Rómuðu gestrisni Eyjamanna og fegurð Vestmannaeyja.
Katrine Strøm og Sven Spjelkavik heimsóttu okkur vegna ?Stille øy" sem er samvinnuverkefni tveggja eyjasamfélaga þ.e. Vestmannaeyja og Andareyja í N- Noregi. Meðlimir leikhússins í Götu í Færeyjum bætast í hópinn í sumar.
Fyrir tveim árum fór hópur ungmenna héðan á vegum Leikfélags Vestmannaeyja og Framhaldsskólans ásamt Andrési Sigurvinssyni leikstjóra til Noregs og unnu þau þar í leiksmiðju með hóp norskra ungmenna. Hóparnir söfnuðu gögnum og unnu upp og sýndu tvær sjálfstæðar leiksýningar í lok tímabilsins. Aðra í gömlum vita.
Nú er von á norska hópnum hingað til Vestmannaeyja í júlí í sumar og munu hóparnir vinna saman annað verkefni. Auk þeirra koma fulltrúar færeyinga hingað og kynna sér hópana og taka þátt í vinnunni í sumar.
Svo er ætlunin að fara þar næsta sumar til Færeyja og halda þessu þróunarverkefni áfram, sem þykir hafa skilað hópunum góðri reynslu í nýjum og öðruvísi vinnubrögðum og aukinni þekkingu á skyldri menningu og almennt aukið þátttakendum víðsýni og umburðarlyndi.
Síðast liðna helgi heimsóttu skipuleggjendurnir frá Noregi okkur til að ræða væntanlega heimsókn. M.a. kom upp sú hugmynd uppi að byrja á að hrista hópana saman út í einni af úteyjum okkar ,síðan að koma með uppákomur daglega í bænum eða umhverfis bæinn. Vinna með sögur frá sjávarsíðunni.
Sigurgeir Jónsson menningarfulltrúi ásamt Ástu Steinunni Ástþórsdóttur, varaformanni Leikfélagsins og Kristínu Halldórsdóttur tóku á móti þeim og lóðsuðu þau í skoðunarferð um eyjuna. Þau litu og inn á "Listahátíð ungs fólks" í Höllinni og sáu unga fólkið okkar sýna listir sínar og þótti mikið til koma.
Eftir velheppnaða ferð um Vestmannaeyjar bauð menningarfulltrúinn þeim til kvöldverðar að heimili þeirra hjóna að Gvendarhúsi og þar dvöldust þau í góðu yfirlæti fram eftir kveldi og skiptust á gjöfum við brottför.
Þá hélt Sven til næturgleði ásamt nokkrum leikfélagsmeðlimum og skemmti sér að sögn konunglega. Katrine sem er leikari og leikstjóri kaus hinsvegar að hvílast þar sem þau Andrés áttu framundan strangan dag í skipulagningu og hugmyndavinnu að dagskrá sumarsins.
Andrés fór síðan á sunnudeginum með þau á helstu staði tengdum Tyrkjaráninu og þótti þeim mikið til um þá atburði koma og vöktu Fiskhellarnir sérstaka athygli þeirra svo og Ræningjatanginn og virkið á Skansinum. Þeim þótti vænt um að sjá Stafkirkjuna norsku. Síðan var haldið inn í Spröngu og sprangað um stund og þeim sýnd listin. Færðist nú heldur betur fjör í leikinn og Sven heppinn að búið var að fjarlægja Djöflasteininn, en það er önnur saga.
Eftir létta máltíð og fundarhöld hélt framkvæmdastjórinn síðan með þau til skips og kvaddi með virktum. Þau báðu fyrir miklar og góðar þakkir til allra og Sven sem kvaðst víða hafa farið en aldrei fyrr hafa kynnst annarri eins gestrisni, boðið inn á einkaheimili, allir hefðu lagt sig fram að leysa sem best úr spurningum þeirra varðandi sögu Eyjanna, eldgosið og annað er þau fýsti að vita. Katrine tók í sama streng.
Undirritaður var lúmskt stoltur af okkur öllum og Vestmannaeyjum, þakkar gestunum komuna og hlakkar til að fá þau hingað í sumar og er sannfærður, að samvinna hópanna á eftir að lífga upp á bæjarlífið þá daga sem þau koma til með að dvelja hér á sumar komandi.
Andrés Sigurvinsson, framkvæmdastjóri fræðslu og menningarsviðs.