28. júlí 2004

Vestmannaeyjabær á Menningarnótt í Reykjavík 21. ágúst n.k.

Undirbúningur langt á veg kominn.  "Léttir" of djúpristur til að fara á Tjörnina en Hólminn verður hertekinn.  Vestmannaeyjabær heiðurssveitarfélag á menningarnótt í boði borgarstjórans í Reykjavík.

Undirbúningur langt á veg kominn.  "Léttir" of djúpristur til að fara á Tjörnina en Hólminn verður hertekinn.  Vestmannaeyjabær heiðurssveitarfélag á menningarnótt í boði borgarstjórans í Reykjavík.

Eins og menn eflaust muna voru þau Andrés Sigurvinsson, Bergur E. Ágústsson og Kristín Jóhannsdóttir skipuð í nefnd til að annast undirbúning og skipulagningu fyrirhugaðar farar sveitarfélagsins á hátíðarhöldin í tilefni heimboðs borgarstjórans í Reykjavík.

Að sögn Andrésar Sigurvinsson er verið að leggja lokahönd á skipulagningu og dagskrárgerð inn í Ráðhús Reykjavíkur.  Hann hefur átt nokkra fundi með forráðamönnum Höfuðborgarstofu og aðilum frá Ráðhúsi Reykjavíkur vegna hátíðarhaldanna ásamt Úlfi Grønvald myndlistarmanni og yfirmanni leikmyndadeildar RÚV, en hann var fenginn til að vera nefndinni til ráðgjafar.   Úlfur kom hingað og dvaldist daglangt, skoðaði söfnin og ræddi við heimamenn sem koma til með að tengjast þessum hátíðarhöldum á einn eða annan hátt.

Ljóst er að dagskrá verður í gangi á vegum Vestmannaeyjabæjar frá kl. 14:00 þennan umrædda dag og fram á kvöld.  Í eystri sal veður byggt eitt heljarinnar eldfjall, sýningagripum komið fyrir og lundapysjur munu setja svip sinn á svæðið.  Hugmyndin er og að nota 4 stóra sjónvarpsskjái og sýna lifandi myndir héðan og ýmislegt annað mun vera þarna sem sýnir menningu okkar. Boðið verður upp á vestmanneyiskamatarrétti á millidekki svokölluðu, en í vestari salnum verður leiksvið þar sem ýmsir listamenn frá Eyjum munu troða upp.

Dagskráin hefst kl. 14:00 með ávörpum borgarstjórans í Reykjavík og bæjarstjórans í Vestmannaeyjum.

Nánar verður greint frá gangi mála í bæjarblöðum staðarins og öðrum fjölmiðlum er nær dregur.  En það er ljóst að mikill áhugi er á að gera þetta sem veglegast og nýta okkur til ýtrasta þá auglýsingu og kynningu sem í þessari hátíð felst.  Almennur áhugi er hjá heimamönnum að leggja sitt lóð á vogarskálarnar hvort sem það er í formi skemmtiatriða eða annars til að þetta megi heppnast sem best.

Verið er að kanna möguleika með útgáfu á veglegum kynningarbæklingi fyrir Vestmannaeyjabæ, starfsemi hans og annara hér í sveitarfélaginu, og heyrst hefur að Herjólfur verði etv. á austurbakkanum í Reykjavíkur á menningarnótt með tilheyrandi lífi og fjöri um borð?

Fræðslu - og menningarsvið


Jafnlaunavottun Learncove