Vegalengdir og aldursskiptir grunnskólar
Hinn ágæti menningarfulltrúi og golfari Sigurgeir Jónsson kom með mynd af vegalengdum í Eyjum miðað við ákveðinn radíus frá grunnskólum bæjarins og í framhaldi af því sendi Hjálmfríður inn grein inn á eyjar.net þar sem hún upplýsti okkur um að mannfólkið geta ekki flogið þessa leið. Allt saman gagnlegar upplýsingar en hversu mikið máli skipta þær? Fyrir sjálfan mig eru vegalengdir afstæðar og í sögu Vestmannaeyja er það vel þekkt. Áður fyrr var talið óralangt inn í Herjólfsdal. Menn gistu jafnvel í tjöldum sínum á þjóðhátíð vegna fjarlægðar heim. Brimhólar voru taldar óravegu frá bænum en ekki í dag. Ég horfi á fólk ganga sér til heilsubótar vegalengdir sem áður töldust vera meira en ?dagleið". Sjálfur er ég fæddur og alinn upp á Akranesi og taldi ekki eftir mér að ganga bæinn þveran og endurlangan, sérstaklega ekki ef hægt var að komast í fótbolta eða spila borðtennis einhvers staðar.
Það eru aðrir þættir í þessari umræðu sem skipta einnig máli. Aukin vegalengd þýðir meiri áhætta, tími, fyrirhöfn og kostnaður. Hér í Eyjum er yfir margar götur að fara, gatnakerfið stundum flókið og umferð talsverð, sérstaklega á morgnana. Þetta sést vel í örtröðinni við skólana þegar foreldrar aka börnum sínum þangað (sem líklega eykst við annan aldursskipta skólann). Þetta er að gerast þegar mesta skammdegið er og áhættan eykst í samfélaginu á ákveðnum tímapunktum dagsins. Lengri vegalengdir auka þessa áhættu.
Mörg börn stunda tónlistarnám, íþróttastarfsemi eða önnur tómstundarstörf strax eftir skóla. Sum hlaupa heim til að fá sér að borða eða til að ná í nótnabækur eða íþróttadótið til að þurfa ekki að rogast með of mikið með sér. Jafnvel fara þau heim til að skipta um föt eða til að hvíla sig smá stund. Auknar vegalengdir taka meiri tíma.
Þegar ég flutti til Eyja var mér sagt að hér snjóaði aldrei. Ég kom haustið 1992 og þann vetur og næsta óð ég snjó upp yfir mitti og hugsaði með mér að Eyjamenn hefðu ekki hundsvit á veðurfræði. Á þessum tíma hef ég þó séð að færð og veður skiptir ekki svo miklu máli hér í Eyjum út af vegalengdum. Það koma þó fáir dagar á ári þar sem færðin er þannig að mjög erfitt er að komast á milli staða, jafnvel í bíl hvað þá fyrir gangandi börn. Annað sem er óháð veðrinu en ég kom lítillega inn á áðan en það er það magn sem börnin okkar rogast með í skólann. Ég hvet foreldra að vigta þetta öðru hvoru og athuga hvort ekki megi grisja magnið af viskunni sem börnin bera með sér fram og til baka í og úr skóla. Aukin vegalengd þýðir meiri fyrirhöfn.
Síðasti þátturinn lítur að kostnaði. Rætt hefur verið að aukin vegalengd í skólann þýði skólaakstur. Skólaakstur kostar mikinn pening fyrir bæinn. Fyrir þá sem ekki nýta sér skólaakstur gætu aftur á móti verið einstaklega lánsöm að eiga foreldra sem nenna að hafa fyrir því að aka þeim í skólann. Aðrir skulu gjörðu svo vel hefja skólagönguna snemma dags til að ná á réttum tíma. Aukakostnaður verður fyrir samfélagið við auknar vegalengdir og þeir sem áður þurftu að aka styttri leið í og úr skólanum fara lengri leið og borga því meira fyrir það. Vegalengdir kosta því pening
Með þessum vangaveltum mínum er ég ekki að útiloka umræðu um aldurskipta skóla heldur er þetta innlegg í þá umræðu. Það er mikilvægt að við ræðum þetta út frá sem víðustu sjónarhornum og tökum allt inn. Vegalengd er afstætt orð. Allir hafa gott að því að hreyfa sig og kannski á skólaganga barna okkar að kosta áhættu, tíma, fyrirhöfn og jafnvel pening.
Jón Pétursson sálfræðingur