Gönguleiðir


Hiking routes in English

Heimaklettur

Klukka
Fjall4 A - B
   
1 klst. 283 m 1.8 km   Boots Boots Boots
Heimaklettur er hæsta fjall í Vestmannaeyjum, 283 metra yfir sjávarmáli. Kletturinn er móbergsstapi sem varð til við gos undir jökli seint á síðustu ísöld.

Fjallgöngur hafa löngum verið stundaðar í Heimakletti. Oft hefur uppgangan verið erfið og hættuleg vegna brattra hlíða og bergs, en bót varð á því í kringum árið 2000. Settur var upp stigi þar sem erfiðasti hjallinn er. Gangan er þó enn erfið þá sérstaklega fyrir lofthrædda.

Óvant fólk er hvatt til að vera í fylgd með aðila sem þekkir aðstæður. Göngufólk ætti aldrei að fara að brúnum heldur fylgja gönguleiðinni á toppinn. Huga ber að veðurspá áður en lagt er af stað á fjallið. Stigar og gras eru hál í bleytu og auk þess geta vindhviður valdið óöruggum aðstæðum. Hafa ber í huga að ferðin niður er oft erfiðari en ferðin upp. Ef göngufólk finnur fyrir óþægindum er það því eindregið hvatt til að snúa við.

Gangan hefst á klifri upp lóðrétta stiga í vestur hlið fjallsins. Milli stigana á Neðri Kleifum tekur við tröppulagður stígur. Milli þrepanna í seinni stiganum er að finna svokallaðan Papakross í berginu. Hann er gerður af pöpum fyrir landnám. Skilti hefur verið sett upp í berginu til hægri við stigann þar sem krossinn er að finna. Þegar komið er upp seinni stigann blasir við fjárrétt Heimakletts. Þar á eftir tekur við sjáanlegur stígur í hlíð fjallsins undir bjargi sem kallast Hetta. Gengið er eftir stígnum að Þuríðarnefi og þar eftir uppá Hettu. Þessi hluti leiðarinnar getur reynst erfiður fyrir lofthrædda eða óvana göngumenn. Eftir að komið er á Hettu er leiðin auðveldari þar sem gengið er eftir göngustíg á grasþekju fjallsins.

Á Heimakletti er ekki ólíklegt að sjá fé á beit. Um 44 kindur eru á Heimakletti sem ganga þar allt árið. Á sumrin fjölgar búféi í um 100 þegar lömb bætast í hópinn.

Á norð-vestur brún fjallsins er Dufþekja sem ber heiti sitt eftir þrælnum Dufþaki. Sagan segir að Daufþakur hafi flúið ásamt hópi þræla til Vestmannaeyja eftir að hafa banað þrælahaldara sínum Hjörleifi. Ingólfur Arnarson fóstbróðir Hjörleifs elti þrælana og drápu menn hans þá alla, flesta á Eiðinu, en sumir klifu í björg og voru hraktir þar framan af, þ.á.m. forysturþræll Hjörleifs, Dufþakur.

Í Dufþekju og bjarginu þar fyrir neðan er mikil fýlabyggð og var þar til margra ára sigið eftir fýlsungum og hvannarrótum. Hlíðin er ákaflega flá og brött og talið er að þar hafi alls farist tuttugu og einn maður.

Gangan upp á klettinn er skemmtileg og reynir vel á. Toppur Heimakletts ber nafnið Háakolla og þaðan sést yfir bæinn og eyjarnar umhverfis Heimaey. Á björtum degi sést vel upp á meginlandið, þar sem Eyjafjallajökull og Mýrdalsjökull blasa við.

Þú ert á þína eigin ábyrgð.

Heimaklettur_ornenfi