Tvö höfuð eru betri en eitt ef þau eru ósammála,þá skapast frjórri umræða!
Innlegg í umræðuna um leikskólamál Vestmannaeyjabæjar
Á undanförnum árum hefur mönnum verið tíðrætt um byggingu nýs leikskóla og hina brýnu þörf sem er á aðgerðum. Fram að þessu hef ég lítið lagt til málanna þar sem ég hef ekki talið mig vera dómbæra á það hvar og hvernig slíkur skóli eigi að vera og hver sé besti kosturinn. Það eina sem ég veit er, að nýr leikskóli verður að rísa hið fyrsta. Mér hefur fundist umræðan vera frekar einhliða og langar þess vegna að leggja nokkur orð í belg.
En hvers vegna er verið að deila um þennan óbyggða leikskóla? Ég hef hlustað mjög grannt eftir rökum sem menn setja fram um stóran og lítinn skóla og satt að segja virðist mér þau frekar vera studd af tilfinningalegum þáttum fremur en faglegum, félagslegum og fjárhagslegum. Hvað er svona hræðilegt við 6 deilda leikskóla? Fjárhagslega virðist bygging 6 deilda skóla vera besti kosturinn fyrir utan það að rekstur er talinn mun hagkvæmari en þegar um minni einingar er að ræða.
Þá eru það faglegu og félagslegu rökin. Eru virkilega engin fagleg og félagsleg rök fyrir því að byggja skóla af stærri gerðinni? Mat mitt er að slík rök séu fyrir hendi.
Í Vestmannaeyjabæ eru þrír leikskólar. Þeir starfa eftir þremur ólíkum stefnum sem allar stefna að sömu markmiðum þó áherslurnar og vinnubrögðin séu ólík. Umhverfismennt, einstaklingsmiðað nám, jafnrétti kynjanna, prúðmennska og góð framkoma eru þættir sem ég tel að eigi að vera áhersluþættir á öllum leikskólum.
Ég hef mikla trú á skólastjórnendum leikskólanna þriggja sem hér starfa. Þeir hafa til að bera áhuga, fagmennsku og samstarfsvilja sem við, hér á fræðsluskrifstofunni, höfum oft dáðst að. Þeir hafa unnið ótrúlega gott starf og foreldrar eru ánægðir með það sem þeir og starfsmenn þeirra eru að gera. Það má þó ekki koma í veg fyrir að einhver sameining geti farið fram ef það er talið mikilvægt fyrir áframhaldandi þróun leikskólamála og hugsanlega betri og hagkvæmari kost. Ég er alveg handviss um að leikskólastjórarnir okkar, ásamt öðru ágætu starfsfólki leikskólanna, gætu skapað hér samstarfsgrundvöll um grunnstefnu fyrir leikskólana ef þeim væri falið slíkt verkefni. Markmiðin hljóta að vera að vel sé búið að börnunum, að þeim líði vel og að kennslan sé öflug og fagleg. Tryggð við leikskólastefnur ætti ekki að hafa forgang.
Fram að þessu hefur verið skortur á menntuðum leikskólakennurum í Vestmannaeyjum og starfið því oft byggst á ófaglærðu fólki sem svo sannarlega hefur sinnt störfum sínum af kostgæfni, ekki dreg ég úr því.
Samt sem áður hljótum við að geta gert mun meiri kröfur til menntaðra kennara um góða stjórnun og faglegt starf en til þeirra sem eru ekki faglærðir. Ég tel að því fleiri menntaðir starfsmenn sem vinna í sama skóla því öflugra verði skólastarfið. Á stærri leikskóla má því búast við fleiri menntuðum starfskröftum sem geta leitt faglegt starf og stutt hvern annan í að gera skólann að öflugri og vel skipulagðri menntastofnun. Ég tel að jafnvel þó að tveir skólar eða tvær stefnur væru undir sama þaki væri mikill akkur í því að hafa leikskólakennarana úr báðum skólunum/stefnunum ?bak í bak" þar sem dagleg persónuleg samskipti ættu sér stað og öflug fagleg, gagnrýnin umræða færi fram á hverjum degi.
Ef hægt er að spara miklar fjárhæðir með því að vera með einn stóran leikskóla tel ég að við eigum ekki að hugsa okkur tvisvar um því þá höfum við væntanlega úr meiru að moða til að geta gert starfið betra, faglegra og öflugra en verið hefur. Ég tel til dæmis að við eigum að styðja kennara til að sérhæfa sig á ýmsum sviðum. Þannig gætum við verið með sérhæfða leikskólakennara sem veita kennslufræðilega ráðgjöf til starfsfélaga sinna, fremur en að allir séu minisérfræðingar í hinum ólíku málum í hverjum skóla fyrir sig. Dæmi um slíka sérhæfingu er til dæmis einhverfa, málþroskavandi, lestrarkennsla o.fl.
Í stórum leikskóla er hægt að gera hagkvæmari innkaup og nýta betur sameiginleg svæði, áhöld og gögn. Fjöldi starfsmanna er meiri og því ætti að vera auðveldara að manna forföll, hliðra til og færa á milli deilda eftir hentugleikum. Slíkt gæti boðið upp á meiri stöðugleika og öryggi í kring um börnin að mínu mati.
Ef litið er til félagslegra þátta þegar horft er til 6 deilda leikskóla má til dæmis nefna þann möguleika að bjóða yngstu börnunum leikskólapláss strax að loknu fæðingarorlofi foreldra. Hugsanlega gæti öflugt skólakerfi og góður aðgangur að leikskólaplássum verið hvatning fyrir ungt, hugmyndaríkt fólk til að setjast að í Eyjum hvort sem er til að stunda nám eða störf. Því segi ég, ?Stór leikskóli býður upp á fleiri pláss". Með því móti getum við tekið á móti ungum foreldrum opnum örmum.
Eins og fram hefur komið býður stór leikskóli upp á fjárhagslegan sparnað. Ég hef rætt við marga Vestmannaeyinga sem ekki eiga börn á leikskólaaldri eða eru starfsmenn leikskólanna og því ekki tekið þátt í opinberri umræðu um málið. Mjög margir þeirra segja að hagkvæmni skipti máli. Fólk vill að það sé farið vel með sameiginlega sjóði bæjarbúa um leið og búið sé vel að börnunum. Börnunum sem síðan eiga að greiða skuldirnar sem okkar kynslóð skilur eftir sig.
Erna Jóhannesdóttir fræðslufulltrúi og kennsluráðgjafi Vestmannaeyjabæjar.