Rúmlega 30 æðakolluhreiður hafa fundist í vor í Vestmannaeyjum
Guðjón Gíslason og Steingrímur Jónsson framhaldsskólanemar hafa verið að rannsaka æðakolluvarp í Vestmannaeyjum í sumar - eitt af átaksverkefnum bæjarins í samvinnu við Rannsóknasetrið.
Guðjón segir að þetta hafi farið frekar seint af stað en menn eru sammála um að þetta sé góður árangur miðað við þann tíma sem rannskóknarstarfið stóð yfir. Hann ásamt Steingrími byrjuðu ekki fyrr en um miðjan júní, en telja að þeir hefðu átt að byrja heldur fyrr, helst um miðjan maí og þá hefði árangur etv. orðið enn betri.
Hreiðrin voru víðsvegar um eyjuna, en flest voru úti í Stafnsnesi eða 16. samtals. Undir Löngu voru 5 hreiður, 5 við flugvöllinn, og þar var sérstakasta hreiðrið en í því voru 9 egg samtals sem er mjög óvenjulegt þar sem þau eru yfirleitt ekki fleiri en 6, en meðaltalið eru 4 - 5 egg í hreiðri. Hann segir að þeir félagar hafi haft mjög gaman af þessari vinnu og eru menn sammála um að þeir hafi stundað vinnu sína af stakri samviskusemi. Páll Marvin hefur stjórnað þessari vinnu og heldur skrár yfir niðurstöður peyjanna.
Þeir vilja taka þátt í svona verkefni næsta ár og byrja þá fyrr. Peyjarnir tóku einnig þátt í að aðstoða bandaríska háskólanema í sumar, en þeir voru að rannsaka þorskinn, náttúruna og fuglalífið hérna í Vestmannaeyjum. Ný verkefni eru í uppsiglingu og undirbúningi.
Þetta allt kanna að leiða til þess að strákarnir vinni ákveðin afmörkuð verkefni í framhaldsskólanum í vetur sem metið verður til eininga og er Guðjóni umhugað að af því geti orðið.
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.