Olweusarverkefni gegn einelti.
Forvarnarstarf gegn einelti og öðrum óæskilegum félagsþáttum.
Allir starfsmenn grunnskólanna í Vestmannaeyjum, ásamt starfsmönnum íþróttahúss og félagsmiðstöðvar, ætla að leggjast á eitt og taka þátt í verkefni til að vinna gegn einelti í byggðarlaginu. Um er að ræða svokallað Olweusarverkefni en nálægt 40 skólar á Íslandi hafa nú þegar tekið þátt í slíku verkefni og aðrir 40 eru að fara af stað með verkefnið, en það stendur yfir í 2 ár. Ákveðin framkvæmdaáætlun liggur frammi strax í byrjun og er farið eftir henni í hvívetna. Fræðsluyfirvöld hafa lagt áherslu á að farið verði í þetta verkefni, ekki síst í ljósi ýmissa niðurstaðna skýrsla, sem liggja fyrir um stöðu mála hér varðandi þessi mál og önnur, er snerta skóla og heimili. Fræðsluyfirvöld telja fjármunum þeim sem verkefnið útheimtir velvarið til forvarnarstarfs sem þessa.
Vísindalegt mat á Olweusaráætlun sem framkvæmd var í Noregi sýndi að eineltistilfellum í skólum fækkaði um helming eða meira næstu tvö ár eftir að aðgerðaráætluninni var hrundið í framkvæmd. Einnig kom fram að það dró úr andfélagslegu atferli eins og t.d. þjófnuðum og skemmdarverkum, drykkjuskap og skrópi. Loks var það einnig staðfest að nemendum leið betur í skólanum en áður hafði verið og að mikil breyting hafði orðið til batnaðar í félagslegu andrúmslofti skólanna sem tóku þátt í verkefninu. Af þessu má sjá að til mikils er að vinna og eru foreldrar og aðrir bæjarbúar hvattir til að fylgjast með verkefninu og taka þátt í því eins og kostur er.
Sérstakur verkefnisstjóri, Helga Tryggvadóttir námsráðgjafi er í þjálfun til að stýra verkefninu fyrir hönd fræðsluyfirvalda.
Andrés Sigurvinsson framkvæmdastjóri fræðslu-og menningarsviðs