Steinunn Einarsdóttir bæjarlistamaður 2004
Ragnar Engilbertsson útnefndur heiðurslistamaður Vestmannaeyja.
Sumardaginn fyrsta var tilkynnt við athöfn í Safnahúsinu val
Ragnar Engilbertsson útnefndur heiðurslistamaður Vestmannaeyja.
Sumardaginn fyrsta var tilkynnt við athöfn í Safnahúsinu val menningarmálanefndar Vestmannaeyja á bæjarlistamanni fyrir árið 2004. Kom það í hlut Steinunnar Einarsdóttur myndlistarmanns að þessu sinni og er hún jafnframt fyrsta konan sem hlýtur þessa nafnbót en þetta er í fjórða sinn sem bæjarlistarmaður er útnefndur. Menningarfulltrúinn Sigurgeir Jónsson afhenti Steinunni blóm og viðurkenningarskjal fyrir hönd bæjaryfirvalda. Alls bárust þrjár umsóknir.
Bæjarlistamaður árið 2003 var Ósvaldur Freyr Guðjónsson.
Steinunni þarf vart að kynna hér í Vestmannaeyjum. Hún hefur til margra ára verið mikilvirk á sínu sviði, haldið þó nokkrar myndlistarsýningar og staðið fyrir námskeiðum fyrir bæjarbúa í myndlist og málun.
Einnig var við sama tækifæri Ragnar Engilbertsson útnefndur heiðurslistamaður Vestmannaeyja. Ragnar er sonur Engilberts Gíslasonar málara og er einn af brautryðjendum í málaralistinni hérna í Eyjum. Hann er vel þekktur hér og víðar og munum við gera honum og vinnu hans betur skil er fram líða stundir.
Guðjón Ólafsson myndlistarmaður skar út og hannaði listaverk sem sýnir m.a. málaratrönur ásamt tilheyrandi áhöldum og var skjöldur greiptur í verkið með nafni heiðurslistarmannsins ásamt nafnbótinni. Ragnar Engilbertsson er fyrsti heiðurslistamaður Vestmannaeyjabæjar.
Bergur E. Ágústsson bæjarstjóri afhenti Ragnari listaverkið ásamt viðurkenningarskjali.
Litla lúðrasveitin lék fyrir gesti Safnhúsins undir stjórn Hjálmars Guðnasonar. Þessi athöfn er orðinn einn af föstum liðum í bæjarlífi Vestmannaeyja á sumardaginn fyrsta.
Andrés Sigurvinsson framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs