Ráðstefnan "Fljótandi skil leik- og grunnskóla"
Undirritaðar sátu ráðstefnu 1.apríl sl. á vegum Menntamálaráðuneytisins og í samvinnu við samráðsnefnd leikskóla, samráðsnefnd grunnskóla og Kennaraháskóla Íslands.
Steingrímur Sigurgeirsson aðstoðarmaður ráðherra, ávarpaði ráðstefnuna og sagði m.a. að engin áform eru uppi um að breyta aldursviðmiðum í leikskóla og grunnskóla. En ráðuneytið vill leggja áherslu á að hafa betri samfellu í námi milli skólastiga, sérstaklega m.t.t. þess að yfir 90% allra barna á Íslandi eru í leikskóla.
Bergur Felixsson var fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og nefndi hann t.d. í sínu ávarpi að brýnt væri að fá leiðbeinandi reglur um upplýsingastreymi milli skólastiga, þar sem þetta er mjög viðkvæmt mál. Er það í vinnslu á vegum lögfræðings Sambands íslenskra sveitarfélaga. Unnið er að endurgerðri námskrá 5-6 ára. Hann endaði síðan ávarp sitt á því að gjaldfrjáls leikskóli væri framtíðin.
Jóhanna Einarsdóttir, dósent í menntunarfræðum við KHÍ flutti fyrirlestur sem hún kallaði Er hægt að ?kenna" meira í leikskóla? Hún vann könnun á viðhorfum til náms. Þar bar hún saman t.d. ólík sjónarmið leikskólans og grunnskólans hvað það væri að kenna. Í leikskólanum læra börnin samskipti, viðhorf, sjálfræði og sjálfstæði á meðan í grunnskólanum er lögð áhersla á að læra lestur, skrift og reikning. Í leikskólanum eru þetta almenn markmið, en síðan eru afmörkuð markmið varðandi þroskaþættina t.d. skyn- mál- og hreyfiþroski. Í grunnskólunum eru markmið í ákveðnum námsgreinum. Jóhanna tók viðtöl við börn í leikskóla og þar segja börnin m.a. Í leikskólanum lærum við bara allt sjálf, en í grunnskólanum er okkur kennt. Börnin mynda sér mjög hefðbundna skoðun á því hvernig er lært - kennt.
Jóhanna telur að besta leiðin til að brúa bilið milli skólastiganna er að leik- og grunnskólakennarar hafi sameiginlega sýn á barnið.
Tilhneiging hefur verið að færa námsefni ?neðar", ekki gleyma okkur, verum á verði. Mikil breyting hefur verið síðustu 20 árin hvað þetta varðar.
Leikur - hreyfing - frímínútur er jafn nauðsynlegt fyrir vitsmunaþroska.
Í Finnlandi, þar sem byrjað er að kenna börnum mjög ungum, telja stjórnendur fyrirtækja því um að kenna að fólk eigi erfitt með að vinna saman.
Eftir fyrirlestur Jóhönnu, komu nokkrir hagsmunaðilar með sín viðhorf.
Björg Bjarnadóttir, formaður FL. Hún lagði áherslu á að fljótandi skil milli skólastiga byggist á samstarfi kennara beggja skólastiga. Þeir verða að kynna sér starf hvors annars, samræming og samfellt námsferli og færsla yfir á annað skólastig væri eðlileg þróun í lífi barnanna. Til að skapa þessu eðlilegu skilyrði þarf að gera kröfur um nokkra þætti.
Kröfur: Vilji kennara til samstarfs, jákvæð viðhorf, virðingu fyrir störfum hvors annars, skilningur á mismunandi kennsluaðferðum og gildi þeirra. Það þarf að vera drífandi forystumaður og aðstæður þurfa að vera til staðar í vinnuumhverfinu. Út með gjánna - út með fordóma.
Hindranir: Bil á milli skólastiga, slæm ytri skilyrði, ólík sýn hópsins, óskýr ákvæði í námskrám, tvísetning leikskóla, álit foreldra.
Hvað þarf? Bæta starfsumhverfi, ræða kennsluaðferðir fyrir 4/5 og 6/7 ára. Betri upplýsingagjöf milli skólastiga, lækka ?girðingar", auka jafnrétti hópa, jafna kjör og skoða kennaranámið í heild sinni.
- Grunnskólinn: Lesa Skrifa Reikna
- Leikskólinn: Leika Skapa Teikna
Ólafur Loftsson, formaður FG fór yfir stefnur grunnskólakennara og leikskólakennara um samvinnu skólastiga og skólamálaályktun KÍ. Þar kom fram sláandi munur grunnskólanum til vansa. Verið er að fara í þessi mál hjá FG.
