12. júní 2020

Stöðvavinna á Kirkjugerði sumarið 2020

Á leikskólanum okkar er alltaf nóg um að vera, vetur, sumar, vor og haust og snillingarnir okkar una sér vel við leik og störf alla daga.

Okkur langaði að gera eitthvað nýtt, öðruvísi og hnitmiðað í sumar og fengum þá frábæru hugmynd að byrja með stöðvavinnu þar sem starfsfólk gat valið sér stöð eftir sínu áhugasviði og þannig gert starfið áhugaverðara og dýpra með þátttöku yndislegu barnanna okkar.

Stöðvarnar eru fjórar, Læsi og samskipti, heilbrigði og vellíðan, vísindi og stærfræði og sköpun og menning. Þetta eru allt þættir í aðalnámskrá leikskóla og Kirkjugerðis og allt þættir sem skipta miklu máli í leik, lífi og starfi barna. Stöðvaninnan fer alltaf fram utan dyra og þannig nýtum við leikskólalóðina sem og næsta nágrenni til verkefnavinnu. Verkefnin eru fjölbreytt og skemmtilegt og má ekki á milli sjá hver skemmta sér betur, starfsfólkið eða börnin.

Læsi og samskiptahópurinn er mikið að vinna með námsefnið ,,Lubbi finnur málbein“ og notar til þess ýmis konar efnivið eins og málaða spýtukubba, sand, málningu og liti ásamt því að fara einu sinni í viku í örnefnagöngu.

Heilbrigði og vellíðan hópurinn einbeitir sér að hreyfingu í allri sinni mynd. Skemmtilegir leikir, þrautabrautir og gönguferðir eru alls ráðandi og koma krílin okkar vel þreytt, rjóð og sæl í hádegismat eftir afar góða og skemmtilega hreyfingu.

Vísindahópurinn okkar hefur gert margs konar tilraunir með alls kyns efnivið og það ískrar í börnunum okkar af gleði þegar þeim tekst að láta eldfjallið gjósa eða matarlitinn og matarolíuna mynda listaverk þegar það rennur saman.

Menning og sköpun fer svo fram í allri sinni dýrð með því til dæmis að vatnslita í rigningunni, kríta fallegar og glaðlegar sumarmyndir á stéttina okkar eða mála listaverk á maskínupappír sem hengdur er á grindverkið okkar.

Það má með sanni segja að stöðvavinnan okkar hafi fært líf í garðinn okkar og nágrenni, dýpkað þekkingu okkar og virkni á þessum þáttum og fært hamingjustuðulinn okkar upp úr öllu valdi, en hann var nú hár fyrir-Hamingjan er svo sannarlega hér á Kirkjugerði. 

  • Leikskoli2
  • Leikskoli-
  • Leikskoli1