17. maí 2004

Ráðstefna á Ísafirði

Landsfundur fræðsluyfirvalda. Fulltrúar fræðsluyfirvalda hinna ýmsu landshluta  hittust á Ísafirði  13. og 14. maí s.l. Fulltrúar Vestmannaeyja voru And

Landsfundur fræðsluyfirvalda.

Fulltrúar fræðsluyfirvalda hinna ýmsu landshluta  hittust á Ísafirði  13. og 14. maí s.l. Fulltrúar Vestmannaeyja voru Andrés Sigurvinsson og Erna Jóhannesdóttir. Nokkur erindi voru flutt og báru menn sig saman um  hin margvíslegustu mál og málaflokka.  Rætt var um fjölmenningu, samrekstur skólastiga og samkennslu árganga, einstaklingsmiðað nám, stjórnskipulag, sameiningu og samstarf skóla.

Endurskoðun á skóla- og fræðslumálum.

Greinilegt er að fræðsluyfirvöld í Vestmannaeyjum eru ekki ein um það að vera í endurskoðun á skóla- og  fræðslumálum byggðarlagsins.  Fram kom á ráðstefnunni að  í flestum öðrum byggðarlögum  eru menn að  skoða hvernig hægt er að  gera betur á hverjum stað, félagslega,  faglega og fjárhagslega.  Hvatt var til  að sveitarfélög beri sig saman varðandi  þessa þætti og í bígerð er að búa til forrit  sem getur auðveldað þennan samanburð.

Samanburðarverkefni um gæði skólastarfsins.

Sagt var frá samanburðarverkefni sem hefur verið í vinnslu  hjá sambandi sveitarfélaga  í  Noregi.  Markmið verkefnisins er meðal annars að bæta þjónustu sveitarfélaganna og  leiða til betri og vandaðri vinnubragða og bættrar nýtingu fjármuna.  Norðmenn völdu að nota niðurstöður í lestri sem meginviðmið  um  gæði og árangur í starfi.  Í samanburði sem  gerður var á lestri nemenda í 2. og 7. bekk kom fram talsverður munur milli skóla og enn meiri munur milli sveitarfélaga varðandi árangur.   Til viðbótar við þessa viðmiðun í lestri voru lagðir spurningalistar fyrir nemendur um líðan þeirra í skólannum, samskipti við kennarana og fleira.  Niðurstöður spurningalistanna voru einnig notaðar til viðmiðunar um gæði skólastarfsins. 

Einstaklingsmiðað nám og samvinna nemenda.

Vert er að  segja frá  umfjöllun Gerðar G. Óskarsdóttur fræðslustjóra í  Reykjavík.  Hún ræddi um einstaklingsmiðað nám sem hún skilgreindi svo: ?Skipulag náms sem tekur mið af stöðu hvers og eins en ekki hóps nemenda eða heils bekkjar. Nemendur eru ekki að læra það sama á sama tíma heldur geta þeir verð að fást við ólík viðfangsefni og verkefni einir sér eða í hópum.  Nemendur bera ábyrgð á námi sínu og nám hvers og eins byggir á einstaklingsáætlunum."

Fræðsluyfirvöld í Reykjavík leggja mikla áherslu á að  þessi vinnubrögð verði tekin upp í umdæminu.   Talið er að með einstaklingsmiðuðu námi  sé hægt að koma mun betur til móts við þarfir nemenda. Nemendur öðlist styrkari sjálfsmynd, félagshæfni þeirra verði meiri og árangur betri.   Þessi vinnubrögð eru smátt og smátt að ná fótfestu í Reykjavík  og flestir skólanna hafa tekið einhver skref í átt að einstaklingsmiðuðu námi og samvinnu nemenda. Skólastjórar og kennarar hafa verið á námskeiðum þar sem leiðir að markmiðum um einstaklingsmiðað nám eru kynntar.  Sumir skólar hafa byrjað á að brjóta upp bekkjarkerfið og samvinna milli kennara um árganga eða stig hefur aukist. Endurskipulagning á sérkennslu fer fram þar sem áhersla er lögð á að nemendur með sérþarfir séu meira inni í námshópum en ekki í sérhópum eða sérdeildum.  Nemendur gera sér verkáætlanir og námsmat fer fram á annan hátt en verið hefur.

Einstaklingsmiðað nám í Vestmannaeyjum.

Fræðsluyfirvöld í Vestmannaeyjum hafa hvatt til þess að  einstaklingsmiðað nám verði haft í brennidepli á næstu árum.  Grunnur  verður lagður í vor þegar sett verður upp dagsnámskeið um efnið fyrir alla kennara í Vestmannaeyjum. Í framhaldi af því verður umfjöllun um efnið á námskeiðum haustsins. Loks er vert að nefna að kennsluráðgjafi skólaskrifstofunnar  hefur góða þekkingu á efninu og getur stutt við kennara sem hafa áhuga á að finna leiðir til að koma til móts við nemendur  með einstaklingsmiðuðu námi.

Erna Jóhannesdóttir fræðslufulltrúi og Andrés Sigurvinsson framkstj.

 


Jafnlaunavottun Learncove