Ríkið kaupir myndasafn Sigmunds
Gleðileg tíðindi að myndasafn þessa hugmyndaríka listamanns verði ætlaður staður í væntanlegu Menningarhúsi Vestmannaeyja. Sigmund hefur oft réttilega verið nefndur Walt Disney okkar Íslendinga.
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra undirritaði í gærmorgun hér í Eyjum samning um kaup ríkisins á öllum teikningum Sigmunds sem birst hafa í Morgunblaðinu að viðstöddum bæjarstjóra og öðrum framámönnum bæjar og ríkis.
Í fréttatilkynningu sem forsætisráðuneytið sendi frá sér 15.12. segir: Samningar voru í dag undirritaðir um kaup ríkisins á öllum teikningum Sigmunds Jóhannssonar sem birst hafa í Morgunblaðinu um áratuga skeið, auk teikninga hans sem birst hafa í öðrum miðlum. Er um að ræða u.þ.b. 10.000 myndir. Þetta var samþykkt í ríkisstjórn Íslands nýverið, að tillögu forsætisráðherra, í tilefni 60 ára afmælis lýðveldisins Íslands og jafnframt í tengslum við 100 ára afmæli heimastjórnar.
Teikningar Sigmunds eru á sinn hátt aldarspegill þjóðarinnar og má með þeim skoða sögur íslenskra stjórnmála, atvinnulífs og menningar. Í ár eru einmitt 40 ár frá því að Morgunblaðið hóf að birta teikningar Sigmunds og ljóst að heimildargildi teikninganna er mikið, bæði fyrir fræðimenn og ekki síður almenning.
Samningur um kaupin voru undirritaður í dag í Vestmannaeyjum af Halldór Ásgrímssyni, forsætisráðherra og Sigmund Jóhannssyni að viðstöddum nokkrum þingmönnum kjördæmisins. Með kaupunum eignast ríkið allar frummyndir teikninganna og verður jafnframt eigandi að öllum réttindum myndefnisins. Kaupverðið er 18 milljónir króna. Stefnt er að því að framangreint myndasafn verði afhent væntanlegu menningarhúsi í Vestmannaeyjum til varðveislu og sýningar fyrir almenning. Jafnframt er stefnt að því að koma teikningum yfir á tölvutækt form aðgengilegar almenningi.
Fræðslu-og menningarsvið Vestmannaeyja