10. júní 2020

Ungt fólk í Vestmannaeyjum – niðurstöður könnunar

Starfshópur um endurskoðun forvarnaráætlunar Vestmannaeyjabæjar hefur verið að störfum undanfarna mánuði og hefur m.a. kallað til fundar nokkra helstu lykil- og samstarfsaðila sem koma að vinnu með börnum og ungmennum.

Ákveðið var einnig að fá niðurstöður nýjustu skýrslu Rannsókna og greiningar um líðan og hegðun ungs fólks í 8.-10. bekk Grunnskóla Vestmannaeyja. Niðurstöðurnar voru teknar til umfjöllunar og bókunar í fagráðunum (Fjölskyldu- og tómstundaráði og Fræðsluráði) og hafa einnig verið kynntar nokkrum samstarfsaðilum.

Þessi samantekt er liður í því að kynna niðurstöðurnar fyrir íbúum, ekki síst foreldrum og forráðamönnum barna og ungmenna og kalla í kjölfarið eftir umræðu um málefnið. M.a. er ætlunin að birta könnun á síðu Vestmannaeyjabæjar þar sem óskað verður eftir áliti almennings á því hvað sé helst aðkallandi í forvarnarvinnu og hvað við ættum öll í sameiningu að leggja áherslu á næstu misserin í þeirri stefnumótun og framkvæmdaáætlun.

Helstu niðurstöður skýrslunnar frá Rannsókn og greiningu gefa til kynna marga jákvæða þætti en einnig eru nokkur atriði sem gefa þarf frekari gaum að.

Könnunin var lögð fyrir alla nemendur í 8., 9. og 10. bekk á landinu í febrúar árið 2020. Öllum nemendum sem mættir voru í kennslustund daginn sem könnunin fór fram var boðið að svara spurningalistanum. Þátttaka var með ágætum í Vestmannaeyjum, hér tóku að meðaltali rúm 89% nemenda þátt (hæst var hlutfallið í 10. bekk en lægst í 8. bekk) en á landsvísu var svarhlutfallið tæplega 85%.

Reykingar, rafrettunotkun, áfengis- og vímuefnaneysla.

Lítil notkun tóbaks og vímuefna í Vestmannaeyjum nema helst í 9. bekk.

 

Þegar spurt er um vímuefnaneyslu (þ.e. reykingar, rafrettunotkun, munntóbak, neftóbak og áfengisneyslu) kemur í ljós að mjög lítill hluti 10. bekkinga notar tóbak eða áfengi eða gegnumgangandi innan við 2%. Hlutfall þeirra sem hafa orðið ölvuð um ævina lækkar um 9,4 prósentustig frá 2019 og er langt undir landsmeðaltali. Notkun tóbaks virðist engin í 8. bekk og sömuleiðis mjög lágt hlutfall nemenda þar sem notað hafa áfengi. 9. bekkur kemur því miður ekki eins vel út þar sem bæði mælast hærri tölur tóbaks- og áfengisnotkunar en á landsvísu í flestum tilvikum. Það skal þó áréttað að þrátt fyrir allt er það mjög lágt hlutfall nemenda sem notar áfengi og/eða tóbak (á bilinu 1-10%) sem þýðir að yfir 90% ungmenna eru ekki að nota þessi efni.

Neysla kannabis hefur aukist alls staðar á landinu og mælist meiri milli ára, einnig í Vestmannaeyjum en er þó þrisvar sinnum sjaldgæfari í Eyjum en á landsvísu (2% miðað við 6,4% á landinu öllu).

Spurt var sérstaklega í 10. bekk um notkun harðari vímuefna og þar kemur í ljós að mjög fá ungmenni hafa prófað sterkari efni (t.d. amfetamín, e-töflu, kókaín og sveppi) eða rétt um 2%. Þessi neysla hefur þó aukist og mælist yfir landsmeðaltali árgangsins. Neysla á landa/heimabruggi mælist undir meðaltali á landsvísu en hefur þó aukist í Eyjum. Enginn virðist sniffa í Vestmannaeyjum.

Afstaða foreldra, reglur, samvera og samskipti með foreldrum

Foreldrar setja oftast reglur en fylgja þeim ekki nægilega eftir. Samvera með foreldrum mætti vera meiri.

Þegar spurt er um upplifun ungmenna í 10. bekk á því hver afstaða foreldra þeirra er til vímuefnanotkunar kemur fram að langflestir foreldrar virðast taka einarða afstöðu gegn notkun slíkra efna og afstaða foreldra gagnvart notkun áfengis og maríjúana er, ef eitthvað er, afdráttarlausari hér en á landsvísu. Hins vegar kemur fram að um einn af hverjum tuttugu nemendum í 10. bekk segir að foreldrum sínum sé sama um rafrettunotkun en 2% þeirra telja að foreldrum þeirra sé sama um sígarettureykingar. Það er mjög mikilvægt að ungmenni upplifi að foreldrar séu mótfallnir því að börn þeirra noti slík efni því það hefur áhrif á þær ákvarðanir sem ungmenni taka sjálf um neysluhegðun sína.

