19. nóvember 2023

Skemmd á neysluvatnslögninni til Vestmannaeyja

Föstudagskvöldið 17. nóvember varð neysluvatnslögnin til Vestmannaeyja fyrir skemmdum þegar akkeri Hugins VE festist í vatnslögninni.

 

Vatnslögnin, sem liggur í sjó milli lands og Eyja, er í eigu Vestmannaeyjabæjar og sjá HS Veitur um rekstur hennar. Málsatvik eru í rannsókn en skipið var komið inn fyrir Klettsnef þegar atvikið átti sér stað.Vatn skilar sér enn um lögnina til Vestmannaeyja en svo virðist sem einhver leki sé á lögninni þar sem neysluvatn nái að streyma út. Kafarar sem fóru niður að lögninni í dag hafa staðfest talsverðar skemmdir á henni á um 50 metra kafla og hefur hluti hlífðarkápu losnað af lögninni og rekið upp í fjöru.

Almannavarnanefnd Vestmannaeyja hélt fund í dag um málið, ásamt fulltrúum frá HS Veitum, þar sem fram kom að mikilvægt er að ráðast sem fyrst í aðgerðir til þess að verja lögnina frekari skemmdum. Undirbúningur á slíkri bráðabirgðaviðgerð er þegar hafin. Samhliða því þarf að hefja undirbúning að fullnaðarviðgerð en það kallar á aðkomu framleiðanda lagnarinnar og viðgerðaskips. Ekki liggur fyrir hvenær af því getur orðið.

Atvikið er alvarlegt þar sem vatnslögnin er eina flutningsæð neysluvatns til Vestmannaeyja.

Almannavarnarnefnd Vestmannaeyja
HS-veitur