Ráðstefna í Háskólabíói, laugardaginn 29. maí
Ofdekruð börn?
Laugardaginn 22. maí sl. hitti Jean Illsley Clarke að nýju leiðbeinendur ?Að alast upp aftur" námskeiðsins á Íslandi, ári eftir að hún kom og hélt leiðbeinendanámskeið fyrir hópinn.
Jean Illsley Clarke er 79 ára, frá Minneapolis í Bandaríkjunum og er hún meðal virtustu fræðimanna Vesturheims í uppeldismálum. Hún titlar sig sjálf sem ?foreldrakennara" enda er það meginmarkmið starfs hennar undanfarna áratugi að hjálpa foreldrum og börnum þeirra til sjálfshjálpar og vekja athygli á mikilvægi uppeldismála.
Tilgangur með heimsókn Jean til Íslands að þessu sinni er þríþættur, í fyrsta lagi að halda annað leiðbeinendanámskeið með ?Að alast upp aftur" námsefninu, í öðru lagi að halda opna ráðstefnu um nýja bók hennar um ofdekrun barna (How much is enough) og í þriðja lagi að hitta okkur, gömlu nemendurna frá leiðbeinendanámskeiði sl. árs. Fengum við forsmekkinn af þeirri umfjöllun sem hún mun verða með á opnu ráðstefnunni varðandi ofdekur foreldra en ráðstefnan ber yfirskriftina ?Hvernig segja á ?Nei" við látlausu ?Ég vil fá.""
Rannsókn Jean, sem hún vann með kollegum sínum Connie Dawson og David Bredehoft var þríþætt og líklega einstæð í sinni röð þar sem ofdekur barna er þáttur sem ekki hefur verið mikið rannsakaður. Í þessum þremur rannsóknum lýsir fullorðið fólk því hvernig það upplifði það að hafa verið ofdekrað sem börn og hvaða áhrif það hefur haft á það í daglegu lífi. Niðurstöður þessara þriggja rannsókna eru samhljóma og með þáttagreiningu komust höfundar að þeirri niðurstöðu að ofdekur á sér þrjár hliðar:
1. Of mikið af hlutu
Hið dæmigerða ofdekur í okkar huga er þegar foreldrar veita börnum sínum of mikið af veraldlegum hlutum, s.s. leikföngum, fötum, mat og öðrum lífsgæðum. Þetta er hins vegar aðeins einn hluti af ofdekri.
2. Of mikil umhyggja
Það er að sjálfsögðu ekki til neitt sem heitir of mikil ást en ást á börnum á ekki að fela í sér að við vomum stöðugt yfir þeim, tökum sífellt af þeim völdin, leyfum þeim ekki að öðlast færni eða að upplifa afleiðingar gerða sinna. Það er ofdekur.
3. Of lítill agi
Að gefa börnum of mikið frelsi og leyfi til athafna sem jafnvel felur í sér brot á reglum og lögum.
Út frá rannsóknunum komust höfundar niður á eftirfarandi skilgreiningu á ofdekri (í lauslegri þýðingu):
Ofdekur barna er það að gefa þeim of mikið af því sem lítur út fyrir að vera gott, of fljótt og of lengi. Ofdekur er að færa börnum hluti eða upplifanir sem eru ekki viðeigandi fyrir aldur þeirra, áhugamál eða hæfileika. Ofdekur felur í sér að gefa börnum til að mæta eigin þörfum (þörfum fullorðinna), en ekki þörfum barnanna.
Ofdekur er það að gefa til eins eða fleiri barna hlutfallslega of mikið af því sem fjölskyldan hefur (peninga, tíma, orku, áherslur). Það virðist vera gert til að mæta þörfum barnanna en gerir það ekki í raun svo að börnin upplifa skort í miðju nægtanna. Ofdekur er að gera, eða hafa svo mikið af einhverju að það raunverulega skaðar barnið eða að minnsta kosti veldur stöðnun hjá því og rænir barnið möguleikanum á því að öðlast færni og nota hæfileika sína.
