"Stille øy" verkefnið komið á fullt skrið.
Samstarfsverkefni þriggja eyjasamfélaga. Gestirnir komu sl. mánudag - eru nú að vinna að verkefninu úti í Bjarnarey.
Eins og menn muna etv. fóru héðan fyrir tveim árum 6 ungmenni á vegum Leikfélags Vestmannaeyja og Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum til Andøya til að taka þátt í leiklistarverkefni. Vestmannaeyjabær kom að þessu verkefni og hafði Andrés Sigurvinsson umsjón með því.
Nú eru Norðmenn að endurgjalda okkur heimsóknina og hafa bæst í hópinn tveir frændur okkar frá Færeyjum, sem taka þátt í vinnunni sem nú stendur yfir.
Hópurinn kom hingað til Vestmannaeyja sl. mánudag og hafa haft aðsetur í Félagsheimilinu. Ólafur Guðmundsson og Katrine Strøm hafa yfirumsjón með verkefninu hérna heima í samráði við fræðslu-og menningarsvið. Verkefnið hefur verið styrkt af norræna menningarsjóðnum og menningarborgarsjóði.
Hópurinn byrjaði hérna á Heimaey vinnuna. Þau dveljast núna út í Bjarnarey þar sem þau eru að vinna að því að hrissta hópinn enn betur saman, skoða sögur og sagnir við sjávarsíðuna og vinna út atriði sem verða síðan uppistaðan í sýningu sem hópurinn mun vera með í lokin. Áætlað er að sýningin verði haldin í Vélarsal Listaskólans.
Þetta er samnorrænt verkefni og eru þetta 22 einstaklingar sem taka þátt frá Vestmannaeyjum, Götu í Færeyjum og Andareyjum í Noregi.
Fræslu- og menningarsvið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem hafa stutt við bakið á þessu verkefni og ekki síst þeim Bjarnareyingum fyrir gestrisnina.
Fræðslu-og menningarsvið