Stýrihópurinn og skólamálin.
Kristinn Kristjánsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga mætir á fund stýrihópsins.
Stýrihópurinn hefur haldið þó nokkra fundi og er nú langt kominn með að vinna úr og koma skipulagi á þau gögn sem honum barst frá grunnskólunum, stjórnendum, kennurum, nemendum og foreldrum.
Rétt fyrir páska mætti svo á fund stýrihópsins Kristinn Kristjánsson, starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann er sérfræðingur á kjarasviði Sambandsins og er sá aðili sem fer með umboð sveitarstjórnanna í launanefndinni og hefur eftirlit með að samningar séu haldnir, séu hvorki van-né ofgreiddir.
Kristinn kom víða við á þessum fundi. Hann fór m.a. ítarlega yfir réttindi og skyldur sveitarfélagsins hvað gildandi kjarasamninga varðar, jafnframt kynnti hann fulltrúum fundarins það reiknilíkan og forsendur þær er liggja að baki því. Þetta reiknilíkan "pottormurinn" svokallaði er lagt til grundvallar í flestum grunnskólum landsins við útdeilingu kennslumagns á skóla og þar með þess lágmarks fjármagns til skólahalds, sem áætlað er í upphafi hvers skólaárs. Sömuleiðis bar hann saman sambærileg reiknilíkön, ræddi ýmsa mismunandi þætti og möguleika á forsendum varðandi útdeilingu kennslumagnsins og nýtingu á fjármagninu. Ennfremur fór hann í gegn um vinnuramma kennara og notkunar hans, ræddi skóladagatölin, nemenda-og prófadaga og hvernig þeir hafa og eru notaðir á mismunandi hátt. Loks fór yfir skilgreiningar á hlutverki deildarstjórnenda og annarra innan skólakerfisins, minntist á mismunandi leiðir varðandi sérkennslu og tæpti á fleiri atriðum .
Hann kom með ábendingar um að mikilvægt væri að stjórnendur og fræðsluyfirvöld nýttu kennslumagnið sem best, og benti á ýmsar leiðir til þess s.s. að skipta hópum upp öðruvísi en hin almenna venja er, s.s. að kennarar vinni samna með allan árganginn í stað einstakra bekkjardeilda, ofl.
Hann undirstrikaði mikilvægi skýrra og fyrirfram gefinna reglna strax í upphafi skólaárs, nauðsyn þess að gera öllum grein fyrir forsendum ákvarðana, og þá ekki síst foreldraráðum.
Loks undirstrikaði hann að stjórn sveitarfélagsins hefði ávallt síðasta orðið ef stjórnendu skólanna færu fram á viðbótarfjármagn. Það væri í þeirra verkahring að taka afstöðu, samþykkja eða hafna.
Auk meðlima stýrihópsins, sem samanstendur af aðalmönnum í skólamálaráði, þeim Ragnari Óskarssyni formanni, Eygló Harðardóttur, Bergþóru Þórhallsdóttur, G.Ástu Halldórsdóttur og Jóhanni Guðmundssyni, sátu fundinn Páll Einarsson fjármálastjóri, Viktor Stefán Pálsson framkvæmdastjóri stjórnsýslu-og fjármálasviðs, Erna Jóhannsdóttir fræðslufulltrúi og Andrés Sigurvinsson framkvæmdastjóri fræðslu-og menningarsviðs.
Menn voru mjög ánægðir með þennan fund og fulltrúar stýrihópsins ámálguðu hvort Kristinn væri ekki til með að koma aftur og halda fund með bæjarfulltrúum og stjórnedum skólanna.
Andrés Sigurvinsson, framkvæmdastjóri fræðslu og menningarsviðs.