Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3145

Haldinn Í gegnum fjarfundabúnað,
13.01.2021 og hófst hann kl. 16:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður,
Helga Kristín Kolbeins aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 202010007 - Gjaldskrá Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2021
Lögð var fyrir bæjarráð gjaldskrá vegna álagningar fasteignaskatts, holræsagjalds, sorpeyðingar- og sorphreinsunargjöld fyrir árið 2021. Sömuleiðis voru lagðar fram reglur um afslátt af fasteignagjöldum hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum með lögheimili í Vestmannaeyjum. Gert er ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi milli ára.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir óbreytt fyrirkomulag afsláttarkjara til handa elli- og örorkulífeyrisþegum við álagningu fasteignagjalda á árinu 2021. Viðmiðunartekjur einstaklinga verði 5,5 m.kr. fyrir fullan afslátt og afsláttur lækki í þrepum eftir hækkun tekna upp í 6,0 m.kr. Fyrir hjón nemi viðmiðunartekjur 7,5 m.kr. fyrir fullan afslátt sem lækkar í þrepum eftir hækkun tekna upp í 8,5 m.kr. Veittur verði flatur 85% afsláttur af sorpeyðingargjöldum og lóðaleigugjaldi til handa öllum þeim sem náð hafa ellilífeyrisaldri 67 ára og eldri.

Samþykkt með tveimur atkvæðum fulltrúa E og H lista gegn einu atkvæði D lista.

Bókun frá fulltrúa D lista
Undirrituð ítrekar fyrri bókanir Sjálfstæðismanna um að létta frekar álögur sem fengnar eru með skattheimtu fremur en að veita afslætti af gjaldskrám.
Helga Kristín Kolbeins (sign.)

Bókun frá fulltrúum E og H lista
Sjaldan eða aldrei hafa álögur á íbúa verið lækkaðar jafn mikið og á yfirstandandi kjörtímabili. Mikilvægt er að veita öldruðum og öryrkjum afslátt af gjöldum, þó með löglegum hætti.
Njáll Ragnarsson (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Gjaldsskrá fyrir árið 2021 og reglur um afslátt af fasteignagjöldum - lagt fyrir bæjarráð.pdf
2. 202002051 - Málefni Hraunbúða
Bæjarstjóri fór yfir stöðu viðræðna við Sjúkratryggingar Íslands um yfirfærslu reksturs Hraunbúða frá Vestmannaeyjabæ til ríkisins. Jafnframt fór bæjarstjóri yfir fund með heilbrigðisráðherra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og þremur öðrum bæjarstjórum sveitarfélaga sem munu ekki endurnýja samninga við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og felur bæjarstjóra að fylgja málinu eftir.
3. 202003120 - Ljósleiðaramál í Vestmannaeyjum
Ólafur Snorrason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs og Hallgrímur G. Njálsson, yfirmaður tölvudeildar Vestmannaeyjabæjar, mættu á fund bæjarráðs til þess að gera grein fyrir vinnu við ljósleiðaravæðingu í dreifbýli, m.a. um ljósleiðarakerfið og fyrirkomulag gjaldtöku vegna notkunar á því. Verið er að undirbúa minnisblað þar sem listaðir eru upp nokkrir valmöguleikar um gjaldtöku og stofnkostnað.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og lýsir ánægju með að ljósleiðaravæðing sé hafin í dreifbýli og undirbúningur uppbyggingar sé hafin í þéttbýli, sem löngu er orðin tímabær. Að öðru leyti vísast umræða um ljósleiðaravæðingu, þ.m.t. um gjaldtöku og stofnkostnað, til fundar bæjarstjórnar sem haldinn verður í lok janúar nk.
4. 201810114 - Umræða um heilbrigðismál
Bæjarstjórn fól bæjarstjóra að kanna við heilbrigðisráðherra hvernig vinnu miðar við tilraunaverkefni um notkun sjúkraþyrlu til að styrkja sjúkraflutninga í landinu. Bæjarstjóri upplýsti bæjarráð um svar heilbrigðisráðuneytisins dags. 22. desember sl., þar sem m.a. kemur fram að tveggja ára tilraunaverkefni með sjúkraþyrlu á Suðurlandi hafi átt að hefjast á miðju ári 2020 þegar búið væri að tryggja fjármagn til verkefnisins. Vegna sérstakra aðstæðna í þjóðfélaginu undanfarna mánuði, hafi ekki tekist að tryggja fjármagn til verkefnisins og frekari undirbúningur hafi þannig ekki farið fram. Fækkun ferðamanna í kjölfar faraldursins hafi auk þess valdið því að þrýstingur vegna fjölda ferðamanna og slysa á Suðurlandi hefur minnkað en slíkt ástand er líklega tímabundið. Heilbrigðisráðherra hafi fullan skilning á óþreyju íbúa Vestmannaeyja eftir sjúkraþyrlu og muni áfram vinna málinu brautargengi og koma því til framkvæmda.

