Ræningjatangi - Lyngfellisdalur - Sæfell
2 klst. | 300 m | 5.5 km |
Gangan hefst á bílastæði við Brimurð og liggur leiðin í Ræningjatanga og þaðan eftir göngustíg meðfram austurbrún Heimaeyjar. Gengið er eftir Brimurðarlofti þar til komið er að gili í hlíðinni og þar er gengið upp. Þegar upp hlíðina er komið er farið yfir út á Litlhöfða. Þaðan liggur leiðin meðfram austurhlið Lyngfellisdals og upp á Sæfell. Leiðin niður liggur eftir göngustíg niður Sæfell, meðfram hlíð vestan við Lyngfellisdal og til baka í átt að Brimurð.
Ræningjatangi er tangi sem stendur í suður átt austan við Brimurð og dregur tanginn nafnið sitt af sjóræningjum sem gengu á land þar í Tyrkjaráninu 1627. Ekki þótti þeim ráðlegt að leggjast að við höfnina þar sem mannaðar fallbyssur stóðu á Skansinum.
Ræningjarnir settu upp búðir sínar í Lyngfellisdal og dvöldu þar í þrjá daga. Ræningjaflöt í Lyngfellisdal hefur síðan verið notuð fyrir knattspyrnu- og handknattleiks æfingar áður en nýrri æfingasvæði komu til sögu.
Á toppi Sæfells er útsýni yfir alla eyjuna og einnig í berg og kletta sem aðskilja land og haf.
Þú ert á þína eigin ábyrgð.