22. maí 2020

Þátttaka í menntarannsókn

Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálfræði við HR og Háskólann í Þrándheimi, hefur óskað eftir samstarfi við Vestmannaeyjabæ og GRV um viðamikla menntarannsókn til 12 ára. Um er að ræða samanburðarrannsókn við skóla í öðrum landshluta og henni fylgja breyttar áherslur í námi nemenda sem og breyttir kennsluhættir. Miðað er við að rannsóknin byrji strax í 1. bekk haustið 2021 og fylgja þeim árgangi út skólagöngu.

Hermundur hefur lengi bent á dvínandi lestrarfærni íslenskra barna og þá sérstaklega drengja. Segir hann að ofuráhersla á leshraða í stað lesskilnings, eins og hefur verið á Íslandi, sé ekki til þess fallið að bæta lestrarfærni nemenda og hefur hann vísað í fjölda rannsókna því til stuðnings. Hann leggur mikla áherslu á þjálfun lestrarfærni í upphafi skólagöngu og að nám nemenda fyrstu tvö árin eigi aðaláherslan að vera á lestur þannig að við lok 2. bekkjar séu 95% nemenda fullæs.

Dæmi um hvernig skóladagur gæti litið út og gæti átt við fleiri árganga þótt þeir séu ekki hluti af rannsókninni:

 • Hreyfing til að bæta hreyfifærni, hreysti, einbeitingu og fókus.

 • Áhersla til hádegis: Lestur, náttúrufræði (skapa ástríðu fyrir faginu), stærðfræði (samlagning, frádráttur, deiling og margföldun)

 • Eftir hádegi: Heimanámshjálp fyrir þau sem þurfa mesta hjálp í grunnleggjandi fögum en önnur börn fá kennslu í öðrum fögum og áhugasviðstengdum greinum.

Þessi breyting á dagsskipulagi þýðir að víkja þarf frá viðmiðunarstundaskrá og þarf að fá heimild frá ráðuneytinu til þess en heilt yfir er þetta verkefni háð velvilja ráðuneytisins og því yrði þetta alltaf framkvæmt í samstarfi við það.

Aðal áhersla rannsóknarinnar verður á eftirfarandi þætti:

 • læsi og lestur:

  • rannsóknir á bókstaf - hljóð kunnáttu, læsi og lesskilning

 • tölur og stærðfræði:

  • rannsóknir á kunnáttu á tölum og talnaskilningi, mengi og stærðfræði

 • náttúrufræði og umhverfi:

  • rannsóknir á kunnáttu um hina ólíku þætti náttúrunnar og umhverfi

 • hreyfing/hreyfifærni/hreysti/heilsa:

  • rannsóknir á samspili hreyfingu, hreyfifærni og hreysti

 • hugarfar:

  • rannsóknir á ástríðu, þrautseigju, grósku hugarfar og flæði

Fræðslufulltrúi og skólastjóri GRV kynntu á 330. fundu fræðsluráð áherslur rannsóknarinnar og hugmyndir um fyrirkomulag og lýstu yfir áhuga á að taka þátt í rannsókninni enda einstakt tækifæri fyrir GRV og Vestmannaeyjar til að vera leiðandi í menntarannsóknum á Íslandi. Fræðsluráð tók undir og telur mikilvægt er að leita allra leiða að sækja fram, tileinka sér og þróa leiðir sem geta styrkt, bætt líðan og getu nemenda í skólaumhverfinu. Menntarannsókn sem þessi gæti verið mikilvægt skref fyrir íslenskt menntakerfi. Fræðsluráð lýsti yfir ánægju með áhuga skólastjóra GRV og fræðslufulltrúa að taka þátt í slíkri rannsókn og tekur undir að þetta sé einstakt tækifæri fyrir GRV og Vestmannaeyjar að vera leiðandi í menntarannsóknum á Íslandi. Ráðið fól framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að fylgja málinu eftir.

Rétt er að benda á að ekki er búið að samþykkja þátttöku í menntarannsókninni heldur einungis að lýsa yfir áhuga á samstarfi um hana. Afla þarf frekari upplýsinga s.s. um kostnað og annan undirbúning auk þess sem leita þarf umsagnar kennara GRV og foreldra áður en fræðsluráð og bæjarstjórn samþykkir þátttöku.