Tónlist fyrir alla - "Syngjandi skóli"
Sungu fyrir báða grunnskólana þann 11. apríl sl.
Dagskráin "Syngjandi skóli" er samstarfsverkefni Tónlistar fyrir alla og Tónmenntakennarafélags Íslands. Fræðsluyfivöld hafa styrkt verkefnið síðustu árin. Margir þekktir listamenn hafa tekið þátt í þessu verkefni í gegn um tíðina þ.á.m. Egill Ólafsson, tónlistarmaður.
Þeir félagar Magnús Kjartansson, hljómborðsleikari, Jón Rafnsson bassaleikari og Jóhann Hjörleifsson trommuleikari önnuðust flutning tónlistar að þessu sinni.
Tilgangur verkefnisins er að auka sönggleði hjá börnum og stuðla um leið að því að nemendur á grunnskólaaldri læri fleiri íslensk lög.
Dagskráin er óvenjuleg að því leyti að á hverjum tónleikum eru nemendur frá 1. upp í 10. bekk saman og beinist kastljósið hér nær einvörðungu að nemendum sjálfum.
Hópunum er skipt í yngri og eldri deildir og hefur hvor þeirra undirbúið 3 - 4 ólík lög. Yngri börnin byrja tónleikana á því syngja þjú lög fyrir þau eldri en síðan verður skipt um hlutverk og eldri nemendur syngja þá fjögur lög fyrir þau yngri. Allt fer þetta fram undir styrkri stjórn og við undirleik fyrrnendra félaga. .
Á listanum er m.a. að finna vinsæl popplög fyrir eldri nemendur og þekkt og hressileg barnalög fyrir þau yngri í bland við þjóðlög og ættjarðarlög. Lögin hafa verið valin sérstaklega með það fyrir augum að höfða til barna og unglinga en ítarlegt undirbúningsefni ásamt geisladiski með undirleik er sent í skólana áður en listamennirnir mæta til leiks.
Við þökkum þeim kærlega komuna.
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyja