Tyrkjaránsganga - gjörningur í Dalabúi.
Ragnar Óskarsson sagnfræðingur verður leiðsögumaður göngunnar. Göngukort í Upplýsingamiðstöðinni Strandveg.
Á laugardaginn 16. júlí nk. eru 378 ár frá því að Tyrkjaránið átti sér stað og verður gengið á alla helstu sögustaðina. Gangan hefst frá bílastæðinu í Brimurð kl. 13.00. Seinna um daginn munu Þórður Svansson og félagar frumsýna gjörningin "Ópið" í endurbættum sal Dalabúsins. Aðgangseyri er 500 á gjörninginn. Fræðslu-og menningarsvið vill minna fólk á göngukort sem komið er út og er fáanlegt í Upplýsingamiðstöðinni fyrir ferðamenn. Hvetjum alla til að taka þátt í göngunni.
Hér fyrir neðan eru textar og upplýsingar um nokkra staði sem tengjast Tyrkjaráninu:
Sængurkonusteinn: Til er sögn í Eyjum sem greinir frá því þegar tveir sjóræningjar eltu uppi þungaða konu sem rétt var komin að því að ala barn. Reyndi konan að fela sig við Sængurkonustein en mennirnir fundu hana þar í þann mund er hún varð léttari. Annar ræningjanna vildi drepa bæði barnið og móður þess en hinn ræninginn vildi það ekki. Fékk hann því ráðið að bæði fengu líf og skar hann hluta af skikkju sinni til að vefja utan um barnið.
Hér skammt frá er Helgafell en minnugir Tyrkjaránsins höfðu Vestmannaeyingar í áraraðir varðstöðu frá vori og fram á haust til að fylgjast með skipakomum. Um miðja 19. öld var slík varðstaða tekin upp að nýju en þá í tengslum við herfylkingu sem kaptein Kohl stofnaði.
Við styttu Tyrkja-Guddu: Guðrún Símonardóttir bjó ásamt manni sínum, Eyjólfi Sölmundarsyni, í Stakagerði. Hún var tekin höndum og seld í þrældóm í Algeirsborg ásamt ungum syni sínum, Sölmundi. Eftir tíu ára veru í Barbaríinu var hún keypt laus ásamt fleiri Íslendingum og komst til Kaupmannahafnar. Sölmundur sonur hennar fékkst ekki keyptur og varð eftir í Afríku. Hallgrímur Pétursson sálmaskáld var þá lærlingur í Danmörku og var hann fenginn til að hressa upp á kristindóminn hjá Íslendingum sem höfðu verið lengi á erlendri grund. Felldu þau Hallgrímur og Guðríður hugi saman, eftir komuna til Íslands giftust þau 1638. Fyrsta barn þeirra, sonur, var skírður Eyjólfur eftir fyrri manni Guðríðar en hann drukknaði 1636. Tyrkja-Gudda og Hallgrímur bjuggu aldrei í Eyjum, lengst af bjuggu þau í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd..
Skansinn: Virki mun hafa verið hér snemma á 15. öld. Skansinn var hlaðinn úr grjóti og torfi og í Tyrkjaráninu 1627 var fallbyssa þar til varna. Sjóræningjarnir höfðu vitneskju um þetta og fóru því ekki inn á höfnina heldur héldu þeir suður með Heimaey og tóku land á Ræningjatanga. Innan virkisveggjanna stóðu Dönskuhúsin, hús kaupmanna og yfirvalda staðarins. Þarna var Eyjamönnum safnað saman og haldið föngnum þar til þeir voru fluttir á skip. Þeir sem ekki þóttu nógu burðugir til að fara sjóferðina löngu til Algeirsborgar voru brenndir inni í húsunum.
Alls voru 242 Vestmannaeyingar seldir í ánauð og 36 voru drepnir sumarið 1627.
Ofanleiti: Tvö prestaköll hafa jafnan verið í Vestmannaeyjum. Fyrr á tímum var annað prestsetrið að Kirkjubæ en Kirkjubæirnir fóru undir hraun í eldgosinu 1973. Hitt prestsetrið var að Ofanleiti. Var séra Ólafur Egilsson prestur hér er sjóræningjarnir gengu á land. Einn flokkur ræningjanna fór að Ofanleiti og bæjunum þar í kring. Séra Ólafur var tekinn höndum ásamt konu sinni, Ástríði Þorsteinsdóttur, sem þá var þunguð. Ól hún son á leiðinni til Algeirsborgar. Skömmu eftir að allir Íslendingarnir höfðu verið seldir á þrælamarkaði var séra Ólafur sendur á fund Kristjáns IV danakonungs til að leita eftir lausnargjaldi fyrir hópinn. Erfiðlega gékk að safna saman einhverju fé og aðeins 27 íslendingar sneru til baka vorið 1637.
Ræningjatangi: Sumarið 1627 herjaði flokkur sjóræningja á Ísland, þeir náðu nokkrum Íslendingum í Grindavík og héldu síðan til Austfjarða. Þaðan sneru þeir aftur suður fyrir land og 16. júlí komu þrjú sjóræningjaskip til Eyja. Þar sem innsigling hafnarinnar var nokkuð vel varin þá sigldu þau suður með Heimaey og settu að lokum flokk manna upp á tangann sem seinna fékk nafnið Ræningjatangi. Lauritz Bagge kaupmaður hafði fylgt skipunum eftir ríðandi á hesti sínum. Hleypti hann af byssu sinni þegar hann sá ræningjaflokkinn ganga á land en viðbrögðin voru aðeins köll og hróp frá flokknum. Sneri kaupmaður þá aftur til kaupstaðarins og flúði á konungsskipi til meginlandsins. Ræningjarnir komu siglandi frá Algeirsborg sem er í Alsír í Afríku. Á þessum tíma var Alsír innan ríkis tyrkneska soldánsins og því er jafnan talað um Tyrkjaránið.
Lyngfellisdalur: Eftir uppgöngu sjóræningjanna á skipuðu ræningjarnir sér í þrjá flokka, hélt einn þeirra vestur að Ofanleiti og bæjunum þar í kring. Annar flokkur fór austur fyrir Helgafell að Kirkjubæjarjörðunum en þriðji og jafnframt stærsti hópurinn fór rakleiðis niður að húsaþyrpingunni sem stóð niður við höfn og tók fólk úr bæjunum á leiðinni. Fólk flúði sem best það gat undan ræningjunum og þá helst í hella og skúta eða í snarbrött björgin þar sem það átti síður von á að ræningjarnir næðu þeim. Meðal annars kleif fjöldi manns Fiskhellana og faldist í fiskbyrgjum sem þar höfðu verið hlaðin til að þurrka fisk.