Þjóð gegn þunglyndi
-veist þú hvert þú átt að leita? Föstudaginn 22. október sl. var haldið námskeið í Höllinni í Vestmannaeyjum um þunglyndi og sjálfsvíg.
Námskeið þetta var hluti af fræðslu- og forvarnarverkefninu Þjóð gegn þunglyndi sem er samstarfsverkefni á vegum Landlæknisembættis og var námskeiðið í boði Landlæknis og Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum. Til námskeiðsins var boðið fagfólki frá Félags- og fjölskyldusviði, Fræðslu- og menningarsviði, Heilbrigðisstofnuninni, Landakirkju og Sýslumannsembættinu. Meginmarkmið verkefnisins, Þjóð gegn þunglyndi er að draga úr þjáningum vegna þunglyndis og draga úr öðrum beinum og óbeinum afleiðingum þunglyndis, þ.m.t. ótímabærum dauðsföllum.
Fyrirlesarar voru Salbjörg Bjarnadóttir geðhjúkrunarfræðingur, Sigurður P. Pálsson geðlæknir og Þorgeir Magnússon sálfræðingur.
Farið var yfir þunglyndi og sjálfsvíg í sögulegu samhengi, fjallað um greiningu og meðferð á þunglyndi, sérstök umfjöllun um sjálfsvígsatferli og tíðni sjálfsvíga. Auk fyrirlestra var unnið í hópum.
Námskeið sem þetta er vítamínssprauta fyrir fagfólk í Vestmannaeyjum og sannar enn á ný nauðsynina á að ólíkir fagaðilar vinni saman að erfiðum málum og málaflokkum.
Mörg athyglisverð atriði komu fram og má þar nefna eftirtalda tölfræði:
20% okkar verða einhvern tímann þunglynd á ævinni.
1 karl á móti hverjum 3 konum.
Því yngri sem fólk er þegar það veikist, því meiri líkur eru á alvarlegum veikindum og endurteknum geðlægðum.
Þrátt fyrir alvarleika sjúkdómsins eru góðu fréttirnar þær að þunglyndi telst auðlæknanlegur sjúkdómur, yfir 90% sjúklinga fá bót sinna meina.
Áhættuhópar þurfa sérstaka athygli - koma seinna og jafnvel alls ekki til meðferðar. Dæmi um áhættuhópa eru ungir fíklar, ungt fólk sem flosnar úr skóla og atvinnulausir miðaldra karlar.
Sjálfsvígum hefur fjölgað verulega á Íslandi frá byrjun síðustu aldar og er fjölgunin nær eingöngu hjá körlum - fjöldi kvenna sem sviptu sig lífi er svipaður í dag og var fyrir 100 árum.
Karlar eru ennfremur yngri nú þegar þeir svipta sig lífi en áður.
Sjálfsvígstilraunir eru talsvert fleiri hjá konum þó karlar svipti sig oftar lífi.
Þunglyndum má oftast hjálpa og það er oftast hægt að koma í veg fyrir sjálfsvíg. Sjálfsvíg á sér yfirleitt langa forsögu, mikilvægt er því að grípa inn í þegar það er hægt.
Veist þú hvert á að leita?
Heilsugæslan, læknar, félagsráðgjafar, sálfræðingar, prestar, lögreglan, - þetta eru allt aðilar sem geta aðstoðað þig með næstu skref.
Þér þarf ekki að líða illa, það er hægt að hjálpa þér.
Fyrir hönd starfsfólks á Félags- og fjölskyldusviði vil ég koma á framfæri kærum þökkum til hópsins ?Þjóð gegn þunglyndi" og til Heilbrigðisstofnunarinnar fyrir að hafa milligöngu um mjög gott og fróðlegt námskeið.
Guðrún Jónsdóttir
félagsráðgjafi