Tilkynning frá Aðgerðastjórn í Vestmannaeyjum
5. febrúar 2025
Aðgerðastjórn í Vestmannaeyjum hefur verið virkjuð vegna óveðurs sem nú gengur yfir, en Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórana á landinu, þ.m.t. í Vestmannaeyjum, hefur lýst yfir hættustigi Almannavarna vegna veðurs sem spáð er næsta sólarhringinn og gildir þar til veður gengur niður á morgun, fimmtudaginn 6. febrúar.
Veðurstofa Íslands hefur gefið út rauða viðvörun fyrir Suðurlandið en spár gera ráð fyrir sunnan 28-33 m/s og hviður staðbundið yfir 45 m/s. Talsverð rigning á köflum. Foktjón mjög líklegt og það getur verið hættulegt að vera á ferð utandyra. Ekkert ferðaveður.
Rauð viðvörun Veðurstofunnar gildir miðvikudaginn 5. febrúar frá klukkan 16:00 til 20:00 og fimmtudaginn 6. febrúar frá klukkan 08:00 til 13:00. Annars er appelsínugul viðvörun í gildi þessa daga.
