26. maí 2004

Staða stráka í skóla

Opinn fræðslufundur  á vegum  Fræðsluráðs Reykjavíkur Fundurinn var auglýstur  fyrir foreldra, stjórnmálamenn, skólafólk, fræðimenn og aðra sem láta sig þjóðfélagsmál varða. Spurningum sem
Opinn fræðslufundur  á vegum  Fræðsluráðs Reykjavíkur

Fundurinn var auglýstur  fyrir foreldra, stjórnmálamenn, skólafólk, fræðimenn og aðra sem láta sig þjóðfélagsmál varða. Spurningum sem varpað var fram voru: ?Eiga strákar erfiðara uppdráttar í námi en stelpur?" ?Hentar skólinn ekki þörfum stráka? Ef svo er, hvers vegna?"

Fyrirlesarar á fundinum  skoðuðu málin  útfrá  ólíkum sjónarhornum. 

Fyrst tók til máls Inga Dóra Sigfúsdóttir frá Rannsóknum og greiningu.  Hún sagði frá niðurstöðum nýlegrar rannsóknar sem náði til flestra nemenda á landinu í ákveðnum aldurshópum.  Í ljós kom að það er talsverður kynjamunur á nemendum.  Stelpur eru duglegri í lestri.  Strákar  eru bæði slakari í stöðluðum prófum og þeim sem ekki eru stöðluð.  Þeir heltast frekar úr námi og finna ekki tilgang með því sem þeir eru að gera. Þeir læra minna heima og  semur verr við kennarana. Fram kom að 38% drengja höfðu verið sendir til skólastjóra einhvern tíma skólaársins og 6% þeirra hafði verið vísað tímabundið úr skóla.  Strákarnir fara seinna að sofa en stelpurnar (og reyndar kom í ljós að stór hluti nemenda   á unglingastigi fer seint að sofa). Mikinn kynjamun má finna í íslensku sem og í dönsku og stærðfræði.  Minnsti munur á milli kynja er í enskunni. 

Strákar telja að áfengisneysla marki þeim virðingu  og í ljós kom að bæði kyn telja að það, að  líta vel út, marki einstaklingnum virðingu.

Niðurstöður  Ingu Dóru voru þær að  það er ekki eingöngu kennslan og hvernig kennt er sem hefur áhrif á líðan og árangur nemenda í skólanum.  Heimilin, félagslegar aðstæður og samskipti við jafnaldra hafa mikið að segja. 

Inga Dóra ræddi um erlendar niðurstöður þar sem árangur  nemenda sem ganga í  kaþólska skóla var borinn saman við aðra.   Nemendurnir í kaþólsku skólunum  virðast ná betri árangri en aðrir nemendur.  Talið er að sterkt tengslanet  innbyrðis milli foreldra og góð samskipti þeirra við kennarana skili þessum góða árangri.   Umhyggja þessara foreldra við börnin sín, aðhald og áhugi þeirra gagnvart  námi barnanna  bæði heima fyrir og í skólanum  hafi áhrif á að þessum nemendum gengur betur í skólanum  og virðist líða betur en jafnöldrum þeirra í öðrum skólum.

Næsti fyrirlesari var Berglind Rós Magnúsdóttir jafnréttisfulltrúi HÍ.  Hún ræddi um  að horft væri  til fjölda kvenna í kennarastétt sem ástæðu fyrir slæmu gengi drengja í skólum. Þá vantaði karlfyrirmyndir o.fl. í þeim dúr.  Hún taldi að þar væri um bábilju að ræða  og nefndi  orðum sínum til stuðnings að í rannsókn sem gerð var árið 1924 - 1925 hefði sama verið uppi á teningnum. Drengir hefðu átt í meiri erfiðleikum í skólanum í þá daga alveg á sama hátt og nú og þá hefðu karlar verið í algerum meirihluta í kennslu. Sama gildir um stöðu pilta í framhaldsskólum.  Þar eru karlkennarar í meirihluta en samt er  námsleiði, vanlíðan og brottfall meðal nemenda.  Hún nefndi að sjálfstraust kvenna  tengdist  mun meira menntunarstigi þeirra en sjálfstraust karla og að það gæti m.a.  verið ástæðan fyrir því að  konur halda frekar áfram námi. 

