyldu- og tómstundaráð - 253

Haldinn Í gegnum fjarfundabúnað,
10.11.2020 og hófst hann kl. 16:15
Fundinn sátu: Helga Jóhanna Harðardóttir formaður,
Hrefna Jónsdóttir varaformaður,
Gísli Stefánsson aðalmaður,
Esther Bergsdóttir aðalmaður,
Hafdís Ástþórsdóttir aðalmaður,
Guðrún Jónsdóttir starfsmaður sviðs, Jón Pétursson framkvstj.sviðs.
Fundargerð ritaði: Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs
Elís Jónsson sat fundinn í 3. máli


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 202001056 - Sískráning barnaverndarmála 2020
Sískráning barnaverndarmála til Barnaverndarstofu fyrir október 2020

Niðurstaða
Í október bárust 15 tilkynningar vegna 14 barna. Mál 11 barna voru til frekari meðferðar.
2. 200704148 - Fundargerð trúnaðarmála fyrir fjölskyldu- og tómstundaráð.
Undir þennan lið falla trúnaðarmál sem lögð eru fyrir ráðið og eru færð í sérstaka trúnaðarmálabók.

Niðurstaða
Fundargerð trúnaðarmála er færð í sérstaka trúnaðarmálabók.
3. 201903124 - Framtíðarskipulag og uppbygging íþróttamála í Vestmannaeyjum
Staða verkefnis starfshópsins

Niðurstaða
Elís Jónsson formaður hóps um framtíðarskipulag og uppbyggingu íþróttamála í Vestmannaeyjum greindi frá stöðu verkefnisins. Erfitt hefur reynst að klára vinnuna vegna aðstæðna sem hafa verið uppi og hefur verið nokkurt hlé á þessu ári. Ekki er mikið eftir af þessari vinnu og vonast er til að verkefninu ljúki ekki seinna en í febrúar 2021. Ráðið þakkar Elís fyrir yfirferðina.
Elís Jónsson sat fundinn í máli 3.
4. 200703210 - Félagslegar leiguíbúðir Vestmannaeyjabæjar
Umræður um félagslega íbúðakerfið og drög að nýjum og samþættum reglum um félagslegar íbúðir á vegum Vestmannaeyjabæjar

Niðurstaða
Framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs fór yfir stöðu félagslega íbúðakerfisins hjá Vestmannaeyjabæ. Vestmannaeyjabær hefur yfir að ráða 17 almennar íbúðir og 41 íbúðir sem eru ætlaðar eldri borgurum (þ.a. verða 11 skilgreindar sem þjónustuíbúðir). Verið er að byggja þrjár félagslegar leiguíbúðir fyrir fatlað fólk sem og 7 þjónustuíbúðir sem taka við hlutverki þjónustuíbúðanna að Vestmannabraut 58b. Biðlisti eftir félaglagslegu húsnæði er breytilegur frá tíma til tíma. Í október voru 13 einstaklingar á biðlista eftir almennri íbúð. Margar íbúðir í almenna félagslega íbúðakerfinu eru óhentugar vegna stærðar og mikilvægt að skipta þeim út fyrir minni íbúðir. Framkvæmdastjóri lagði fram drög að samræmdum reglum um félagslegar leiguíbúðir á vegum Vestmannaeyjabæjar. Ráðið þakkar kynninguna og mun taka afstöðu til nýrra reglna um félagslegar íbúðir síðar.
5. 200903006 - Sambýlið, Vestmannabraut 58b - Brynja - hússjóður
Umræður um framtíð Vestmannabrautar 58b