Auk þess greindi bæjarstjóri frá stöðu mála hvað varðar augnlæknisþjónustu í Vestmannaeyjum. Samningsgerð milli Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, þjónustuaðila og Sjúkratrygginga Íslands mun vera nánast lokið, en svo virðist sem lokahnykkurinn strandi á Sjúkratryggingum Íslands og því mikil hætta á að tímafrestur varðandi fjármögnunarloforð renni út áður en samningur klárast.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og hvetur heilbrigðisráðuneytið til að ráðast í tilraunaverkefni um sjúkraþyrlu á Suðurland sem fyrst.

Bæjarráð hvetur samningsaðila til að ljúka samningum hið allra fyrsta þannig að fyrirliggjandi fjármögnun á dýrum tækjabúnaði og upphafskostnaði hverfi ekki út um gluggann. Óeðlilegt er að samingur strandi á tæknilegri fyrirstöðu hjá Sjúkratryggingum Íslands þegar allar aðrar forsendur virðast liggja fyrir.


Loks vill bæjarráð óska starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Suðurlands til hamingju með útnefninguna; Sunnlendingar ársins 2020, skv. lesendum sunnlenska.is. Starfsfólk stofnunarinnar er vel að þessum heiðri komið. Bæjarráð vill beina sérstökum hamingjuóskum til starfsfólks HSU í Vestmannaeyjum, sem átti stóran þátt í að kveða niður Covid-19 bylgjuna í Vestmannaeyjum í vor.
5. 201904142 - Umsagnir frá Alþingi - bæjarráð
Þann 11. desember sl. sendi nefndarsvið Alþingis til umsagnar frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð, 369. mál. Umsagnarfrestur er 1. febrúar nk.

Jafnframt sendi nefndarsvið Alþingis þann 6. janúar sl. til umsagnar frumvarp til laga um kosningalög, 339. mál. Að ósk nefndarsviðs Alþingis sendi Vestmannaeyjabær yfirkjörstjórn í Vestmannaeyjum beiðni um umsögn stjórnarinnar. Umsagnarfrestur er 20. janúar nk.

Þá vakti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið þann 23. desember sl. athygli á frumvarpi sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda um breytingar á ýmsum lögum vegna áhrifa Covid-19 á sveitarfélög. Þar er m.a. að finna umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Frumvarpið gerir sveitarfélögum auðveldar fyrir að takast á við afleiðingar Covid-19 faraldursins. Breytingarnar snúa að fjórum meginliðum, þ.e: fjármálareglum sveitarfélaga, ákvæðum sveitarstjórnarlaga um neyðarástand, innheimtu fasteignagjalda og auknar heimildir Lánasjóðs
sveitarfélaga ohf. til að lána sveitarfélögum vegna rekstrarhalla.

Niðurstaða
Yfirkjörstjórn í Vestmannaeyjum sendir inn umsögn um frumvarp til kosningalaga.

Bæjarráð fól framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að útbúa og senda umsögn Vestmannaeyjabæjar um frumvarp til breytinga á ýmsum lögum vegna áhrifa af Covid-19, þar sem tekið er undir frumvarpið í öllum megindráttum og umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Umsögn um frv. til laga um kosningalög, 339 mál.pdf
Umsögn um frv. til laga um breytingar á nokkrum ögum vegna áhrifa Covid 19.pdf
Umsögn um frv til laga um hálendisþjóðgarð.pdf
6. 202101038 - Dagskrá bæjarráðs

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkti áætlun um dagsetningar bæjarráðsfunda á þessu ári, sem að jafnaði verða haldnir fyrstu og þriðju viku í mánuði.
7. 202008147 - Stöðuskýrslur uppbyggingarteymis félags- og atvinnumála
Lögð var fram til upplýsinga 9. stöðuskýrsla uppbyggingarteymis félags- og atvinnumála frá 22. desember sl.
Stöðuskýrsla uppbyggingarteymis 22.12.2020.pdf
8. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Lögð var fram til upplýsinga fundargerð 893. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var þann 16. desember sl.
Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga nr. 893.pdf
9. 200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð
Afgreiðsla trúnaðarmála er færð í sérstaka fundargerð
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:40 

Til baka Prenta