Arnar Yngvason, aðstoðarleikskólastjóri Leikskólanum Iðavöllum, Akureyri. Hann lagði áherslu á faglegt rými starfsfólks til að vinna að hugðarefnum sínum, formleg og óformleg þróunarverkefni. Hann taldi að það að fara á milli skólastiga væri eðlilegur þröskuldur fyrir börn að kljúfa, það væri öðruvísi. Hann klikkti út með því að benda okkur á að það er EKKI HÆGT AÐ KENNA, en ALLIR GETA LÆRT. Kennararnir eru þeir sem skapa umhverfið/aðstæðurnar svo börnin okkar geti lært.
Ásta Egilsdóttir, leik- og grunnskólakennari í Grundaskóla Akranesi rakti samstarfið á Akranesi og hún hvatti til þess að leik- og grunnskólakennarar ynnu saman í 6 ára bekk.
Barbara Björnsdóttir, fulltrúi Heimilis og skóla. Jákvæð reynsla móður af samstafi leik og gunnskóla í Seljahverfi. Upplýsingar milli skólastiga séu í samvinnu við foreldra. Foreldrar geri meiri kröfur á öllum skólastigum. Veltir fyrir sér hvort það sé ?gat" í leikskólum hjá 4-5 ára börnum.
Oddný Hafberg, verkefnisstjóri í menntamálaráðuneytinu hélt fyrirlestur um Hugsanleg áhrif styttingar náms til stúdentsprófs á leikskólastigið. Hún benti aðallega á að nú þyrfti að endurskoða allar námskrár m.t.t. þessara breytinga og er byrjað að vinna í því. Námskráin á að henta öllum leikskólum, óháð stefnu þeirra
Rannveig Jóhannsdóttir, lektor KHÍ kynnti því næst verkefni, Sameiginleg sýn tveggja skólastiga í Seljahverfi. Þetta verkefni er búið að vera í gangi í nokkur ár og gengið mjög vel. Það sem var lagt upp með er m.a.
Fá sameiginlega sýn og mat á þroska og færni barnanna á mótum leik- og grunnskólaaldursins.
- Finna farveg fyrir upplýsingastreymi milli skólastiganna tveggja.
- 3 heimsóknir eru skipulagðar yfir veturinn.
- Mars - skólastjóraheimsókn
- Apríl - bekkjarheimsókn með 6 ára bekknum. 2 kennslustundir, nesti og frímínútur.
- Maí - tilvonandi skólafélagar koma saman í bekk með tilvonandi kennara.
Til að auðvelda þessa þætti hefur grunnskólinn flýtt skráningu barnanna í skólann. Þar með er fyrr hægt að raða í bekki og ákveða kennara.
Þær upplýsingar sem eru gefnar á milli skólastiga eru fylltar út af leikskólakennurum, foreldrar skrifa undir og samþykkja þau atriði og síðan eru gögnin send yfir í grunnskólann.
Eftirfarandi þættir eru skoðaðir í matsheftinu, Gengið yfir brúna
- Hreyfiþroski
- Sjálfshjálp
- Málþroski
- Félagsþroski - áhugasvið
- Annað, sértæk úrræði.
Kostirnir sem merkt er við eru: Já - getur ekki enn - nánar
Ólafur Arngrímsson, skólastjóri Stóru- Tjarnarskóla flutti erindi um Samrekstur leik- tónlistar- og grunnskóla. Í leikskólanum eru 10 börn. Leikskólakennari, sem jafnframt er deildarstjóri ásamt einum leiðbeinenda starfa við leikskóladeildina. Ýmislegt er samnýtt milli skólastiga. Má þar nefna mötuneyti, leikfimisal. Það sem mér fannst einna áhugaverðast var að störf/aðstoð inni á leikskólanum var val fyrir krakka í 8-10 bekk. Einnig er samvinna við eldri borgara á svæðinu, en þeim er boðið að koma 2x í viku og borða þá með börnunum í mötuneytinu, fara í heimsókn í handmennt og taka þátt í stafi þar o.m. fl. Sameiginleg menningarstund er fastur liður í skólastarfinu, og er það samvinna allra skólastiganna leik,- tónlistar- og grunnskólans.
Þessi ráðstefna var mjög fjölmenn, en það var áberandi að um 80% ráðstefnugesta voru leikskólakennarar og starfsmenn leikskóla. 20% voru grunnskólakennarar og fulltrúar sveitarfélaga. Það vaknaði upp sú spurning, sýnir þessi skipting ráðstefnugesta viðhorf til þessa mála?
Guðrún Helga Bjarnadóttir, leikskólafulltrúi og Margrét Brandsdóttir aðstoðarleikskólastjóri.
Fræðslu-og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.