Samvera ungmenna með foreldrum er sömuleiðis mikilvæg. Því miður benda niðurstöður til þess að bæði drengir og stúlkur séu minna með foreldrum sínum en ungmenni annars staðar á landinu; bæði virka daga og um helgar. Undantekningin er drengir í 10. bekk sem virðast vera meira með foreldrum sínum um helgar, bæði miðað við mælingu árið 2018 og einnig miðað við landsvísu.

Það dýrmætasta sem hægt er að gefa börnunum sínum er tími. Innihaldsrík samvera og örugg tengslamyndun hefur gríðarmikið forvarnar- og forspárgildi. Frjálsræði kann að vera meira í Eyjum en annars staðar á landinu en forvarnargildið er eitt og hið sama. Foreldrar eru lykilaðilar í mótun og á það ekki síður við um unglingsaldur en yngri börn. Í samveru skapast kjörlendi fyrir tengslamyndun, hlustun og leiðsögn.

Þessu tengt, þá er áberandi hátt hlutfall ungmenna (úr öllum árgöngunum) sem segjast hafa verið úti eftir miðnætti, einu sinni eða oftar undanfarna 7 daga (talsvert hærra hlutfall en ungmenni á landsvísu). Í þessu sambandi ber að árétta útivistarreglur en öll ungmenni í 8. og 9. bekk eiga að vera komin heim til sín kl. 22 á kvöldin á veturna samkvæmt barnaverndarlögum og eðlilegt að foreldrar fylgi þeim reglum eftir og setji jafnframt reglur gagnvart ungmennum í 10. bekk sem eiga að mæta í skóla daginn eftir.

Þegar ungmennin eru spurð hvernig þau upplifa það hvort og hvernig foreldrar setji þeim reglur og fylgist með þeim er áberandi að krakkanir í Vestmannaeyjum segja foreldra sína þekkja vini þeirra og setja þeim útivistarreglur en þau virðast fylgjast að öðru leyti minna með því hvað unglingarnir eru að gera en foreldrar á landsvísu. Með öðrum orðum; þá virðast vera settar reglur en ekki alltaf fylgt eftir (dæmi úr 8. bekk; 82% segja foreldrana setja ákveðnar reglur um hvenær þau eigi að vera komin heim á kvöldin en einungis 39% setja ákveðnar reglur um hvað þau megi gera utan heimilis og 56-59% fylgjast með því hvað þau eru að gera á kvöldin og með hverjum).

Vinna, tómstundir og netnotkun

Nokkuð brottfall úr tómstundum og íþróttum. Drengirnir eru oftar í tölvuleikjum en stúlkur á samfélagsmiðlum.

 

Vinna með skóla er ekki mikil nema hjá 10. bekkingum sem vinna áberandi meira en ungmenni á sama aldri á landsvísu.

Stelpur eru mun minna í tölvuleikjum en strákar en þær eru á hinn bóginn meira á samfélagsmiðlunum. Þetta á sérstaklega við um mikla notkun (4 klst. eða meira á dag), sem á við um 40% stúlkna og 8% drengja á samfélagsmiðlum en 18% drengja og 2% stúlkna eru meira en 4 klst. á dag í tölvuleikjum. Meirihluti beggja kynja segist hins vegar verja minna en 3 klst á dag í tölvuleiki og samfélagsmiðla.

Heilt yfir stunda hlutfallslega fleiri drengir skipulagt tómstundastarf vikulega eða oftar í Eyjum en á landinu. Brottfall er hlutfallslega lítið milli ára en mest meðal drengja í 9. bekk. Í 8. bekk eru hlutfallslega mun færri stúlkur virkar í skipulögðu tómstundastarfi miðað við landið allt (21% miðað við 49%). Töluvert brottfall virðist meðal stúlkna í 9. bekk (féll úr 63% í 25%).

Í skipulagðri íþróttaiðkun sjáum við brottfall hjá báðum kynjum í öllum árgöngum. Nokkuð hátt hlutfall æfir og keppir með íþróttafélagi (56-63%) þó hlutfallslega fæstir í 9. bekk. Jákvætt er að sjá að allir í 8.bekk stunda líkamsrækt í hverri viku en u.þ.b. einn af hverjum tíu í 9. og 10.bekk segist nær aldrei stunda líkamsrækt.

Fram kemur tiltölulega lítil virkni meðal unglinganna í félagsmiðstöðinni. Hlutfallslega eru mjög fáir sem stunda hópa –eða klúbbastarf en er þó algengast meðal drengja í 8. bekk (þar nýta 1 af hverjum 4 starfið í Féló einu sinni í mánuði eða oftar).

Nám, skóli og samfélag

Flestir upplifa góða líðan í skóla og samfélagi

 

Líðan nemenda í skólanum er almennt mjög góð og afstaða til náms jákvæð. Vanlíðan í skólanum er algengust meðal 9.bekkinga. Eftirtekt vekur að 2 af hverjum 10 finnst námið tilgangslaust sem er rúmlega tvöfalt fleiri en í 8. og 10. bekk.

