Páll Steingrímsson á Safnanótt á Vetrarhátíð Reykjavíkur
Á Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar verður efnt til Safnanætur föstudagskvöldið 18. febrúar með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá í söfnum og sýningarsölum í Reykjavíkurborg frá kl. 18 - 24. Í Þjóðmenningarhúsinu, Hverfisgötu 15, sem m.a. sýnir helstu þjóðargersemiÍslendinga handritin, verða allar sýningar og viðhafnarstofur opnar. Gestir geta á handritasýningunni dregið til stafs með fjaðurpenna o g bleki soðnu af sortulyngi. Leiðsögumenn verða á rölti um húsið. Kræsilegar veitingar á vægu verði verða á veitingastofunni.
Boðið verður uppá einstaka dagskrá sem unnendur náttúru og sögu þjóðarinnarættu ekki að láta fram hjá sér fara:
Þjóð og náttúra: Sjáið sérunnin verk eftir Pál Steingrímsson kvikmyndagerðarmann og heiðursverðlaunahafa íslensku kvikmyndaakademíunnar 2004. Páll sýnir sex mismunandi stuttmyndaglefsur í bókasal allt kvöldið og kynnir sjálfur myndirnar kl. 20:30, 21:30 og 22:30. Sögupersónur myndanna eru, auk mannsins, dýrin í kringum okkur - íslenski hundurinn, hesturinn, lundinn, æðarfuglinn, gæsin og selurinn. Páll fangar samspil manns og náttúru á sinn varfærna og næma hátt þar sem virðingin fyrir viðfangsefninu er í fyrirrúmi. M.a. hefur Páll fest á filmu Hallgrím Þórðarson við lundaveiðar í Yztakletti.
Sjá nánar. Vetrarhátíð í Reykjavík verður sett á morgun kl. 19:30 við Hallgrímskirkju. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, setur hátíðina en síðan hefjast ljósatónleikar á torginu við kirkjuna, framreiddir af Herði Áskelssyni orgelleikara Hallgrímskirkju og fjöllistahópnum Norðan báli. Að tónleikum loknum verður farið í kyndlagöngu að Ráðhúsi Reykjavíkur, en þar býður Vesturfarasetrið á Hofsósi til mikillar menningarveislu sem standa mun alla Vetrarhátíð. Í kvöld verður svo margt um að vera í miðborg Reykjavíkur: hagyrðingakvöld á Nasa, danshátíð í Iðnó, vetrarhásæti úr ís og blóma/ljóðagjörningur í Ingólfsnausti, bókmenntaganga á vegum Borgarbókasafns, rokk í Hinu húsinu og gamlir slagarar í Fríkirkjunni.
Dagskrá Vetrarhátíðar má skoða með því að smella hér.
Hátíðina prýða ótal fjölbreyttir og skemmtilegir viðburðir og viljum við hvetja fólk til að njóta eins margra og mögulegt er frá fimmtudegi til sunnudags.
Við vekjum til dæmis athygli á Safnanótt föstudagskvöldið 18. febrúar, sem verður sett í Árbæjarsafni kl. 17.30. Þetta kvöld hafa nánast öll söfn í Reykjavík opið til miðnættis og bjóða upp á leiðsagnir og fjölbreytta dagskrá. Að sjálfsögðu er aðgangur ókeypis og til að gera kvöldið enn eftirminnilegra er sérstakur Safnanæturstrætó sem ekur á milli safnanna frá 18 - 24. Á föstudagskvöldinu eru einnig tónleikar gesta Vetrarhátíðar, indversk - bresku hljómsveitarinnar DCS á Nasa kl. 22. og er óhætt að lofa framandi og kátum tónum sem koma hlýju í vetrarkalda kroppa.
Á laugardeginum 19. febrúar fá tónelsk börn tækifæri til að upplifa hið sívinsæla verk Prokjefs, Pétur og úlfinn, í Hallgrímskirkju kl. 12 í flutningi Arnar Árnasonar leikara og Matthiasar Wager orgelleikara. Og sama dag kl. 15 er á dagskrá einn glæsilegasti viðburður hátíðarinnar í ár þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands flytur tónverk Barða Jóhannssonar við kvikmynd Benjamin Christensen frá árinu 1922, Häxan. Í framhaldi af tónleikunum leggja nokkrir fræðimenn Háskóla Íslands út af myndinni og halda stutt erindi um nornir, djöfla og galdratrú. Á laugardeginum er einnig Þjóðahátíð Alþjóðahússins í Perlunni, en hún fer nú fram í annað sinn á Vetrarhátíð og tókst með eindæmum vel í Tjarnarsal Ráðhússins í fyrra.
Sunnudagurinn 20. febrúar er lokadagur hátíðarinnar og þá ber hæst Heimsdagur barna sem haldinn er í Hlíðaskóla. Þar er á ferðinni einstök dagskrá fyrir börn á grunnskólaaldri þar sem þau geta tekið þátt í spennandi listsmiðjum eins og danssmiðjunni Dillidó, tónsmiðjunni Bumbu-Marimba, prófað Ævintýraspuna eða komist að því hver Amma Kúba er! Dagskrá hátíðarinnar lýkur í Perlunni síðdegis á sunnudaginn með hljóðgjörningi þeirra Sigtryggs Baldurssonar trommuleikara og rafsveitarinnar Ghostigital. Þá eru ótaldar spennandi göngur, tónlistardagskrár af öllu tagi, sýningar og meira að segja grímudansleikur! Góða skemmtun.
m.a. af vef Reykjavíkurborgar
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyja.