Skólastjórnendur grunnskólanna í námi
Einstaklingsmiðað nám, starfshættir sem koma til móts við einstaklinginn, getu hans og þarfir.
Stjórnendur grunnskólanna í Vestmannaeyjum eru þátttakendur í námskeiði sem mun standa fram á næsta ár og fjallar um einstaklingsmiðað nám. Námskeiðið er hugsað sem stuðningur við stjórnendur sem vilja þróa slíka starfshætti í skólum sínum.
Kennarar grunnskólanna hafa nú þegar kynnst hugmyndum um einstaklingsmiðað nám en s.l. vor og haust tóku flestir þeirra þátt í námskeiðum sem haldin voru á vegum fræðsluskrifstofunnar um þetta efni.
Þegar fjallað er um einstaklingsmiðað nám er verið að tala um ólíkar leiðir í kennslu þar sem reynt er að koma til móts við einstaklinginn og þarfir hans. Kennarar leitast við að aðlaga námsmarkmið, kennsluaðferðir, námsefni og námsgögn ásamt skipulagi og aðferðum að mismunandi getu og þörfum einstaklinga í námshópi. Þó að áhersla sé á að nemendahópur eða bekkur eigi samleið sem bekkjarheild er leitast við að skipuleggja nám og kennslu þannig að hver nemandi njóti sín í skólanum og nái þeim hámarksárangri sem hann hefur forsendur til að ná. Í framhaldi af þessu má búast við að sumir foreldrar hafið orðið og verði varir við að kennsluhættir breytist eitthvað á næstu misserum eða árum, en svo virðist sem að í flestum skólum landsins séu starfsmenn að kynna sér og þróa starfshætti sem miða að einstaklingsmiðuðu námi.
Fræðslu-og menningarsvið Vestmannaeyja
Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi.