22. febrúar 2004

Vel heppnuð Færeyjaferð

Sjóslysið þegar Glaður Ve 270 fórst 1954, og vinarbærtengsl okkar við Götu og nánara samstarf. Dagana 6.-9. febrúar brá menningarfulltrúi Vestmannaeyjabæjar, Sigurgeir

Sjóslysið þegar Glaður Ve 270 fórst 1954, og vinarbærtengsl okkar við Götu og nánara samstarf.

Dagana 6.-9. febrúar brá menningarfulltrúi Vestmannaeyjabæjar, Sigurgeir Jónsson sér í ferð til Færeyja.  Tilgangur þeirrar ferðar var tvíþættur.  Annars vegar í einkaerindum vegna vinnu við grein sem birtast mun í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja á þessu ári og fjallar um sjóslysið þegar Glaður VE 270 fórst árið 1954.  Allir skipverjar björguðust í gúmbát og tveir þeirra eru enn á lífi, báðir búsettir í Færeyjum.  Erindið var að ræða við þá.  Hins vegar var erindið að sinna ákveðnum málum sem lúta að tengslum við Götu, vinabæ okkar í Færeyjum.

  Í júlí í sumar verður í Vestmannaeyjum framhald á verkefninu Stille oy, sem nokkur ungmenni frá Eyjum tóku þátt í árið 2002 í Noregi,undir stjórn Andrésar Sigurvinssonar.  Í sumar mun norski hópurinn koma til Eyja og vinna svipað verkefni hér með heimamönnum.  Allt þetta unga fólk býr í eysamfélögum og verkefnið var unnið út frá þeiri viðmiðun, t.d. hvað er líkt og hvað er ólíkt með þessum tveimur samfélögum.  En nú vaknaði áhugi fyrir því að bjóða þriðja eysamfélaginu að slást í hópinn, Færeyjum, og þá hvað helst frá vinabæ okkar í Götu og bjóða hingað í sumar tveimur þátttakendum þaðan, til að kynnast verkefninu og með það fyrir augum að taka fullan þátt í því sumarið 2006.

  Ég hitti að máli í Þórshöfn Malan Joensen en hún sér um skipulag á allri leiklistarstarfsemi í Færeyjum.  Þátttakendur í verkefninu tengjast allir leikhússvinnu.  Hún er tengiliður okkar í Færeyjum og mun verða okkur innan handar við þetta.  Fyrir hennar tilstilli náði ég sambandi við ungan og áhugasaman mann í Götu, áhugaleikarann Áslak Nesá, sem verður að öllum líkindum annar af þátttakendum þeirra í sumar.

  Í Götu hitti ég einnig að máli Halldóru Ranghamar, bæjarstjóra og Sigvöru Laksá, sem er menningarfulltrúi í Götu.  Við ræddum m.a. um áðurnefnd samskipti vinabæjanna og önnur, t.a.m. möguleika á því að íþróttahópar frá Götu gætu tekið þátt í knattspyrnumótunum tveimur sem árlega eru haldin í Eyjum, Shellmótinu og Vöruvalsmótinu.  Þar sem undirbúningur þeirra móta fyrir komandi sumar er langt á veg kominn var ákveðið að stefna að því á næsta ári að ungt knattspyrnufólk frá Götu gæti orðið meðal þátttakenda.

  Það er ekki aðeins á íþróttasviðinu sem mannlífið blómstrar í Götu heldur er þar að finna gott tónlistarlíf hjá ungu fólki, rétt eins og í Vestmannaeyjum.  Í júlímánuði er þar haldið heilmikið "tónlistarfestival? niðri í fjöru þar sem ungt fólk kemur fram.  Þær Halldóra og Sigvör lýstu áhuga sínum á því að fá unga tónlistarmenn frá Eyjum í sumar til að taka þátt í þeim fagnaði og er því hér með komið á framfæri.  Þá höfðu þær einnig mikinn áhuga á að mega senda fulltrúa frá Götu á næsta ári á tónlistarhátíðina Allra veðra von sem ungir menn í Eyjum standa fyrir.

  Það er von mín að þessi ferð hafi getað orðið til að efla sambandið milli Vestmannaeyja og Götu og stuðla að samskiptum.  Í mínum huga eiga slík samskipti ekki að felast í því einungis að bæjarfulltrúar skiptist á heimsóknum (þó svo að það sé út af fyrir sig ágætt líka) heldur að almennir bæjarbúar taki þátt í þeim, t.d. á þann hátt sem hér hefur komið fram.

  Ég var mjög ánægður með árangurinn af þessari ferð (báðum erindum) og ekki hvað síst að hún skyldi vera Vestmannaeyjabæ að kostnaðarlausu.  Við erum nefnilega svo lánsöm í Vestmannaeyjum að eiga hér enn fólk sem hefur ákveðnar hugsjónir og áhugamál og er reiðubúið að leggja út í kostnað vegna þess.  Einn þeirra hugsjónamanna er Haukur Guðjónsson frá Reykjum.  Hann ákvað á síðasta ári að heiðra minningu bróður síns heitins, Þorleifs, sem var skipstjóri og útgerðarmaður á Glað VE, og láta færa frásögnina af þessu slysi í letur.  Og þegar hann komst að því að enn væru tveir eftir á lífi af áhöfninni, þá ákvað hann að bjóða undirrituðum til Færeyja til að hafa af þeim tal.  Og hann gerði gott betur því að hann bauð einnig með "túlkinum og Færeyingnum? Gísla Magnússyni.  Þetta kostaboð, sem Haukur á heiður og þakkir skilið fyrir, ásamt því að við nutum frábærrar gestrisni og góðvildar í Götu, varð til þess að spara verulega fyrir Vestmannaeyjabæ og veitir ekki af á þessum síðustu tímum.

Sigurgeir Jónsson, menningarfulltrúi Vestmannaeyjabæjar


Jafnlaunavottun Learncove