Stýrihópur, bæjarstjóri og embættismenn funda með kennurum og öðru starfsfólki
Ragnar Óskarsson, formaður skólamálaráðs og stýrihóps og Bergur E. Ágústsson, bæjarstjóri leiða fund með kennurum og öðru starfsfólki grunnskólanna.
Fundarefni: Vinnan sem farin er af stað á vegum stýrihóps um skólamál í Vestmannaeyjum og fjármál Vestmannaeyjabæjar
Skólastjóri Hamarsskóla Halldóra Magnúsdóttir bauð fólk velkomið og setti fundinn. Ragnar byrjaði á að fara yfir hvernig stýrihópuinn væri tilkominn, og ræddi m.a. hvers vegna þessi vinna hefði farið af stað og hvaða atriði hann hefði að leiðarljósi.
Þar kom hann inn á að skólamálin væru og ættu að vera í stöðugri endurskoðun, menn vildu skerpa á framtíðarsýn, mikil umræða hefði farið fram að undanförnu um skólamálin, niðurstöður samræmdra prófa og nýlegra rannsókna og hinn almenna draum um betri skóla.
Unnið væri út frá þrem þáttum aðallega, þeim faglega, félagslega og fjárhagslega.
- Farið hefði verið fram á við Menntamálaráðuneytið að taka út starfsemi skólastiganna hérna í Vestmannaeyjum.
- Einnig hefði verið farið fram á aðstoð Sambands íslenskra sveitarfélaga við að skoða ýmsa þætti um fjármál.
- Þá hefði verið fram á aðstoð sérfræðings um að fara yfir ákveðna rekstrarþætti í tengslum við lög og reglur og gildandi starfsamninga.
- Stofnaðir hefðu verið þrír starfshópar skólafólks, sem í væru starfsmenn grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla. Sömuleiðis er einn fyrir sérdeild.
Niðurstöðum skilað til stýrihóps 4. mars og þá mun stýrihópurinn vinna úr þeim niðurstöðum ásamt utanaðkomandi hlutlausum ráðgjafa og öðrum upplýsingum og niðursöðum sem þegar liggja fyrir frá því í haust frá vinnufundi sem haldinn var í Hamarsskóla. Þegar þeirri vinnu er lokið og niðurstöður úttektar Menntamálaráðuneytisins og Sambandsins liggja fyrir mun stýrihópurinn skila inn tillögum til skólamálaráðs grundvallaðar á þeim niðurstöðum.
Síðan ræddi bæjarstjóri nokkuð um fjármálin og fór síðan vel og vandlega yfir fjármálaáætlun Vestmannaeyjabæjar 2004, hvernig hún væri hugsuð og hvað lægi til grundvallar gerð hennar. Hann ræddi skólamálin sérstaklega og fór yfir stöðuna almennt. Lagði áherslu á að allir stefndu að sama markmiði að nýta fjármagnið sem best og á sem heillavænlegastan hátt fyrir bæjarfélagið til framtíðar.
Bæði Ragnar formaður stýrihóps og aðrir fulltrúar stýrihópsins svo og bæjarstjóri svöruðu fyrirspurnum fundarmanna og undirstrikuðu að það væri svo fjarri lagi að eitthvað væri þegar búið að ákveða um framtíðarskipan skólamála í Vestmannaeyjum.
Ítrekuðu báðir að þessi vinna hefði einmitt þann tilgang að fá fram sem flest sjónarmið og bindu menn vonir við að þannig mætti fást sú niðurstaða sem vítækasta sátt væri um.
Fundurinn stóð góða klukkustund og í lok hans lýstu menn ánægju sinni yfir að hafa fengið þessar upplýsingar og umræðu. Formaður þakkaði fólki komuna og prúðmannlega framkomu.
Andrés Sigurvinsson framkvæmdastjóri fræðslu og menningarsviðs.