Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3136

Haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,
09.09.2020 og hófst hann kl. 12:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður,
Helga Kristín Kolbeins aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Bæjarstjóri gerði grein fyrir samtölum sem bæjarfulltrúar hafa átt við samgönguráðherra, fjármálaráðherra og vegamálastjóra um stöðu samgangna til og frá Vestmannaeyjum, þ.m.t. samtölum við ráðherra og vegamálastjóra um stöðu flugsamgangna eftir að Flugfélagið Ernir ákvað á dögunum að hætta áætlunarflugi til Vestmannaeyja og samtölum sem átt hafa sér stað vegna fjárhagsstöðu Herjólfs ohf. og óvissu um sértekjur Herjólfs og fjárheimildir úr ríkissjóði til reksturs félagsins skv. þjónustusamningi.

Á dögunum átti bæjarstjórn góðan fund með þingmönnum suðurkjördæmis um stöðuna bæði í flugi og á sjó. Þingmenn kjördæmisins tóku undir áhyggjur bæjarfulltrúa.

Niðurstaða
Þann 17. ágúst sl. átti bæjarráð fund með samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu vegna fjárhagsstöðu Herjólfs ohf. þar sem meðal annars var kynnt lögfræðiálit er varðar greiðslur ríkisins vegna grunnvísitölu og öryggismönnunar á skipinu. Á þeim þremur vikum sem liðnar eru frá fundinum hafa engin önnur viðbrögð komið frá ráðuneytinu við erindi bæjarins en að svarið berist á næstu dögum og eru það mikil vonbrigði og ekki til þess fallið að draga úr óvissu fyrir framhaldinu.

Hvað varða ákvörðun flugfélagsins Ernis um að hætta áætlunarflugi til Vestmannaeyja frá 4. september þá eru mikil vonbrigði fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum, bæði fyrir íbúa og atvinnulíf, að flugfélagið sjái sér ekki hag í því að halda fluginu áfram. Ljóst er að ríkið þarf að bregðast við stöðunni og liðka fyrir áframhaldandi flugsamgöngum við Vestmannaeyjar.

Sveitarfélagið hefur komið skýrt á framfæri sjónarmiðum sínum við ráðherra, þingmenn og vegamálastjóra, um mikilvægi þess að áætlanaflug sé til og frá Vestmannaeyjum og óskað eftir að ríkið og Vegagerðin leysi úr málinu fljótt og örugglega. Ríkið ber ábyrgð á að tryggja samgöngur á landinu. Vestmannaeyjabær gerir þá eðlilega kröfu að reglulegum flugsamgöngum verði komið á að nýju eins fljótt og mögulegt er.

2. 202006242 - Fjárhagsáætlun 2021
Lögð voru fram drög að fjárhagsramma fyrir árið 2021. Bæjarráð ræddi drögin og forsendur fjárhagsáætlunar, þ.m.t. tímasetningu undirbúnings, fjárhagsramma og gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár, sem felur í sér töluverðar áskoranir vegna þeirrar stöðu sem ríkir í heiminum. Fjármálastjóri sveitarfélagsins var viðstaddur umræður um forsendur fjárhagsáætlunnarinnar.

Niðurstaða
Bæjarráð felur bæjarstjóra, framkvæmdastjórum sviða og fjármálastjóra að halda áfram vinnu við gerð fjárhagsáætlunarinnar og upplýsa bæjarráð reglulega um gang mála.
Dagsetningar fjárhagsáætlunar fyrir 2021.pdf
3. 202009011 - Minnisblað um stöðu framkvæmda hjá Vestmannaeyjabæ
Lagt var fram minnisblað um stöðu framkvæmda hjá Vestmannaeyjabæ. Töluverður fjöldi framkvæmda hefur átt sér stað undanfarna mánuði og í minnisblaðinu er rakin staða einstakra framkvæmda.

Jafnframt var lögð fram sérstök greinargerð um framkvæmdir í Íþróttamiðstöðinni á þessu ári. Töluvert meiri þörf var á kostnaðarsömu viðhaldi við Íþróttamiðstöðina en gert var ráð fyrir og ljóst að sú þörf verður áfram til staðar.

Ólafur Snorrason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs, tók þátt í umræðum um málið.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og lýsir áhyggjum af ástandi íþróttahúsanna. Mikilvægt er að flýta vinnu við mat á viðhaldsþörf og aðgerðum þar að lútandi.
Samantekt kostnaðar við framkvæmdir í Íþróttamiðstöðinni.pdf
Staða verklegra framkvæmda á vegum Vestmannaeyjabæjar (001).pdf
4. 202009017 - Viðauki við fjárhagsáætlun 2020
Lagðir voru fram viðaukar 5-7 við fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2020. Samkvæmt viðaukanum eykst fjárfesting vegna Íþróttamiðstöðvar um 81 m.kr. vegna sérstakra framkvæmda við viðhald húsanna, aðgerðir vegna Blátinds um 9 m.kr. og útgjöld vegna viðbótaráðninga sumarstarfsfólks um 29,8 m.kr., en á móti koma tekjur frá Vinnumálastofnun að fjárhæð 3,2 m.kr., þannig að nettóáhrif viðbótarráðninga sumarstarfsfólks á aðalsjóð er um 26,6 m.kr. Alla jafna er greint frá breytingum á útgjöldum aðalsjóðs (þ.e. gjöldum og tekjum) í sérstakri frávikaskýrslu, en þar sem um átaksverkefni vegna Covid-19 var að ræða, var ákveðið að útbúa sérstakan viðauka um viðbótaráðningar sumarstarfsfólks fyrir árið 2020.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2020.
5. 201909059 - HS - veitur
Bæjarstjóri og framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs greindu frá samskiptum sem fram hafa farið vegna gjaldskrár HS veitna á dreifingu og flutningi á raforku. Flutningur á raforku er í höndum Landsnets og því ekki á forræði HS veitna. Dreifingin fer fram á grundvelli samþykktrar gjaldskrár og var m.a. tilgangur samskipta að fara yfir hvort hægt væri að fá hagstæðari kjör.

