Ræða forseta bæjarstjórnar Guðrúnar Erlingsdóttur 17. júní 2005
Ágætu bæjarbúar og gestir!
Það er enginn frjáls nema sá sem getur séð fyrir sér sjálfu. Eitthvað á þessa leið sagði Bjartur í Sumarhúsum í Skáldsögu Halldórs Laxness Sjálfstæðu fólki.Við erum heppinn að búa í lýðræðisþjóðfélagi þar sem öllum er heimilt að hafa skoðanir og tjá þær opinberlega. Lýðræði fylgir ábyrgð og hana verðum við að axla á vettvangi þjóðmálanna og í bæjarfélaginu. Lýðræðinu verðum við að sýna tilhlýðilega virðingu. Við erum hluti af heild og okkur ber skylda hverju og einu að stuðla að áframhaldandi sjálfstæði Eyjamanna og Íslendinga allra. Það verður hver að leggja sitt af mörkum til þess að viðhalda lýðræðinu og sjálfstæðinu.
Landsbyggðin hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár af ýmsum ástæðum. Vestmannaeyjar hafa fengið sinn skerf af erfiðleikum og breytingum. Við vorum ekki búin undir breytta atvinnuhætti sérstaklega í sjávarútvegi. Það tók okkur talsverðan tíma að aðlagast breyttum aðstæðum, einkum þar sem skilaboðin voru þau í fyrstu að allt myndi lagast af sjálfu sér. Í stað þess að verjast, biðum við átekta og vonuðumst eftir því að ástandið lagaðist. Þegar sú staðreynd varð ljós að varanlegar breytingar áttu sér stað í undirstöðu atvinnugrein okkar, var samfélagið í fyrstu ekki tilbúið að takast á við þær og brestir virðast hafa komið í sjálfstraust Eyjamanna. Við fórum að að efast um eigið ágæti.
Við erum í dag í harðri sjálfstæðisbaráttu, baráttu fyrir tilveru bæjarfélaga á landsbyggðinni. Bættar samgöngur er krafa dagsins í dag. Oft höfum við farið bónleið til búðar og mætt á köflum litlum skilningi. Heldur hefur þó rofað til í þeim efnum með frumkvæði heimann. Það verður spennandi að fá niðurstöður úr rannsóknum vegna jarðgangnagerðar í sumar. Tilhneiging ríkisins að færa verkefni sín yfir á sveitarfélögin án nægjanlegs fjármagns er okkur þungur baggi. Ríkið setur t.d. reglur um húsaleigubætur, setur ákveðið fjármagn til þeirra, sveitarfélögin greiða það sem uppá vantar. Þegar fjármagn ríkisins er búið er sveitarfélögunum gert að greiða mismuninn. Sem betur fer er ríkisvaldið nú farið að starfa að einhverju leiti eftir eigin byggðaáætlun og farin að flytja opinber störf út á land, en betur má ef duga skal. Tekjur bæjarfélagsins duga í dag ekki fyrir rekstri. Ef við eigum að halda sjálfstæði okkar verðum við að halda áfram að taka til í rekstri bæjarins. Vestmannaeyjabær verður að færa þau verkefni sem hægt er til fyrirtækja á almennum markaði og einbeita sér þess í stað að mennta- og félagsmálum. Nýlega voru niðurstöður úttektar á skóla- æskulýðs- og forvarnarmálum kynntar og í kjölfar skýrslunar tekin ákvörðun af hendi bæjaryfirvalda að sameina undir eina stjórn grunnskóla Vestmannaeyjabæjar annars vegar og leikskólanna hins vegar. Það eru spennandi tímar framundan fyrir verkefnisstjórnina og starfshópanna sem skipaðir verða til þess að móta stefnuna til framtíðar í skóla- og æskulýðsmálum Vestmananeyjabæjar. Með þessum aðgerðum felast ný sóknarfæri. Ef við ætlum að halda fjárhagslegu sjálfstæði okkar verðum við að nýta það fjármagn sem til er á skynsamlegan hátt.
Ef við ætlum að halda sjálfstæði okkar verðum við að hugsa stórt og líta á heildamyndina. Við megum ekki einangra okkur, við verðum að vera í samstarfi við önnur sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir. Vestmannaeyjabær verður að leggja sitt af mörkum til þess að laða að fyrirtæki og fólk. Skólar, leikskólar, atvinna, heilsugæsla og samgöngur spila þar stórt hlutverk.