Ofdekur er vanræksla. Ofdekur hindrar börn í að ná persónulegum þroska og í að læra nauðsynlegar lexíur lífsins.
Ofdekur veldur samkvæmt rannsóknunum m.a. því að fólk gerir sér aldrei grein fyrir því hvenær það hefur nóg. Það skortir virðingu fyrir öðrum, fólki og hlutum, það getur aldrei neitað sér um að öðlast hlutina strax, kann ekki þá list að bíða og hlakka til. Ofdekraðir einstaklingar hafa öðlast svokallað lært hjálparleysi, treysta á alla í kringum sig, líta á sig sem miðju alheimsins, skortir mörk, rugla saman löngunum og þörfum, og skortir ábyrgðarkennd.
Þessir eiginleikar geta aftur valdið því að fólk á erfitt með að fóta sig í vinnu, það ræður ekki við fjármál sín, hneigist til ofneyslu (drykkja, fíkniefni, ofát) og á í miklum erfiðleikum við að tengjast öðrum, mynda tilfinningabönd og stofna fjölskyldu.
En hvenær erum við að ofdekra? Hvenær vitum við að við erum að færast frá því að gefa börnunum nóg, yfir í það að dekra við þau stöku sinnum - sem er bæði skemmtilegt og nauðsynlegt - og síðan á hina hættulegu braut ofdekurs?
Jean Clarke og félagar tala um fjóra þætti sem líta ber á þegar við viljum meta hvort ofdekur á sér stað, hvort við vorum e.t.v. ofdekruð eða hvort við erum að ofdekra börnin okkar:
1. Þroski?
Hindrar þetta barnið í þroska, í því að læra nauðsynlega færni? Styrkir þetta barnið í þeirri trú að það sé miðja alheimsins?
2. Auðlind?
Fær barnið ójafnan - þ.e. hlutfallslega of mikinn hluta af því sem fjölskyldan býr yfir af peningum, tíma, orku eða áherslum?
3. Þarfir hvers?
Er þetta meira fyrir foreldrið en barnið? Er ætlast til þess að barnið taki þátt í einhverju sem foreldrið hefur áhuga á en er jafnvel á öndverðum meiði við áhuga eða getu barnsins?
4. Hugsanlegur skaði?
Hefur athöfnin á einhvern hátt í för með sér að barnið skortir eitthvað eða hefur það á einhvern hátt í för með sér hugsanlegan skaða fyrir barnið, aðra, umhverfið, samfélagið?
Ef svarið við einhverri af þessum spurningum er já, er líklegt að um ofdekur sé að ræða.
Laugardagurinn með Jean var skemmtilegur og fróðlegur enda er þetta einstök kona með mikla lífsreynslu og útgeislun. Eins og við Eyjamenn lendum svo gjarnan í varð ég svo fyrir því að verða veðurteppt á fastalandinu vegna þoku - aðeins ein ferð með Herjólfi - og uppskar bæði ég og Eyjamenn allir mikla samúð fundargesta fyrir að búa við svona afleitar samgöngur. Fátt er svo með öllu illt, þeir félagar hjá ÓB ráðgjöf sem standa fyrir komu Jean til landsins, ákváðu að bjóða Vestmannaeyingum ráðstefnuna n.k. laugardag á hálfvirði,- kr. 2.450 í stað 4.900.- sem þeirra framlag upp í ferðakostnað. Ég vil því hvetja alla þá sem möguleika eiga á að sækja ráðstefnuna að skrá sig en hún verður haldin í Háskólabíói laugardaginn 29. maí frá kl. 14.00 - 16.30. Skráning á vefsetrinu www.obradgjof.is og í síma 553 9400. Munið að taka fram að þið séuð frá Eyjum!
Guðrún Jónsdóttir
félagsráðgjafi