Hafsteinn Karlsson skólastjóri Salaskóla tók næstur til máls. Hann sagði frá  fundi  sem hann hélt með unglingspiltum í skólanum sínum.  Þeir ræddu  um  að drengir virtust almennt  með lakari námsárangur en stúlkur og  ræddu ástæður þess. 

Strákarnir sögðu:

  • Strákarnir eru óþekkari
  • Þeir læra ekki heima
  • Þeir reyna að vera ?cool" með því t.d. að segjast ekki læra heima
  • Kennarar eiga að standa við reglur
  • Strákar vilja skýr mörk og ramma
  • Strákar vilja sanngjarna, hressa en  ákveðna kennara
  • Strákar vilja meira af list- og verkgreinum

Smiðjur í list- og verkgreinum í Salaskóla eru mjög vinsælar. Fyrir áramót: Hver smiðja í 3 vikur (námskeið). Þá fara allir í allar smiðjurnar.  Eftir áramót  val í smiðju/r eftir áhugasviði.

Strákarnir segjast læra meira í smiðjum en í bóklegum tímum.  Þeir  velja frekar verklegar greinar en stelpurnar.Valgreinar í 9. bekk eiga að vera 11 á viku.  Í sumum skólum eru mun færri stundir notaðar í val.Neikvæð áhrif samræmdra prófa  vegna þess að verklegum námsgreinum er ýtt til hliðar á kostnað samræmdu greinanna.

Stelpurnar eru líka leiðar í skólanum, en þær virðast bíta frekar á jaxlinn og reyna meira. Þær velja síður verkelegt nám - eru sennilega að hugsa um árangur í samræmdum prófum.

Allir vilja skapa eitthvað og vinna verklega (smíða kofa, gera upp hjól, hjálpa til við alls kyns verklega vinnu eins og að laga bílinn o.s.frv.) þessi athafnasvæði hafa verið tekin af þeim og þeir hafa snúið sér að tölvum.

Mikið talað um einstaklingsmiðað nám. Hafsteinn  er ánægður með það en spyr hvort komið sé til móts við tónlistargreind, náttúrugreind, hreyfigreind o.s.frv. þegar verið er að skipuleggja einstaklingsmiðað nám.

Hafsteinn segir að skólinn þurfi að breytast og koma til móts við einstaklingsþarfir nemenda á öllum sviðum (ekki bara bóklegum heldur líka á verklegum sviðum).

Síðastur á mælendaskrá var Júlíus K. Björnsson, forstöðumaður námsmatsstofnunar. Hann sagði frá  niðurstöðum Pisa rannsóknanna  sem er samstarfsverkefni 32 ríkja  þar sem þekking og hæfni 15 ára nemenda er metin.  Allir nemendur í 10. bekk á Íslandi tóku þátt. Fyrsta rannsóknin fór fram árið 2000, önnur árið 2003 og sú þriðja verður lögð fyrir 2006.  Þrjú svið eru rannsökuð, lestrar-, stærðfræði-, og náttúrufræðikunnátta. Hugtakið  ?læsi" er notað um öll þrjú sviðin og það á að endurspegla hversu víðtæk sú þekking er sem verið er að mæla. Skoðað er hver færni nemenda er til að nota ritmál, túlka upp úr ritmáli og draga ályktanir sem er sú grundvallarfærni sem flest annað nám byggir á. Með þessum rannsóknum er lagður grunnur að greiningu niðurstaðna með stefnumótun að leiðarljósi.  Í Pisa verður t.d. hægt að:

  • tengja frammistöðu nemenda  við kennsluaðstæður
  • skoða tengslin milli frammistöðu nemenda og gæða skóla (mannafla, fjármagns til skólastarfs, ríkis- eða einkareksturs og ákvarðanatöku innan skólanna)
  • athuga mun á frammistöðu innan hvers lands m.a. breytileika milli skóla og hversu stóran hluta hans megi rekja til efnahagslegra og menningarlegra þátta
  • bera saman t.d. viðhorf nemenda til menntunar og lífsvenjur þeirra bæði innan og utan skóla

