Tyrkjaránið, séð með augum barnanna á Rauðudeild á Kirkjugerði.
Skólahópur, guli hópur og græni fluttu dagskrá fyrir skólafélaga, kennara og gesti undir stjórn Guðrúnar S. Þorsteinsdóttur, nema í KHÍ, sem beytir svonefndri könnunaraðferð til eflingar færni til náms.
Hópur barna og starfsmanna í Leikskólanum Kirkjugerði hafa verið að læra um Tyrkjaránið skv. könnunaraðferðinni. Þessi vinna hefur verið undir stjórn Guðrúnar S Þorsteinsdóttur, nema í leikskólafræðum við KHÍ, sem hefur verið í verknámi á Kirkjugerði undanfarið.
Afrakstur vinnunnar var sýndur í máli og myndum í leikskólanum föstudaginn 8.apríl. Þar lásu kynntu börnin m.a. ljóð sem þau höfðu lært og fluttu fyrir gesti sína. Skólahópur flutti eftirfarandi ljóð, sem Sölmundur flutti fyrir húsmóður sína, sem hann og móðir hans voru hjá í Algeirsborg.
Þá Jesús til Jesúsalem
Á einum asna ríður heim,
Með og mót honum fólkið fer
Fram á leið klæði og blóma ber.
Guli hópur flutti kvæði sem Tyrkja-Gudda raulaði fyrir son sinn, hann Sölmund, nokkrum árum eftir að búið var að ræna þeim. Þetta var í Algeirsborg og er ljóðið svona:
Guð blessi börnin,
bæði ung og smá,
veri þeim vörnin,
voðanum frá.
Sæl eru þau þá
þegar þau fá sinn guð að sjá
heilaga engla horfa uppá
og með þeim syngja gloríá.
Að lokum flutti græni hópur eftirfarandi sem er úr Reiskubók Guðríðar Símonardóttur.
Ég var gefin og ég var seld
- á meðan það var,
einum ríkum riddara á vald
- og það fór þar,
þá hlaut ég minn harm að bera í leyndum stað.
Að loknum upplestri var gestum boðið að skoða sýningu þeirra, en þar gaf að líta teikningar, færibandamálverk, ljósmyndir, landakort þar sem þau voru búin að merkja inn á með myndum ofl. alla sögulega staði varðandi Tyrkjaránið.
Svokölluð könnunaraðferð gengur út á að efla færni til náms. Börnin rannsaka viðfangsefni sem vekja áhuga þeirra, leysa vandamál og afla þekkingar. Börnin eru ekki mötuð af upplýsingum, heldur stjórna þau ferðinni en kennarinn er því til aðstoðar og stuðnings. Hún byggist á hópastarfi og eykur þar með samvinnu barnanna og styrkir þau í félagslegum samskiptum.
Fyrir hönd fræðslu- og menningarsviðs þakkar framkvæmdastjóri fræðslu og menningarsviðs og leikskólafulltrúi fyrir frábæra skemmtun og fræðslu.
Guðrún H. Bjarnadóttir. Andrés Sigurvinsson.
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyja.