Heimaey hringur
4-6 klst. | 500 m | 20 km |
Þessi gönguleið er sú sama og hlaupaleiðin er í svokölluðu „Puffin-run“. Vestmannaeyjar eru stærsta lundabyggð í heimi og er tenging við lundann mikil á þessari leið þar sem hluti leiðarinnar er meðfram lundabyggð.
Gönguleiðin byrjar frá Skansinum til vesturs í gegnum bæinn og liggur leiðin meðfram hafnarsvæðinu og niður fyrir Friðarhafnarskýli. Þá er gengið upp að Skiphellum, framhjá Spröngunni, til suðurs Hlíðarbrekku og inn á Hlíðarveg.
Gengið er inn í Herjólfsdal og hringinn í kringum Tjörnina. Þaðan er gengið að Mormónapolli og til suðurs með Hamrinum, haldið áfram á Breiðabakka þar sem gengið er niður í Klauf. Gengið er úr Klaufinni upp á veginn til Stórhöfða og beygt til vesturs að göngustígnum sem liggur að Lundaskoðunarhúsinu. Gengið er meðfram og í lundabyggðinni vestur og suður við Stórhöfða. Frá Kaplapitti er gengið upp að húsinu og inn á veginn. Næst liggur leiðin niður Stórhöfða yfir eiðið milli Klaufar og Brimurðar.
Beygt inn Kinn og gengið meðfram Sæfelli alveg út veginn og síðan beygt til austurs og farið meðfram flugbraut og út fyrir flugbrautarenda að austan. Þaðan niður með brúninni og með henni þar til að komið er inn á slóða. Gengið á slóðanum að Eldfelli og farið framhjá Páskahelli.
Gengið meðfram Eldfelli að austan nánast að krossinum inn við Eldfellsgýg. Síðan er gengið á Nýja Hrauninu niður á útsýnispall hjá Viðlagafjöru, þar sem útsýni er að Bjarnarey, Elliðaey og Eyjafjallajökli. Frá honum er farið áfram til norðurs og farið grýtta leið meðfram Gjábakkafjöru sem endar upp á útsýnispalli móts við Klettshelli. Gengið er þaðan niður í Skansfjöru framhjá Stafkirkjunni og Landlyst og þar með er hringnum lokað.
Þessi gönguleið er krefjandi og mælt er með að taka kort af leiðinni meðferðis.
Þú ert á þína eigin ábyrgð.