Verndaður vinnustaður - Kertaverksmiðjan Heimaey 20 ára.
Að stofnun verndaðs vinnustaðar í Vestmannaeyjum, kertaverksmiðjunni Heimaey, stóðu Sjálfsbjörg Vestmannaeyjum, Vestmannaeyjadeild S.Í.B.S., Vestmannaeyjadeild Rauða kross Íslands, Þroskahjálp Vestmannaeyjum, Vestmannaeyjabær, verkalýðsfélögin í Vestmannaeyjum og Vinnuveitendafélag Vestmannaeyja. Undirbúningurinn hófst árið 1980 og var byggingin fjármögnuð af stofnaðilum, hinu opinbera, útgerðarfyrirtækjum, ýmsum félagasamtökum og einstaklingum. Fyrsta skóflustungan var tekin 1981 og vinnustaðurinn tók til starfa 6. september 1984. Húsnæðið er nú í eigu ríkisins en rekstur verndaðs vinnustaðar í höndum Vestmannaeyjabæjar skv. þjónustusamningi við félagsmálaráðuneytið.
Upphaflegt markmið stofnaðila var að skapa atvinnumöguleika fyrir fatlaða íbúa Vestmannaeyja sem ekki höfðu starfsgetu til starfa á almennum vinnumarkaði. Vinnuframboð að mestum hluta við sjávarútveg, þ.e. veiðar og vinnslu afla, sem gerði mikla kröfu til starfsgetu starfsmanna. Megináhersla var lögð á að leita starfa sem hentað gætu starfsfólki með skerta starfsorku og var horft til þess að um léttan iðnað yrði að ræða og föst störf fyrir fatlaða og öryrkja þar sem atvinnutækifærin voru ekki talin mörg í Eyjum á þessum tíma.
Á síðastliðnum 20 árum hafa málefni fatlaðra tekið miklum breytingum. Í daglegri tilveru fólks skiptir vinna og vinnustaður miklu máli. Í stefnuyfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra segir: ?Fatlaðir eiga rétt á fjárhagslegu og félagslegu öryggi og mannsæmandi lífskjörum. Þeir eiga rétt á, eftir því sem hæfileikar leyfa, að fá vinnu og halda henni, sem og að taka þátt í nytsamlegu, frjóu og arðgefandi starfi og ganga í verkalýðsfélag. Fatlaðir eiga kröfu á að tekið sé tillit til sérþarfa þeirra á öllum stigum fjárhags-og félagslegrar skipulagningar."
Aukin þekking og tækniframfarir gera okkur í dag kleift að yfirstíga margar þeirra hindrana sem áður komu í veg fyrir þátttöku fatlaðra í atvinnulífinu. En það þarf líka að yfirstíga hugarfarslegar hindranir því þær standa oft frekar í vegi fyrir breytingum en tækniþekking og menntun. Í atvinnumálum þarf því að leggja áherslu á fjölbreytileika starfa, starfsþjálfun, stuðning í störf á almennum vinnumarkaði og vernduð störf á almennum vinnumarkaði, fyrir utan verndaða vinnustaði. Menntun fatlaðra, ekki hvað síst framhaldsmenntun fatlaðra skiptir einnig miklu máli ásamt kynningu í þjóðfélaginu á styrk og möguleikum fatlaðra til virkrar þátttöku í atvinnulífinu.
Atvinnumál fatlaðra í Vestmannaeyjum hafa tekið mið af þessari þróun og hefur aukin áhersla verið lögð á leit að störfum á almennum vinnumarkaði fyrir fatlaða í gegnum ams, þ.e. atvinnu með stuðningi. Með ams er lögð áhersla á að finna starf á almennum vinnumarkaði í samræmi við hæfileika og starfsgetu einstaklingsins, veita nauðsynlega þjálfun í viðkomandi starf og eftirfylgd sem nýtist jafnt starfsmanni sem vinnuveitanda.
Á vernduðum vinnustað, kertaverksmiðjunni Heimaey, er að hluta til enn unnið skv. upphaflegum markmiðum stofnaðila, þ.e. að veita föst störf fötluðum og öryrkjum sem ekki finna störf við hæfi á almennum vinnumarkaði. Áherslur vinnustaðarins hafa þó eðlilega breyst á undanförnum árum í átt til aukinnar fjölbreytni, markvissari og einstaklingsmiðaðrar þjónustu. Í dag er verndaður vinnustaður orðinn atvinnumiðstöð fatlaðra. Þar er tekið á móti atvinnuumsóknum, veitt ráðgjöf í tengslum við atvinnuleit, stöðumat gert og leiðir valdar að markmiðum umsækjanda. Starfsmat og starfsþjálfun er orðinn fastur liður í starfseminni á vernduðum vinnustað og fyrir liggur að efla þarf hæfingu og bæta hæfingaraðstöðu fatlaðra. Þetta þarf allt að vinnast með hliðsjón af rekstarforsendum og markaðshæfni framleiðslunnar á vernduðum vinnustað. Verndaður vinnustaður, kertaverksmiðjan Heimaey, er einn þáttur í atvinnumálum fatlaðra í Eyjum, en við megum ekki láta þar við sitja. Nauðsynlegt er að fjölga verkefnum og atvinnutækifærum fatlaðra, hvort sem um er að ræða verkefni sem unnin eru í kertaverksmiðjunni Heimaey eða í fyrirtækjum annars staðar í bænum. Til þess að það megi takast þurfa allir sem að atvinnu- og menntamálum koma að taka þátt í markvissri uppbyggingu í þessum málaflokki.
Landssamtökin Þroskahjálp leggja áherslu á að fötluðum ungmennum sé í tengslum við starfskynningar grunnskólanna tryggð starfskynning á almennum vinnustöðum og að fötluðum sé að loknu skyldunámi tryggðir möguleikar til framhaldsnáms til jafns við annað ungt fólk. Möguleiki fatlaðra til starfsmenntunar er mikilvægur áfangi til að auka réttindi og bæta tækifæri fatlaðra til vinnu á almennum vinnumarkaði.
Einnig er mikilvægt að svæðisvinnumiðlanir efli sitt starf í vinnumiðlun, starfsráðgjöf og atvinnuleit til samræmis við þessar áherslur í málefnum fatlaðra og í samræmi við núgildandi lög um vinnumarkaðsaðgerðir. Í þjónustusamningi Vestmannaeyjabæjar og félagsmálaráðuneytisins um málefni fatlaðra er lögð áhersla á að efla hæfingu á vernduðum vinnustað, efla atvinnu með stuðningi og efla samstarf við tengslastofnanir og vinnumarkaðinn. Þjónustusamningurinn rennur út í árslok 2006 og því mikilvægt að nýta það tímabil sem eftir er af þjónustusamningnum vel og markvisst til að ná settum markmiðum. Frumkvöðlunum, starfsmönnum og öllum þeim sem lagt hafa vernduðum vinnustað, kertaverksmiðjunni Heimaey lið í gegnum tíðina óska ég til hamingju með áfangann.
Hera Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri félags-og fjölskyldusviðs Vestmannaeyjabæjar.