22. júní 2020

ÚT Í SUMARIÐ / Félagsstarf eldri borgara sumarið 2020

Félags- og barnamálaráðherra hvatti sveitarfélög til að efla félagsstarf fullorðinna í sumar með það að markmiði að rjúfa félagslega einangrun sem orðið hefur vegna COVID-19. 

Eldri borgarar hafa víða þurft að þola skerta samveru og félagslega einangrun m.a. vegna sjálfsskipaðrar sóttkvíar.

Af þeim sökum er sérstaklega mikilvægt að leggja aukna áherslu á frístundaiðkun, geðrækt, hreyfingu og forvarnir með það að markmiði að auka lífsgæði og heilbrigði, fyrirbyggja og draga úr félagslegri einangrun. Ráðuneytið samþykkti að styðja við þau sveitarfélög sem, vegna COVID-19, hyggjast auka við starfsemi og þjónustu í félagsstarfi fullorðinna sumarið 2020.

Vestmannaeyjabær sótti um fyrir verkefninu ÚT Í SUMARIÐ og fékk styrk. Það mun hefjast á fimmtudaginn 26.júní og standa fram í ágúst.

Stofnuð hefur verið síða á facebook Út í sumarið 2020/félagsstarf eldri borgara og eru eldri borgarar í Vestmannaeyjum, aðstandendur og þeir sem miðlað geta þeim viðburðum sem í boði verða hvattir til að fylgjast vel með.

Við rennum blint í sjóinn með þátttökuna og áhugann á verkefninu og byrjum á að setja upp dagsskrá 2x í viku en stefnan er að vera með dagsskrá í hverri viku fram í ágúst.  Viðburðir verða að jafnaði þriðjudaga og fimmtudaga kl. 14 og hver vika verður auglýst sérstaklega.

Við hvetjum þá sem eru með góðar hugmyndir að viðburðum fyrir þennan aldurshóp að hafa samband við okkur. Verkefnið verður þátttakendum að kostnaðarlausu með þeirri undantekningu að ef farið verður á kaffihús eða matsölustað að þá greiðir hver fyrir sig.

Við óskum eftir að a.m.k fyrstu tvær vikurnar skrái fólk sig til þátttöku í verkefninu svo við getum betur séð umfangið, ef þátttaka fer fram úr björtustu vonum munum við endurtaka einstaka viðburði. Skráning á fb síðunni (eða í síma 860 1030). Hægt er að óska eftir akstri ef á þarf að halda.

Við verðum sem mest utanhúss út í sumrinu, í rútuferðum, á menningarviðburðum, jafnvel bátsferð en höfum Kviku fyrir viðburði ef þannig stendur á. Markmiðið er að njóta þess sem eyjan hefur upp á að bjóða í góðum félagsskap og höfum að sjálfsögðu sprittið meðferðis.