Eftir yfirferð með sérfræðingum telur Vestmannaeyjabær að mögulegt sé að fá hagstæðari verð á flutningi raforku á nokkrum notkunarstöðum hjá Vestmannaeyjabæ.

Ólafur Snorrason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs, tók þátt í umræðum um málið.

Niðurstaða
Bæjarráð felur bæjarstjóra að fylgja málinu eftir í samráði við framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs.
6. 202009013 - Lögreglusamþykkt Vestmannaeyja
Lögð voru fyrir bæjarráð drög að lögreglusamþykkt fyrir Vestmannaeyjar. Í samþykktinni er m.a. kveðið á um reglur um velsæmi, og almennt öryggi á almannafæri, reglur um ökutæki, umferð, veitingastaði, skemmtanahald, götuspjöld, merkingar og húsnúmer og útivistartíma barna og unglinga. Þá er jafnframt að finna í samþykktinni ákvæði um refsingar og kostnað. Lögreglusamþykktin var unnin í samráði við embætti lögreglustjóra Vestmannaeyja.

Ólafur Snorrason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs, tók þátt í umræðum um málið.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir drögin að lögreglusamþykktinni fyrir sitt leyti og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að senda samþykktina til dómsmálaráðuneytisins til staðfestingar og birtingar í Stjórnartíðindum í framhaldi.
7. 202002051 - Málefni Hraunbúða
Bæjarstjóri greindi frá fundi sem hún átti ásamt embættismönnum bæjarins með forstjóra og fulltrúum Sjúkratrygginga Íslands um uppsögn á samningi Vestmannaeyjabæjar og stofnunarinnar um rekstur Hraunbúða. Skattgreiðendur í Vestmannaeyjabæ hafa í gegnum árin greitt hundruðir milljóna með rekstri stofnunar sem ríkinu ber að fjármagna. Slíkt gangi ekki upp lengur. Jafnframt undirstrikaði bæjarstjóri mikilvægi þess að tryggja óbreytta þjónustu við heimilisfólk og starfsfólki Hraunbúða áframhaldandi störf og kjör sbr. lög þar um, við yfirfærslu stofnunarinnar til ríkisins.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og felur bæjarstjóra og hlutaðeigandi embættismönnum að halda áfram viðræðum á þessum forsendum við Sjúktratryggingar Íslands og heilbrigðisráðuneytið.
8. 202009033 - Verklagsreglur um ráðningar hjá Vestmannaeyjabæ
Lögð voru fram drög að verklagsreglum um ráðningar í störf hjá Vestmannaeyjabæ. Með reglunum er verið að stuðla að auknum gæðum við ráðningar og samræma þær milli stofnana bæjarins. Reglurnar verða kynntar forstöðumönnum stofnana á sérstökum forstöðumannafundi sem haldinn verður fljótlega og birtar á vef Vestmannaeyjabæjar í framhaldi.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir reglurnar.
Verklagsreglum um ráðningar hjá Vestmannaeyjabæ -gild.pdf
9. 202009010 - Stytting vinnuvikunnar í kjaramálum
Samið var um styttingu vinnutíma í nokkrum kjarasamningum launanefndar sveitarfélaga og einstakra stéttarfélaga við gerð nýlegra samninga. Skipaður hefur verið sérstakur innleiðingarhópur samningsaðila, þ.e. tveimur fulltrúum frá Kjarasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga og BSRB, BHM og ASÍ, einum fulltrúa frá hverjum aðila, sem verður starfræktur á gildistíma kjarasamningsins.

Markmið styttingar vinnutímans er að bæta lífskjör og auðvelda samræmi á milli vinnu og einkalífs. Styttingin hefur einnig það að markmiði að bæta vinnustaðamenningu og auka skilvirkni og þjónustu.

Sveitarfélögum er gert að innleiða umræddar breytingar á styttingu vinnutíma dagvinnufólks eigi síðar en 1. janúar 2021 og breytingar á styttingu vinnutíma vaktavinnufólks eigi síðar en 1. mai 2021. Gefnar hafa verið út leiðbeiningar um hvernig þeirri vinnu skuli háttað. Sveitarfélög skipi þannig sérstaka vinnutímanefnd, sem annast verkefnisstjórn, greiningu og stöðumat á sveitarfélaginu og samskipti við sveitarstjórnir og innleiðingarhóp. Vinnutímanefnd leiðir samtöl forstöðumanna og starfsfólks á hverjum vinnustað.

