Umsóknir vegna úthlutunar byggðakvóta
Auglýsing um umsóknir vegna úthlutunar byggðakvóta.
Sjávarútvegsráðuneytið hefur með auglýsingu frá 1. desember 2003, staðfest eftirfarandi reglur um úthlutun Vestmannaeyjabæjar á kvóta til stuðnings sjávarbyggðum.
Sjávarútvegsráðuneytið hefur samþykkt að 29,0 þorskígildistonn komi í hlut Vestmannaeyjabæjar af þeim 1.500 tonnum sem ætlaðar eru til stuðnings sjávarbyggðum, sbr. reglugerð nr. 596, 8. ágúst 2003.
1. Útgerðir sem uppfylla eftirfarandi skilyrði eiga kost á byggðakvóta sæki þær um:
a) Að bátar þeirra séu skráðir í Vestmannaeyjum.
b) Að þær hafi lögheimili í Vestmannaeyjum.
c) Að þær leggi fram tvö kíló af eigin aflaheimildum fyrir hvert kíló sem þeim er úthlutað af byggðakvóta Vestmannaeyjabæjar.
d) Að þær landi aflanum í Vestmannaeyjum
e) Að þær leggi fram skriflegt samkomulag við fiskvinnslur í Vestmannaeyjum um vinnslu þeirra aflaheimilda sem þeim verður úthlutað skv. þessum reglum og afla skv. c. lið.
2. Byggðakvóta skal skipt milli fiskiskipa í hlutfalli við landaðan afla þeirra í Vestmannaeyjum á síðasta fiskveiðiári.
3. Útgerðum er óheimilt að famselja aflaheimildir sem úthlutað er á grundvelli þessara reglna. Framselji útgerðir aflaheimildir á yfirstandandi ári skulu þær afsala sér sambærilegu magni af byggðakvótanum sem þá verður úthlutað að nýju.
4. Útgerðir skulu í einu og öllu fara að þeim skilyrðum sem hér koma fram, þar á meðal skulu forráðamenn þeirra skrifa undir samkomulag við Vestmannaeyjabæ um að þær afsali sér aflaheimildum fari þær eða geti þær ekki farið að þeim reglum sem um úthlutun byggðakvótans gilda. Þá fyrirgera útgerðir sem ekki fara að skilyrðum reglnanna rétti sínum til hugsanlegrar úthlutunar á næsta ári, að óbreyttum reglum.
Vestmannaeyjabær auglýsir hér með eftir umsóknum vegna úthlutunar byggðakvótans að uppfylltum ofangreindum skilyrðum. Þeim aðilum sem hyggjast sækja um er bent á að senda umsóknir auk fylgigagna til stjórnsýslu- og fjármálasviðs Vestmannaeyjabæjar.
Umsóknarfrestur er til 28. janúar 2004.
Viktor S. Pálsson,framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs Vestmannaeyjabæjar.