Ragnar Engilbertsson heiðurslistamaður Vestmannaeyja
Eftir að heim kom vann Ragnar við iðn sína sem málari, fyrst hjá föður sínum en síðar stofnuðu hann og bróðir hans fyrirtækið Gísli og Ragnar sem þeir ráku allt fram undir síðustu aldamót.
En Ragnar vann einnig ötullega að list sinni og liggur eftir hann mikill fjöldi listaverka, bæði í eigu stofnana, fyrirtækja og einstaklinga. Hann þykir sérstaklega snjall í meðferð vatnslita en einnig eru olíumálverk hans vel þekkt. Stór hluti verka hans tengist Vestmannaeyjum, landslagi, sögu og mannlífi staðarins. Þið, góðir gestir, hafið væntanlega tekið eftir því að á stigaganginum hér í Safnahúsinu eru nær allar myndirnar eftir þá feðga, Ragnar og Engilbert, föður hans.
Mesti heiður hvers listamanns er að vera virtur og viðurkenndur af sínu samfélagi, listar sinnar vegna, og þess heiðurs hefur Ragnar fengið að njóta, ekki aðeins í Vestmannaeyjum heldur víðar. Bæjarstjórn Vestmannaeyja langar til að leggja lítið lóð á vogarskálina með viðurkenningu fyrir vel unnið starf í þágu menningar og lista.