Bæjaryfirvöld kölluðu eftir tilnefningum fulltrúa starfsfólks frá Stavey, Drífanda og BHM og leggur til eftirfarandi skipan vinnutímanefndar Vestmannaeyjabæhar:

Eydís Ósk Sigurjónsdóttir, mannauðsstjóri og fulltrúi stjórnsýslu- og fjármálasviðs,
Unnur Sigmarsdóttir fulltrúi starfsfólks í Stavey
Arnar G. Hjaltalín, fulltrúi starfsfólks í Drífanda
Beðið er tilnefningar frá BHM
Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs
Ólafur Snorrason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs

Verður Eydís Ósk formaður nefndarinnar. Nefndin mun skipuleggja vinnuna og ákveða nánari útfærslu í samráði við forstöðumenn. Nefndin mun bera verklag, áherslur og útfærslur undir bæjarstjóra og framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs.

Helga Kristín Kolbeins vék af fundi við umræðu um málið vegna fjölskyldutengsla við einn af tilnefndum fulltrúum vinnutímanefndarinnar.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og samþykkir skipan vinnutímanefndar Vestmannaeyjabæjar vegna styttingu vinnuvikunnar. Framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs er falið að útbúa erindisbréf fyrir nefndina þegar tilnefning frá BHM liggur fyrir.
Leiðbeiningar_stytting dagvinnutíma_24.8.2020_LOK.pdf
10. 201909060 - Endurskoðun ráðstöfunar 5,3 % aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir
Unnið hefur verið frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum (atvinnu- og byggðakvótar o.fl.). Um er að ræða svokallaðar 5,3% aflehimildir sem ríkið fer með forræði yfir.

Frumvarpið er nú til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og felur bæjarstjóra að skila inn umsögn um frumvarpið, byggða á fyrri athugasemdum sem ræddar hafa verið í bæjarráði, og leggja fram í samráðsgátt stjórnvalda.
11. 202008147 - Stöðuskýrslur uppbyggingarteymis félags- og atvinnumála
Lagðar voru fram til upplýsinga stöðuskýrslur uppbyggingarteymis félags- og atvinnumála.
Stöðuskýrsla uppbyggingarteymis_3.7.2020 - RA.pdf
Stöðuskýrsla uppbyggingarteymis_3.6.2020 .pdf
Stöðuskýrsla uppbyggingarteymis_27.8.2020_RA.pdf
Stöðuskýrsla uppbyggingarteymis 16.6.2020 - RA (1).pdf
12. 202009014 - Skýrsla starfshóps um fjármál sveitarfélagana
Lögð var fram til upplýsinga skýrsla starfshóps um fjármál sveitarfélaganna um fjárhagsstöðu sveitarfélaga og samantekt þátta sem ljóst þykir að muni hafa mikil áhrif á afkomu sveitarfélaganna á komandi mánuðum. Tilefnið eru þær aðstæður sem myndast hafa í kjölfar Covid-19. Hópnum þykir ljóst að Covid-19 hefur haft og mun hafa töluverð áhrif á fjármál sveitarfélaga, en áhrifin eru þó ólík eftir sveitarfélögum og landshlutum. Mörgum sveitarfélögum er þröngur stakkur sniðinn hvað varðar viðbrögð við ástandinu, sérstaklega í ljósi þess hve reyna mun á framlög þeirra til lögbundinna verkefna, ekki síst í velferðar- og skólamálum.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
Skýrsla starfsho´ps um fja´rma´l sveitarfe´laga - helstu niðursto¨ður.pdf
13. 201808044 - 100 ára afmæli kaupstaðarréttinda Vestmannaeyjabæjar
Nefnd sem skipuð var í tilefni af 100 ára kaupstaðarafmæli Vestmannaeyjabæjar afhenti á dögunum formanni bæjarráðs og bæjarstjóra ítarlegan annál um afmælisárið 2019. Annállinn er yfirgripsmikill og fjallar um viðburði á árinu og vel heppnaða afmælisdagskrá. Samantektin verður aðgengileg á vef Vestmannaeyjabæjar.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar nefndinni og sérstaklega Ómari Garðarssyni fyrir góða gagnaöflun og vel framsetta heimild sem nýtast mun komandi kynslóðum, hvort heldur er til almennrar fræðslu eða við undirbúning næsta stórafmælis Vestmannaeyjabæjar.
100-ara-afmaelisannall-vestmannaeyjabaejar.pdf
14. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Lagðar voru fram til upplýsinga fundargerðir 560. fundar stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem haldinn var 13. ágúst sl. og 886. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var þann 28. ágúst sl.
560.-fundur-stj.-SASS.pdf
stjorn-sambands-islenskra-sveitarfelaga-886.pdf
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:00 

Til baka Prenta

Aðrar fundargerðir

Einnig er hægt að nálgast aðrar fundargerðir.