Pompei Norðursins
Ferðamálaráð styrkir uppgröft á gosminjum um 5 milljónir
Styrknum er úthlutað í nafni Nýsköpunarstofa Vestmannaeyja sem sótti um styrkinní nánu samstarfi við umhverfis - og framkvæmdarsvið sem og fræðslu - og menningarsvið . Kristín Jóhannsdóttir, Páll Zophaníasson, tæknifræðingur, Haraldur Sigurðsson jarðfræði prófessor í Bandaríkjunum, Frosti Gíslason ,Andrés Sigurvinsson og fleiri komu að undirbúningi umsóknarinnar. Páll hannaði teikningar og útfærði hugmyndir sem fylgdu umsókninni og verður væntanlega verkefnastjóri verksins.
Ferðamálaráð hefur tilkynnt að verkefnið Pompei Norðursins hljóti 5 milljón króna styrk vegna verkefnis þar sem grafa á upp gosminjar. Grafin verða upp nokkur hús sem standa undir vikurlagi og útbúið sýningarsvæði með upplýsingum um gosið.
Alls bárust Ferðamálaráði 146 umsóknir um styrki til úrbóta á ferðamannastöðum á yfirstandandi ári en auglýst var eftir umsóknum um styrki um miðjan desember síðastliðinn. Umsóknirnar voru afgreiddar á fundi Ferðamálaráðs í dag og hlutu 53 verkefni styrk að þessu sinni. Til úthlutunar voru samtals um 40 milljónir króna sem skiptist í þrjá flokka en sótt var um samtals 236.482.000 krónur.
Boðað var til blaðamannafundar í gær vegna þessa þar sem Kristín Jóhannsdóttir, ferða-menningar-og markaðsfulltrúi Vestmannaeyjabæjar tilkynnti um styrkinn og sagði hún að reiknað væri með að hægt væri að hefja verkefnið snemma næsta sumar. Gert er ráð fyrir að um 10 manns muni starfa við uppgröftinn.
Byggt á frétt eyjar.net.
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.