Stóra upplestrarkeppnin 2003-2004
Mars er mánuður vandaðs upplestrar því þá lýkur Stóru upplestrarkeppninni með veglegum upplestrarhátíðum um land allt. Í ár var keppnin haldin í fimmta sinn hér í Vestmannaeyjum. Skáld keppninnar þetta árið eru þau Stefán Jónsson og Þuríður Guðmundsdóttir. Hinir ungu upplesarar fluttu brot úr sögunni Hjalti kemur heim eftir Stefán og nokkur ljóð eftir Þuríði, auk ljóða að eigin vali.
Um 4300 nemendur 7. bekkja í 151 skóla tóku þátt í keppninni eða um 95% árgangsins. Nemendur hafa æft vandaðan upplestur og framburð undir leiðsögn kennara sinna, og á hátíðunum koma fram þeir sem lengst hafa náð í sínum skóla.
Keppnin hefur á undanförnum árum verið mikil lyftistöng fyrir bekkjarstarfið í 7. bekk. Nemendur hafa lært að koma fram og flytja texta á vandaðan og virðulegan hátt. Verkefnið hefur orðið til þess að læsi nemenda hefur batnað, áhugi á bókmenntum hefur víða glæðst, margir hafa sigrast á feimni og óöryggi.
Tólf fulltrúar nemenda tóku þátt í lokahátíðinni hér í Vestmannaeyjum og stóðu þeir sig allir með mikilli prýði. Allir þátttakendur lokahátíðar hlutu að verðlaunum bók frá Eddu útgáfu. Sparisjóður Vestmannaeyja verðlaunaði þá þrjá nemendur sem röðuðu sér í þrjú efstu sætin. Silja Elsabet Brynjarsdóttir í 7. IÞ og bekkjarsystir hennar Ingunn Ósk Magnúsdóttir í Barnaskólanum hlutu fyrsta og annað sætið. Þriðja sætið hlaut Saga Sjöfn Ragnarsdóttir í 7.SÆ í Hamarsskóla. Eru þeim sendar hamingjuóskir með árangurinn. Vert er að geta þess að Mjólkursamsalan , Heildverslun Karl Kristmanns og Krónan lögðu til veitingar sem boðið var upp á í hléi. Þá fluttu nemendur tónlistarskólans flaututónlist og séra Fjölnir Ásbjörnsson las ljóð. Öllum þessum aðilum, ásamt dómurum keppninnar og öðru góðu aðstoðarfólki eru færðar þakkir fyrir aðstoðina við að gera lokahátíðina að vel heppnaðri skemmtun fyrir þá sem á hlýddu.
Fræðslufulltrúi