Nú fer fram vinna við gerð vaxtarsamning við Suðurland með áherslu á Vestmannaeyjar. Sú vinna á eftir að skila okkur miklu ef rétt verður að málum staðið. Hugmyndin með vaxtarsamningi er að nýta mismundi klasa til þess að efla og styrkja atvinnu- og mannlíf á Suðurlandi öllu með því að auka samkeppnishæfni svæðisins, efla hagvöxt, þróa og styrkja vaxtargreinar og efla svæðisbundna þekkingu. Markmiðið er einnig að fjölga samkeppnishæfum vörum, þjónustu fyrirtækjum og störfum. Nýta sér möguleika að alþjóðlegum verkefnum og laða að alþjóðlega fjárfestingu og þekkingu.
Atvinnuleysi er aldrei ásættanlegt og hefur Vestmannaeyjabær af miklum myndarskap staðið fyrir átaksverkefnum sem vakið hafa athygli á fastalandinu. Einhæfni atvinnulífsins og þröngur vinnumarkaður gerir það að verkum að einstaklingar eru án atvinnu á meðan að fyrirtækjum vantar vinnuafl.
Ég nefndi það áðan að brestur hefði komið í sjálfstraust Eyjamanna. Við erum hins vegar vön að takast á við erfiða hluti og vitum það vel að við verðum að bjarga okkur sjálf. Gamla sjálfstraustið og krafturinn hefur verið koma aftur á undanförnum misserum. Hér hefur fiskvinnslufyrirtækjum fjölgað þrátt fyrir erfiðleika í sjávarútvegi. Nýsmíði skipa er á döfinni, stóru fiskvinnslufyrirtækin farin að fjárfesta í auknu mæli í fyrirtækjum í heimabyggð. Ný fyrirtæki hafa komið í bæinn og má þar t.d. nefna BM ráðgjöf. Sífellt fleiri fyrirtæki eru í útrás og nefni ég þau fyrirtæki sem ég man eftir Reynistað, Skipalyftuna, Vilberg, Skóverslun Axel Ó, Sparisjóð Vestmannaeyja, Volare, Póley ofl. Nýjar verslanir hafa opnað og sumar hverjar með sérstökum glæsibrag og bjartsýni að leiðarljósi eins og Miðstöðin. Menningarlíf er með miklum blóma, ótrúlegur fjöldi fólks leggur stund á myndlist. Tónlistarskólinn blómstar sem aldrei fyrr og Kaffihúsakórinn og fleiri gleðja gesti og gangandi innan bæjar sem utan. Mikil gróska er í öllu tónlistarlífi sérstaklega hjá unga fólkinu. Leikfélagið starfað að metnaði og sett upp mjög skemmtilegar sýningar, auk þess er götuleikhúsið orðin ómissandi þáttur í öllum útiviðburðum.
Hver viðburðurinn rekur annan allt árið þar sem vel tekst til. Goslokahátíð, sumardagurinn fyrsti, páskahelgin, hippahátíðin, fjölskylduhelgin, íþrótta- og golfmótin, sjóstöngin, þjóðhátíðin ofl. Það eru fjölmargir aðrir að gera góða hluti sem ég hef ekki nefnt og vantar þá m.a.öll félagasamtök og einstaklinga sem láta gott af sér leiða.
Bæjarbúar hafa menntað sig sem aldrei fyrr á öllum skólastigum og er það vel því menntun er til þess fallin að auka víðsýni og stuðla að framþróun á öllum sviðum.
Njótum nú alls þess að góða sem Vestmannaeyjar hafa uppá að bjóða bæði í mannlífinu og ekki síður ókeypis aðgang að stórkostlegri náttúrunni allt í kringum okkur
Ég hef þá trú að Vestmannaeyjar séu á uppleið. Við höfum þurft að taka til hendinni í ýmsum málum og munum gera það áfram, slíkt kostar baráttu og fórnir. Berum höfuðið hátt og stöndum saman sannir Eyjamenn og stoltir Íslendingar í frjálsu lýðræðislandi. Öll erum við ein fjölskylda, ein þjóð, í einu landi. Það er viðeigandi að ljúka ræðu á þjóðhátíðardegi Íslendinga með eftirfarandi orðum Halldórs Laxness:
Gildi vort sem einstaklínga er komið undir teingslum vorum við samfélagið með ákveðna sögu að baki: hver einstaklingur er liður í ætt, hver ætt þáttur í þjóð, en þjóðin gróður ákveðins lands og hefur verið að skapast um lángar aldir. Hver einstaklingur rekur rót sína til frumlífs þjóðar sinnar, hann er afsprengi þessa sérstaka kynstofns, þessarar séstöku sögu , máls , landslags, lífsbaráttu, þjóðtrúar og svo framveigis. Utan hennar er hann í hæsta lagi launaþræll, hálfur maður, laufblað sem er kastað fyrir vindinn. (Halldór Kiljan Laxness)
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyja.