20. desember 2004

Til hamingju íslenskir unglingar og foreldrar!

Kynning á skýrslu Evrópuráðsins um vímuefnaneyslu evrópskra skólanema 14. desember, var kynnt samtímis í 35 Evrópulöndum skýrsla Evrópuráðsins um vímuefnaneyslu 15-16 ára unglinga - s.k. ESPAD skýrsla. Margt fróðlegt
Kynning á skýrslu Evrópuráðsins um vímuefnaneyslu evrópskra skólanema

14. desember, var kynnt samtímis í 35 Evrópulöndum skýrsla Evrópuráðsins um vímuefnaneyslu 15-16 ára unglinga - s.k. ESPAD skýrsla. Margt fróðlegt kemur þar fram en umtalsverðar breytingar hafa orðið á vímuefnaneyslu unglinga í Evrópu síðastliðin átta ár - og niðurstöðurnar sýna að íslenskir unglingar standa sig þar vel þegar á heildina er litið.

Það þótti við hæfi að kynna niðurstöðurnar í Hinu húsinu, menningar og upplýsingamiðstöð ungs fólks í Reykjavík. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra flutti ávarp í upphafi fundar en að því loknu kynnti Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, helstu niðurstöður skýrslunnar (tengill í kynninguna hér að neðan). Þóroddur er formaður rannsóknarteymisins á Íslandi en í því eru auk hans: Inga Dóra Sigfúsdóttir, Stefán Hrafn Jónsson og Þórólfur Þórlindsson.
Þórólfur Þórlindsson, prófessor við Háskóla Íslands, talaði því næst um forvarnastarf síðustu ára í ljósi rannsóknarinnar en Þórólfur er jafnframt fráfarandi formaður áfengis- og vímuvarnaráðs. Anna Elísabet Ólafsfdóttir, forstjóri Lýðheilsustöðvar, var fundarstjóri í lok kynninga bauð hún fundarmönnum að spyrja frummælendur, auk þess sem Hildur Hafstein verkefnisstjóri hjá Lýðheilsustöð bættist í hópinn. Hildur hefur um árabil unnið að forvarnastörfum á sviði áfengis og vímuefna.

Í máli Þórodds kom m.a. fram að þegar á heildina eru íslensku ungmennin að standa sig vel. T.d. þegar íslenskir unglingar eru spurðir um áfengisneyslu sl. 40 daga þá svara einungis 14% játandi á móti t.d. 50% í Danmörku. Sömu sögu er að segja um reykingar; þar svara fáir unglingar því játandi að hafa reykt á s.l. 40 dögum. Þegar spurt er um þá sem farið hafa á fyllerí - þ.e. drukkið 5 drykki eða fleiri í einni lotu - þá eru íslensku unglingarnir í lægri kantinum, eða 11% að meðaltali. Írskir unglingar eru þar t.d. þrefalt hærri. Breytingarnar þarna eru því allar í jákvæða átt - og því segjum við: Til hamingju íslenskir unglingar og foreldrar!

Ólögleg vímuefni - þurfum að vera á varðbergi gagnvart sniffi

En niðurstöðurnar sýna ekki eingöngu jákvæða þróun. Neysla ólöglegra vímuefna er tiltölulega lág á Íslandi en er ekki lægst í þátttökulöndunum. Spurt var um neyslu margs konar efna og í ljós kom að aðallega er um neyslu hass að ræða. S.l. áratugi hefur tala hassneytenda í þessum hópi verið 4%.  Niðurstöðurnar benda til þess að talsvert hass sé í umferð á Íslandi sem 15-16 ára unglingar geta nálgast tiltölulega auðveldlega. Þetta er áhyggjuefni og enn meira áhyggjuefni er að sniff er að aukast jafnt og þétt hér á landi og talan er 12%. Sniff virðist ganga hér í bylgjum. Umfjöllun um afleiðingar slíkrar neyslu í fjölmiðlum, og önnur umræða og fræðsla, á sinn þátt í að hræða ungt fólk frá sniffi en þegar hún er gleymd er eins og sniffið byrji á nýjan leik. Ljóst er því að þarna þarf að bregðast við enda sagði þóroddur að nú yrði farið að vinna úr gögnunum og nýta niðurstöðurnar.

Þórólfur Þórlindsson ítrekaði að niðurstöðurnar sýndu að íslenskir unglingar væru yfirleitt að standa sig frábærlega vel.

Skoða samantekt skýrslunnar á ensku

Skoða dreifiskjal um niðurstöður skýrslunnar.

Skoða samantekt Þórólfs Þórlindssonar

Af vef menntamálaráðuneytisins

Fræðslu og menningarsvið Vestmannaeyja.


Jafnlaunavottun Learncove