Rúmlega 30 lönd hafa tekið þátt í þessum rannsóknum þar sem reynt er að setja allar niðurstöður á sama kvarða þannig að  leikmenn skilji betur hvað verið er að fjalla um og til að samanburður sé marktækur.  Meðaltalið er gefið 500 og staðalfrávik 100 þannig að flestir nemendur (um 2/3 þeirra sem taka þátt í rannsókninni) lenda á bilinu 400 til 600. Hverjum undirkvarðanna þriggja er skipt í 6 hæfnisþrep. Þrep 0 til þrep 5.

  • Þrep 5 þýðir stigafjölda yfir 625
  • Þrep 4 þýðir stigafjölda yfir 553-624
  • Þrep 3 þýðir stigafjölda yfir 481-552
  • Þrep 2 þýðir stigafjölda yfir 408-480
  • Þrep 1 þýðir stigafjölda yfir 335-407
  • Þrep 0 þýðir stigafjölda yfir < 334

Lestur -  dæmi um merkingu hæfnisþrepa:

5. þrep: Meta á gagnrýninn hátt og byggja upp tilgátur byggt á sérhæfðri þekkingu. Fást við hugtök sem eru andstæð væntingum og nota djúpan skilning á löngum og/eða flóknum texta.

1.þrep: Sjá einfalda tengingu á milli upplýsinga í textanum og algengrar hverstagslegrar þekkingar.

0. þrep: Nemendur geta verið stirðlæsir en þeir hafa ekki þá grunngetu sem PISA leitast við að mæla. Lestrargeta þeirra er verulega skert, þannig að geta þeirra til  þess að afla sér almennrar þekkingar og hæfni er takmörkuð. Hamlar frekara námi og árangri.

Meðaltal  á Íslandi er 512, stúlkur með 528  og drengir með 488.  Finnar komu  best út úr könnuninni ef við berum okkur saman við Norðurlandaþjóðir  og þar má sjá að mun fleiri nemendur ná þrepi  5 (19%)  á móti 9% á Íslandi  og færri nemendur lenda í 0  þrepi (því neðsta) eða 2% á móti 4% nemenda á Íslandi (og þar eru stákar í meirihluta).

Heildarframmistaða:

10% 15 ára nemenda í þróuðustu löndum heims hafa hámrksgetu í lestri. þeir skilja flókið ritað mál, geta metið upplýsingar og dregið af þeim réttar ályktanir, ásamt því að nýta sér margskonar sértæka þekkingu.  Í Ástralíu, Kanada, Finnlandi, Nýja Sjálandi og Bretlandi er þetta hlutfall á milli 15% og 19%.  Á  Íslandi er þetta hlutfall 9%

Á hinum enda kvarðans eru að jafnaði 6% 15 ára nemenda og í sumum löndum eru helmingi fleiri nemendur sem falla undir þrep 1, lægstu getu sem mæld er í PISA rannsókninni. Að jafnaði ná um 12% þrepi 1, sem krefst þess að nemendur geti ráðið við grundvallarlestrarverkefni svo sem að finna ákveðið atriði í texta eða skilja meginþema texta.  á Íslandi er hlutfall nemenda sem ekki ná þrepi 1, marktækt lægra en OECD meðaltalið, eða um 4%.

Helstu ályktanir eftir fyrstu rannsóknirnar eru að:

  • Heildarframmistaða íslenskra nemenda er nokkuð betri en meðaltal OECD landanna í lestri og stærðfræði, en nokkuð lakari í náttúrufræði. Ef miðað er við Norðurlandaþjóðir er Ísland í miðjunni, mjög nálægt Svíþjóð, en árangur er betri en hjá Norðmönnum og Dönum.
  • Dreifing frammistöðu í lestri er lítil á Íslandi en þó ná of fáir nemendur bestu frammistöðu.
  • Félagslegar aðstæður og efnalegar hafa lítil áhrif á Íslandi miðað við önnur lönd.
  • Verulegur kynjamunur er á frammistöðu í lestri, stúlkunum í hag, sem kemur líklega niður á frammistöðu pilta í hinum greinunum.