Niðurstaða
Brynja - hússjóður hefur sagt upp öllum leigusamningum við leigutaka í þjónustuíbúðunum, Vestmannabraut 58b og rennur leigutíminn út þann 1. mars nk. Samhliða hefur Brynja - hússjóður boðið Vestmannaeyjabæ húsnæðið til leigu eða til kaups. Ráðið hefur fjallað um tilboð Brynju - hússjóðs og er tilbúið til að samþykkja að greiða leigu á meðan núverandi leigutakar búa þar. Ráðið felur framkvæmdastjóra að ganga til samninga við Brynju - hússjóðs um slíka leigu. Ráðið er ekki tilbúið að samþykkja uppgefið leiguverð til framtíðar á húsnæði Vestmannabrautar 58b enda veruleg hækkun á því leiguverði sem er í dag.
6. 2018031726 - Þjónustuíbúðir fatlaðs fólks Strandvegi 26
Umræður og kynning á nýjum þjónustuíbúðum fyrir fatlað fólk að Strandvegi 26 og þjónustu þeim tengdum.

Niðurstaða
Framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs fór yfir stöðu þjónustuíbúða fatlaðs fólks við Strandveg 26 og kynnti drög að hönnun þjónustuíbúða og þjónustukjarna.

Gluggarnir eru komnir í nýbygginguna við Strandveg 26, 2 hæð og hún verður brátt afhent Vestmannaeyjabæ til að ljúka framkvæmdum innanhúss. Við tekur innri uppbygging á sjö þjónustuíbúðum, glæsilegum þjónustukjarna og skammtímarými. Innri hönnunin er langt komin og unnin algjörlega af ungum hönnuðum úr Vestmannaeyjum í góðu samstarfi við forstöðumann. Hver íbúð er hönnuð með tilliti til góðs aðgengis, öryggis og hlýleika. Þjónustuíbúðin er heimili viðkomandi leigjanda en hann mun njóta þjónustu samkvæmt þjónustusamningi frá starfsmönnum þjónustukjarnans sem staðsettur er á sömu hæð.

Í þjónustukjarnanum er stórt og mikið rými þar sem íbúar þjónustuíbúðanna geta eldað, borðað saman og notið samveru. Þjónustukjarninn mun einnig bjóða upp á slíka þjónustu við aðra fatlaða einstaklinga sem samkvæmt þjónustumati þurfa á slíkri þjónustu. Starfsemi þjónustukjarnans mun bjóða upp á sólarhringsþjónustu á meðan þjónustumat kallar eftir slíku.

Í þjónustukjarnanum er að auki eitt herbergi ásamt salerni fyrir skammtímarými sem deilt er út eftir þörfum. Einnig er stórt baðherbergi, skrifstofa fyrir forstöðumann, búr, aðstaða fyrir starfsmenn og heitur pottur út á svölum með aðgengi að votrými. Þvottahús, geymsla og aðstaða fyrir skutlur eru einnig á staðnum.

Hugtakið sambýli leggst af og við tekur sjálfstæðar þjónustuíbúðir þar sem íbúum býðst upp á nauðsynlega þjónustu til að geta búið sjálfstætt.

Núverandi íbúum að Vestmannabraut 58b verður boðið að flytja í nýja þjónustuíbúð eða leiguíbúð að Strandvegi 26. Aðrar lausar íbúðir bjóðast þeim sem eru á biðlista og standast þjónustumat.

Ráðið þakkar kynninguna og fagnar því að það styttist í langþráðan draum.
7. 200711136 - Málefni fatlaðs fólks
Aðgengismál fatlaðs fólks. Staða á framkvæmdum sem stefnt var að í sumar.

Niðurstaða
Í sumar hófst átak í aðgengismálum hjá Vestmannaeyjabæ. Unnið hefur verið í að laga aðgengi m.a. á gatnamótum Höfðavegar/Illugagötu, Kirkjuveg við Vallargötu og Boðaslóð. Átakinu er ekki lokið og verður haldið áfram að laga aðgengi í bænum. Mikilvægt er að nýta tímann vel á meðan átakinu stendur og óskar ráðið því eftir tímaramma frá framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs. Ráðið vill beina þessu máli til samráðshóps um málefni fatlaðs fólks, þar sem gott væri að fá ábendingar um það sem betur mætti fara í aðgengi hjá bænum.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:00 

Til baka Prenta