Hlutfallslega telja mjög fáir að námsörðugleikar hafi mikil áhrif á námsframmistöðu þeirra (0-4%). Kynjahlutfall er tiltölulega jafnt og afstaða sambærileg unglingum annars staðar í landinu.

Langflestum virðist þykja gott að búa í sínu sveitarfélagi (87% í Vestmannaeyjum, 91% á landsvísu). Um það bil 9 af hverjum 10 unglingum hér finnst félagslíf gott í bænum sem er sambærilegt við hlutfallið á landsvísu og í raun ívið hærra en annars staðar.

Geðheilsa, neteinelti, svefnvenjur og hvíld

Of margir unglingar fá ekki nægilegan svefn. Andleg vanlíðan of algeng.

 

Sjálfsmynd unglinga í Vestmannaeyjum er sambærileg jafnöldrum á Íslandi. Fram kemur í svörum að um helmingur nemenda telur sig geta litið björtum augum til framtíðar, telja sig hafa gert gagn, verið afslöppuð eða gengið vel að takast á við vandamál. Þarna væri gott að sjá hærra hlutfall. Um helmingur telur sig geta hugsað skýrt, átt auðvelt með að gera upp hug sinn en meirihluti upplifir sig náinn einhverjum öðrum (66%).

Vanlíðan virðist almennt hafa aukist. Svefnerfiðleikar og depurðareinkenni hafa aukist og 12-15% unglinga telja sig vera einmana. Þá hefur vonleysistilfinning aukist meðal stúlkna.

Þegar spurt er um neteinelti eða hvort svarendur hafi sent öðrum eða fengið send andstyggileg skilaboð gegnum netið á þessu ári koma fram sambærileg svör milli Eyja og landsins í heild. Um það bil 1-2 af hverjum 10 hafa sent öðrum andstyggileg skilaboð einu sinni eða oftar en 2-3 af hverjum 10 hafa fengið send slík skilaboð einu sinni eða oftar.

Fram kemur nokkuð jafnt kynjahlutfall yfir hvað unglingar telja sig úthvílda á virkum dögum. Þegar spurt er hvort nemendur sofi 8 klukkustundir eða lengur á sólarhring á virkum dögum kemur fram í svörum að 70% 8.bekkinga nær þessu viðmiði, 36% 9.bekkinga og 57% 10.bekkinga. Þegar litið er til hlutfalls sem sefur of lítið er hlutfallið hæst í 9. bekk. Þeir sem sofa 6 klukkustundir eða minna á sólarhring eru 12% 8.bekkinga, 25% 9.bekkinga og 18% 10.bekkinga. Það verður að teljast áhyggjuefni að 2-3 af hverjum 10 í 9.bekk séu að sofa illa eða vaka of lengi. Áhyggjuefni er einnig að unglingarnir upplifa sjálfir að þeir fái sjaldan eða aldrei nægan svefn eða allt að 33% stúlkna og 23% drengja. Þessir erfiðleikar með svefn eru mjög líklega beintengdir við andlega vanlíðan allt að helming unglinga eins og fram kemur hér að framan og brýnt að skoða þennan þátt betur.

Samantekt

Niðurstöður gefa okkur góða ástæðu til að vera bjartsýn og eru einnig markviss leiðarvísir fyrir endurskoðun forvarnaráætlunar. Áherslurnar þurfa að byggja á þekkingu og áhættuþættirnir eru vel þekktir en rödd ungmenna, og þeirra vitnisburður í þessari könnun, er mikilvæg viðbót. Við sjáum marga ljósa punkta í þessum niðurstöðum og mannauðurinn sem við eigum í unga fólkinu okkar blasir við. En betur má ef duga skal. Markmið forvarnarstarfs miðast við þetta og er tvíþætt. Í fyrsta lagi að draga úr áhættuhegðun með því að skapa góðan grundvöll fyrir heilsuhegðun nemenda. Að leita leiða, með góðri samstöðu heimilis, skóla og nærsamfélags til að styrkja sjálfsmynd þeirra, tryggja einstaklingsmiðaðan námsstuðning og greiðan aðgang að úrræðum, stuðla að velferð þar sem nægur svefn, félagsleg virkni, samvera fjölskyldna og ekki síst vökult auga og aðhald foreldra eru m.a. í forgrunni. Og í öðru lagi að styrkja í sessi verndandi þætti sem við sjáum í svo ríkum mæli meðal ungmenna í Vestmannaeyjum.

Áhugavert væri að fá umræðu og athugasemdir um þessar niðurstöður; frá foreldrum og öðrum sem koma að starfi með börnum og ungmennum; að ógleymdum ungmennunum sjálfum. Forvarnir koma okkur öllum við og við þurfum öll að vinna saman að þeim markmiðum sem við teljum mikilvæg.

Guðrún Jónsdóttir yfirfélagsráðgjafi

Ragnheiður Sæmundsdóttir sálfræðingur