Fram kemur að íslenskar stúlkur eru verulega betri en strákarnir í lestri og fleiri strákar eru undir 1. þrepi. Ísland er  í miðjunni miðað við Norðurlandaþjóðir.  Finnar og Svíar fyrir ofan okkur og Noregur og Danmörk fyrir neðan. Fólk var hvatt til að fara varlega í að túlka meðaltöl og röðun byggða á þeim.  Því til stuðnings má benda á að Ísland er marktækt yfir OECD meðaltalinu í lestri, en Noregur ekki.  Þegar þessi tvö lönd eru síðan borin saman  innbyrðis er ekki að finna marktækan mun  á milli þeirra (507/505). 

Fram kom að fyrir 10 árum voru drengir betri í stærðfræði en stúlkur.  Sá munur hefur jafnast út núna.  Spurt er hvort orsakasamhengi sé þarna á milli þannig að stærðfræðiverkefni séu  frekar sett fram í rituðu máli?  Eru tengsl milli árangurs í stærðfræði og árangurs í lestri?  Er ef til vill besta leiðin til að bæta árangur í stærðfræði sá  að bæta lestrargetu nemenda?

Leitast var við að svara spurningunni um það hvað hefði stærstu áhrifin á frammistöðu í lestri. Svörin voru þessi:

Nemendur:  Félagslegir og efnahagslegir þættir

  • Menntun foreldra (menntun móður - það virðist erfitt að tengja menntun föður við árangur íslenskra nemenda og svo virðist sem nemendur viti lítið um feður sína, störf þeirra og menntun)
  • Menningarleg virkni
  • Miklir möguleikar að lesa
  • Tengsl nemenda og kennara

Skóli:

  • Menntun kennara
  • Ekki kennaraskortur
  • Góð aðstaða
  • Sjálfstæði skóla

Svo virtist sem upplifun skólastjóra af  að skólinn væri sjálfstæður tengdist góðri frammistöðu nemenda.

Góð frammistaða í lestri tengdist:

  • ánægju af lestri
  • áhuga foreldra á menntun
  • góðum tengslum við kennara
  • menntun móður
  • stuðningi  fjölskyldunnar við menntun (þeir slöku fengu ekki stuðning).

Stelpurnar láta undan þrýstingi og reyna að standa sig vel ef á þær er þrýst, strákarnir gera það síður.

Auðæfi  fjölskyldunnar höfðu neikvæð áhrif á frammistöðu  stráka (spurt var um bílaeign og ýmislegt sem gefur til kynna efnahag fjölskyldunnar)

Rætt var um eðlislægan mun á stúlkum og drengjum.  Stúlkurnar hafa betra ?start",  þeim gengur betur að  læra að lesa og þær eru betri í móðurmálinu. Mun fleiri piltar njóta stuðnings  og sérkennslu í skóla alveg frá byrjun.  Þeirri ályktun var fleygt fram að sennilega væru strákarnir ekki að dragast aftur úr, þeir væru bara ekki að vinna  jafn hratt upp muninn  sem þær byrja með. Rætt um  ólík greindarstig og  hvort piltar og stúlkur stæðu sig misjafnlega á hinum ólíku greindarstigum (hvort það væri munur á hvar konur/karlar eru greind) og því velt upp hvort skólarnir væru að koma meira til móts við greindarstig kvenna.   Við göngum út frá að drengir séu erfiðari og stelpurnar rólegri.  Fá stelpurnar skýrari mörk?

Loks var rætt um að  matið í skólastarfinu.  Spurt var: ?Af hverju er t.d. foreldrasamstarfið ekki metið?"

Loks var rætt um mikilvægi samstarfs þeirra sem a) framkvæma mat (t.d. Námsmatsstofnunar), móta stefnuna í skólamálum (ríki og sveitarfélög) og þeirra sem framkvæma (sveitarfélög, skólarnir, skólastjórarnir, kennararnir).

Erna Jóhannesdóttir fræðslufulltrúi.

 

 

 


Jafnlaunavottun Learncove