Sauðfé í þágu náttúruverndar?
Tilraun til að stöðva útbreiðslu lúpínunnar
Af vef www.ust.is
Lúpínan er erlend plöntutegund sem var flutt til landsins frá Alaska árið 1945. Hún getur vaxið í rýrum jarðvegi, dreifst mjög hratt og eykur frjósemi jarðvegs. Vegna þessara hæfileika er hún víða ræktuð til að bæta áburðarsnauðan jarðveg og stöðva uppblástur.
En lúpínan er tvíeggja vopn í barátunni gegn jarðvegseyðingu; hún geturleyst vandamál en hún getur einnig skapað önnur vandamál. Á vissum stöðum á Íslandi er hún nú orðin mjög ágeng og er farin að breiðast hratt út yfir íslenskan blómgróður. Í öllum Evrópulöndum hafa komið upp svipuð vandamál með innfluttar tegundir. Nefna má t.d. alparósina, sem er orðin plága á Bretlandi.
Á sjöunda áratugnum var lúpínufræjum sáð í rofabörð í Bæjarstaðarskógi. Sauðfé hélt plöntunni niðri fram til ársins 1978 en eftir að Skaftafell var friðað fyrir beit fór lúpínan að breiðast mjög hratt út yfir íslenskan blómgróður. Lúpínan hefur betur í samkeppni við íslenskar tegundir. Hún nær allt að 110 sm hæð en íslenskar blómplöntur eru ekki nema 5-15 sm háar. Hún er fljótsprottin og skyggir á aðrar plöntur.
Við Bæjarstaðarskóg hefur lúpínan myndað miklar breiður og er orðin einráð í gróðurfari á stóru svæði. Árið 1988 óx lúpínan á fjórum stöðum við Bæjarstaðarskóg og þakti þá 1,7 ha en árið 2000 var lúpínubreiðan orðin 22,9 ha stór. Síðan árið 1991 hefur verið reynt að hefta framrás lúpínunnar með því slá hana með sigðum og vélorfum og reynt að eyða henni með illgresiseyðum.
Ekki hefur þó tekist að ná stjórn á útbreiðslu lúpínunnar með þessum aðferðum, því hún kemur sífellt aftur upp af fræforða og rótum. Talið er að lúpínufræ lifi a.m.k. allt að 80 ár í jarðvegi! Reynsla í Svínafelli í Öræfum hefur sýnt að sauðfjárbeit getur takmarkað mjög útbreiðslu lúpínunnar.
Þess vegna hafa þjóðgarðurinn í Skaftafelli, Umhverfisstofnun og Landgræðsla ríkisins í sameiningu ákveðið að hefja tilraun með sauðfjárbeit á takmörkuðu afgirtu svæði við Bæjarstaðarskóg til að reyna að halda lúpínunni í skefjum.
Viðbótarupplýsingar um lúpínu:
- Eins og baunagras og aðrar belgjurtir bindur hún köfnunarefni og eykur þar með frjósemi jarðvegs
- Lúpínan hefur betur í samkeppni við íslenskar tegundir eins og birki, eyrarrós og baunagras, vegna þess að hún er fljótsprottin, hávaxin, breiðumyndandi og skyggir á aðrar plöntur
- Stönglarnir rotna hægt og því er mikil sinumyndun í lúpínubreiðum. Sinan myndar samfellt botnlag og kæfir þar með annan veikari gróður. Auk þess eykur sinan brunahættu. Lúpínan hörfar oft 20-30 árum eftir að hún hefur myndað samfellda breiðu; þá fer mosi að vaxa á sinulaginu og ungplöntur ná ekki í gegn. Lúpínan hverfur þó ekki frá svæðum þar sem sífellt rask kemur í veg fyrir myndun sinu og mosavöxt, eins og í skriðum og við vatnsfarvegi og á áfokssvæðum