12. apríl 2005

Stóra upplestrarkeppnin í Bæjarleikhúsinu.

Nemendur Hamarsskólans hrepptu öll efstu sætin í þetta sinn. Að sögn Baldurs Sigurðssonar sem var yfirdómari og er einn af frumkvöðlum þessarar keppni er langt síðan hann hefur hlustað á hóp sem er jafn sterku

Nemendur Hamarsskólans hrepptu öll efstu sætin í þetta sinn. Að sögn Baldurs Sigurðssonar sem var yfirdómari og er einn af frumkvöðlum þessarar keppni er langt síðan hann hefur hlustað á hóp sem er jafn sterkur og jafn í heild og var dómurunum því mikill vandi á höndum.  En þeir komust að þessari niðurstöðu og voru einróma sammála. 

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar 2005 var haldin í Bæjarleikhúsinu s.l. mánudag. Fjölmenni var á hátíðinni sem var afar vel heppnuð.

Athöfnin hófst með að fræðslufulltrúin Erna Jóhannesdóttir setti hátíðina og rakti sögu og undirbúning.  Síðan spilaði Hjálmar Guðnason ásamt nemanda sínum Gunnari Steingrímssyni, sem var að ljúka áfangaprófi gullfallegan duett.  Og þá tók við upplesturinn.

Nemendur 7. bekkja grunnskólanna höfðu unnið að undirbúningi frá því í haust með því að æfa upplestur í skólunum og var lokahátíðin endapunktur á því ferli. Tólf nemendur voru valdir til að lesa á lokahátíðinni. Þeir lásu upp úr bókinni "Öðruvísi dagar" eftir Guðrúnu Helgadóttur, ljóð eftir Jóhannes úr Kötlum og loks ljóð að eigin vali. Heildverslun Karls Kristmanns, Mjólkursamsalan og Blómastofa Vestmannaeyja styrktu hátíðina með veitingum og blómaskreytingu.

Sparisjóðurinn veitti peningaverðlaun til þeirra þriggja nemenda sem röðuðust í 1. 2. og 3. sætið. Einn nemandi fékk aukaverðlaun fyrir fjórða sætið.

Þessir fjórir nemendurnir fengu auk þess bókina "Við Ægisdyr " eftir Harald Guðnason að gjöf frá fræðslu- og menningarsviði Vestmannaeyja. Allir nemendurnir sem lásu á lokahátíðinni fengu og gjöf bókina "Grímuborgin" eftir Mary Hoffmann frá Bókaforlaginu Eddu.

Nemendurnir sem unnu til verðlauna eru Kristinn Pálsson, Sædís Birta Barkardóttir, Brynja Þrastardóttir og Birgitta Ósk Valdimarsdóttir, öll nemendur í Hamarsskóla.

Vestmannaeyjabær óskar nemendunum öllum til hamingju með frábæran upplestur og skemmtum og þeim Guðrúnu Stefánsdóttur og Þóru Guðmundsdóttur, þjálfurum nemenda Hamarsskóla sérstaklega með framúrskarandi árangur.  Jafnframt þökkum við Ernu Jóhannesdóttur fræðslufulltrúa, gestum, starfsmönnum Féló og öðrum sem komu að undirbúningi og framkvæmd keppninnar hjartanlega. 

Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.

Andrés Sigurvinsson, framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs Vestmannaeyjabæjar.


Jafnlaunavottun Learncove