Opnun neyðarvistunar að Stuðlum
Stuðlar hafa á að skipa fagfólki í fremstu röð á sínu sviði, svo segja má að stofnunin sé móðurskipið í meðferðarkerfi ríkisins fyrir unglinga. Það er á Stuðlum sem grundvöllurinn er lagður fyrir áframhaldandi vinnu með einstaklinginn, hvort sem hún fer fram í framhaldsmeðferð á einhverju langtímameðferðarheimili Barnaverndarstofu eða í faðmi fjölskyldunnar að lokinni dvöl á Stuðlum.
Ég vil sérstaklega lýsa yfir ánægju með þá áherslu sem lögð er á fjölskyldusamvinnu og ráðgjöf við foreldra á Stuðlum. Reynslan kennir að forsenda árangursríkrar meðferðar er eftirfylgd og virkni foreldranna til að varðveita þann árangur sem meðferðin hefur skilað.
Í dag erum við hins vegar að fagna framförum sem varða annann þátt í starfsemi Stuðla: neyðarvistun í bráðatilvikum. Það hefur legið fyrir lengi að lokaða deild Stuðla er fyrir löngu orðin of lítil til að geta mætt þeim sívaxandi fjölda beiðna sem berast frá barnaverndarnefndum og lögreglu um vistun unglinga í bráðatilvikum. Á þessu verður nú blessunarlega breyting.
Hin nýja aðstaða sem nú er tekin í notkun á lokaðri deild Stuðla gjörbreytir öllum vinnuaðstæðum starfsfólks á neyðarvistuninni. Hún eykur öryggi unglinganna sjálfra, en dæmin sanna að sjálfseyðandi hegðun getur ógnað velferð þeirra með þeim hætti að ekki verður aftur tekið. Og vonandi gerir hún mögulegt að ekki þrufi að koma aftur til þess, að hafna þurfi beiðnum um vistun unglinga sem eru í bráðri hættu.
Ég óska starfsfólki Stuðla, og lokuðu deildinni sérstaklega, okkur öllum sem hér eru og síðast en ekki síst, unglinunum og foreldrum þeirra, innilega til hamingju með daginn!
Af vef félagsmálaráðuneytisins
Fræðslu-og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar