Skólamálin og endurskoðunin komin til stýrihópsins
Á fundi skólamálaráðs fimmtudaginn 22 janúar afhenti framkvæmdastjóri fræðslu-og menningarsviðs Andrés Sigurvinsson skólamálaráði sem jafnframt er svonefndur "stýrihópur" skilaskýrslu sína og gögn um störf vinnuhópsins sem hann kom á laggirnar sl. haust. Vinnuhópurinn vonar að eitthvað af þeim þönkum, upplýsingum og niðurstöðum megi að gagni koma.
Stýrihópinn skipa: Ragnar Óskarsson formaður skólamálaráðs, Eygló Harðardóttir, Jóhann Guðmundsson, Bergþóra Þórhallsdóttir og G. Ásta Guðmundsdóttir öll fulltrúar í skólamálaráði.
Andrés kvaðst vera uggandi yfir þeirri deyfð sem virtist ríkjandi meðal bæjarbúa og þögninni þegar skólamálin væru annarsvegar. Hann hefði gjarnan viljað sjá meiri viðbrögð við hvatningum hans og annarra um að hinn almenni bæjarbúi kæmi nú skoðunum sínum á framfæri á netfangið skolamal@vestmannaeyjar.is sem sérstaklega var stofnað vegna þessara mála. Hann vill þakka þeim kærlega sem sent hafa inn efni einnig þeim sem barið hafa það augum, svo og fréttamiðlum Vestmannaeyja sem hafa birt greinar og sýnt virkan áhuga.
Enn og aftur vill hann hvetja menn til að viðra skoðanir sínar og senda inn greinar og koma athugasemdum sínum á framfæri. Þeim verði beint til stýrihópsins, sem nú verði beintengdur við netfangið. Hann sagðist vita að þetta væri málefni sem allir hefðu ákveðna skoðun á.
Það er hinn almenni bæjarbúi sem leggur til fjármagnið og hlýtur þar af leiðandi að láta sig nokkru skipta hvernig því er varið. Að hans mati eru skólamál ekki einkamál eins eða neins, leiðarljósið á að vera hagsmunir heildarinnar í faglegu, félagslegu og fjárhagslegu tilliti.
Starfsmenn fræðslu-og menningarsviðsins hafa miklar væntingar til stýrihópsins, svo mun vera um fleiri. Andrés segir að þeir muni ekki láta sitt eftir liggja og muni leggja sín lóð á vogaskálarnar og aðstoða stýrihópinn á allan hátt og hvetur aðra til að gera slíkt hið sama.
Vinnuhópnum voru þökkuð störfin og mun stýrihópurinn hittast strax á morgun og funda, fara yfir gögnin og leggja línurnar til framtíðar enda ekki eftir neinu að bíða.
Vinnuhópinn skipuðu: Erna Jóhannesdóttir fræðslufulltrúi, Sigurgeir Jónsson menningarfulltrúi, Svava Bogadóttir formaður Kennarafélags Vestmannaeyja, Helga Tryggvadóttir námsráðgjafi, Jón Pétursson sálfræðingur, Auður Karlsdóttir leikskólafulltrúi, Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir stöðvarstjóri og fv. formaður skólamálaráðs og Andrés Sigurvinsson.
"Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér"
Frá fræðslu- og menningarsviði.